Gleði fram yfir grobb: Fjölbreytileiki innan bókmennta
Fjölbreytileika er að finna víðast hvar í lífinu, til að mynda í listum. Það er mikilvægt að fagna þessum fjölbreytileika í stað þess að smætta tiltekin listform niður í þágu eigin hégóma. Þetta á sérstaklega við um bókmenntaheiminn þar sem höfundar og lesendur upplifa fordóma vegna þeirra bókategunda sem þau halda upp á. Þetta er hluti af þeirri gömlu hefð að telja ákveðnar bókmenntir til „hámenningar“ á meðan aðrar bækur sem ungmenni og konur eru gjarnan tengd við eru „lágmenning“.
Hvað eru góðar bækur?
Mig langaði til þess að fjalla aðeins um mína eigin reynslu þegar kemur að bókmenntagreinum og því að þora ekki að segja frá bókunum ég les helst. Verandi með gráðu í bókmenntafræði finn ég fyrir pressu að lesa „góðar“ bækur, menningarlegar og merkilegar. Bækur sem ég get lært af og orðið að betri manneskju við að lesa. Mér finnst ég þurfa að lesa bækur eftir merkilega höfunda og geta sagt hvaða áhrif hún hefur haft á mig og samfélagið. Þó svo að ég lesi tiltölulega mikið af slíkum bókmenntum eftir höfunda á borð við Nawal El Sadaawi, Isabel Allende, Virginiu Woolf og fleiri sem hafa skrifað magnaðar og áhrifaríkar skáldsögur frá ólíkum menningarheimum þá þykir mér Hungurleikarnir enn vera ein besta bók sem ég hef lesið. Á ég að skammast mín fyrir það að þær bækur sem ég nýt mest myndu ekki falla í kramið hjá T. S. Eliot eða Hemingway?
Að sama skapi hefur mér liðið eins og ég viti ekki nógu mikið um ákveðna grein til þess að mega taka þátt í henni, segjast lesa hana eða njóta hennar - vegna þess að ég get ekki nefnt alla stærstu höfundana eða þekki ekki helstu einkennin. Kannski hefur það verið vegna eigin minnimáttarkenndar að mér hefur þótt vandræðalegt að segja frá þeim bókum sem mér þykja skemmtilegastar, en sú minnimáttarkennd hlýtur að vera sprottin út frá samfélagi þar sem sumar bækur eru í hávegum hafðar á meðan aðrar njóta ekki sömu virðingar.
Að þurfa að sanna eigið virði
Þetta er einnig þekkt meðal höfunda, að sumir teljast alvarlegir á meðan aðrir þurfa sífellt að sanna eigið gildi. Um þetta hafa til dæmis höfundar ástarsagna og ævintýrabóka fyrir ungmenni talað um, að þau hafi verið spurð hvenær þau ætli að fara að skrifa „alvöru bókmenntir“. Þrátt fyrir að markhópur slíkra bóka sé með þeim stærstu þurfa höfundar enn þann daginn í dag að berjast fyrir því að njóta virðingar.
En af hverju líður okkur eins og við þurfum að sanna okkur fyrir öðrum? Og af hverju skyldi það vera að við viljum útiloka aðra frá listforminu sem við höldum mest upp á? Eins og einungis rétti hópurinn megi hafa gaman að því sem við kunnum að meta. Ætli það sé vegna þess að við viljum samsama okkur með þeim og mynda þannig ákveðna heild? Er samt ekki betra að hleypa sem flestum að, víkka út sjóndeildarhringinn og fá þannig tækifæri til að kynnast einhverju nýju í afmörkuðu umhverfi líkt og þeirri bókagrein sem okkur líkar best við?
Bók þarf ekki að breyta lífi þínu
Þegar við segjumst ætla að fagna fjölbreytileikanum, þá verðum við einnig að hafa í huga þá afþreyingu sem fólk neytir. Við eigum öll rétt á því að njóta listar og fá að tjá okkur um hana án þess að finna til blygðunar - svo lengi sem listformið er ekki skaðlegt öðrum. Einnig er gott að hafa í huga að við þurfum ekki að læra af þeim bókum sem við lesum, fyllast andgift eða finna fyrir djúpstæðum áhrifum. Bók þarf ekki að breyta lífi þínu til að teljast góð. Hún þarf einungis að fanga huga þinn og veita þér gleði á meðan lestrinum stendur. Alveg sama þó þú gleymir söguþræðinum í heild sinni um leið og lestri lýkur, svo lengi sem þú skemmtir þér á meðan má þér finnast bókin góð og tala um hana sem slíka.
Við þurfum að fagna fjölbreytileikanum hvar sem hann birtist okkur, og muna að vera umburðarlynd og hafa í huga að ekkert er ofar öðru.