Eurovison 2022 ,Ómur fegurðarinnar’

Þýðing: Birgitta Björg Guðmarsdóttir

Nú fer óskastundin bráðum að renna upp og líkt og margir hafa getið sér til um er „ómur fegurðarinnar” einkunnarorð Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Keppnin verður haldin þann 14. maí næstkomandi (taktu kvöldið frá!) og eins og venjulega má finna margar mismunandi tónlistarstefnur meðal framlaganna. Lögin í ár eru engin undantekning, en á meðal þeirra má finna nokkuð fjölbreytt úrval (stíla, tungumála og listamanna af margvíslegum uppruna). Þau lög sem mér þykja skera sig úr eru Eistland, Frakkland, Georgía, Lettland, Noregur (sem gæti jafnvel verið eitt af mínum allra uppáhaldslögum, og þá meina ég líka utan Eurovision) og svo auðvitað Úkraína.

Hér að neðan sérðu lista yfir lögin sem keppa í ár og hvað mér finnst um þau. Að sjálfsögðu mun árangur laganna velta á frammistöðu listamannanna á sviðinu, og síðustu ár hafa mörg góð lög ekki náð inn í úrslitin, eða þau hafnað neðarlega á stigatöflunni (af ástæðum eins og fölskum nótum, óspennandi sviðsetningum, eða jafnvel vegna þess að áhorfendur fíluðu þau ekki . . .).

Ég er auðsjáanlega mjög spennt og mig langar að deila skoðunum mínum (og nokkrum staðreyndum) með ykkur! Athugið: ef þið viljið horfa á keppnina án fyrirframgefna hugmynda um lögin mæli ég með því að þú hættir lestri núna . . .

  • Albania - Sekret (Ronela Hajati) Lagið hefst á fuglagargi, sem er áhugavert. Það sigraði söngvakeppni Albaníu og er í flokki þeirra laga sem hafa nokkuð einstakt sánd (þó heyra megi í því viðlag með júrópopp stíl . . .)

  • Armenia - Snap (Rosa Linn) Armenska lagið veitir auðvelda hlustun og þó textinn sé dapurlegur er lagið nokkuð viðkunnanlegt og ég kann að meta það. Ég get ímyndað mér að það virki vel sem tónlist í bakgrunni tilfinningaríkrar senu í rómantískri gamanmynd. 

  • Australia - Not the Same (Sheldon Riley) Ástralía (sem ég skil ekki enn hvað eru að gera hérna) býður upp á mjög tilfinningaríka ballöðu að hætti Lewis Capaldi. Ekki slæmt en of sorglegt fyrir minn Eurovision smekk, en því gæti gengið mjög vel, sérstaklega ef sviðsetningin vekur athygli. 

  • Austria - Halo (LUM!X & Pia Maria) Halo er bara . . . mjög mikið Eurovision. Ég sé fyrir mér að það fái mikla spilun á Kiki eftir að keppninni lýkur. Það er klárlega skemmtilegt. 

  • Azerbaijan - Fade to Black (Nadir Rustamli) Nokkuð dramatískt framlag, og ég held að því gæti gengið vel ef það hefur einhverja spennandi sviðsetningu eða ljósasjó. Þetta er eitt af þeim lögum sem gætu þurft að reiða sig mikið á sjálfan flutninginn. 

  • Belgium - Miss you (Jérémie Makiese) Mér verður strax hugsað til James Bond upphafslaganna og ég get ekki gert upp hug minn um hvort það veit á gott eða ekki . . .

  • Bulgaria - Intention (Intelligent Music Project) Á heildina litið er lagið ekki svo slæmt, en ég er ábyggilega ekki ein um að finnast það ögn vandræðalegt, með tilliti til þess sem Úkraínumenn lifa nú við, að textinn fjalli um það að vera sent í stríð. Lagið var þó valið í desember svo þetta er aðeins óheppileg tilviljun.  

  • Croatia - Guilty Pleasure (Mia Dimšić) Sko. Ég fíla þetta lag, en ég er ekki viss um hversu vel því muni ganga, því það eru mörg mjög skemmtileg framlög í ár sem það þarf að keppa við. Það virðist líka vera að textinn fjalli um konu sem langar að halda fram hjá eiginmanni sínum og ég veit ekki alveg með það. 

  • Cyprus - Ela (Andromache) Áhugavert, en ekki jafn eftirminnilegt og sum hinna. Það er samið af tónlistarfólki sem hefur fjölbreyttan uppruna. 

  • Czech Republic - Lights Off (We Are Domi) Mér finnst þetta skemmtilegt, það er auðvelt að syngja með en textinn er svolítið skrýtinn og það eru nokkrir staðir þar sem vantaði greinilega eitthvað rímorð. 

  • Denmark - The Show (Reddi) Þetta er annað lag sem ég get ímyndað mér að komi fyrir í kvikmynd, jafnvel einhvers konar þroskasögu? Það hefst á hægum nótum en verður athyglisverðara eftir því sem líður á lagið. 

  • Estonia - Hope (Stefan) Þetta er eitt af mínum uppáhalds. Það minnir mig á villta vestrið í erindunum en í viðlögunum er meira júrópopp. 

  • Finland - Jezebel (The Rasmus) Ekki jafn spennandi og sum önnur framlög sem Finnland hefur sent frá sér, en það hefur samt svona týpískt finnskan karakter. 

  • France - Fulenn (Alvan & Ahez) Ég elska þetta lag (en ekki franska sambýlisfólk mitt). Það er reyndar ekki á frönsku, heldur á bretónsku (þetta er ekki í fyrsta skipti sem þau gera þetta, en þau sendu inn lag á korsísku árið 2011).

  • Georgia - Lock me In (Circus Mircus) Circus Mircus var með fyrstu staðfestu atriðunum. Lagið er ekki það slæmt miðað við að það er samið af uppflosnuðum sirkusskólanemum sem segjast hunsa hina heðfbundnu umgjarðir ‘tónlistar’. En ég krossa fingur og vonast eftir einhverri svakalegri sviðsetningu.

  • Germany - Rockstars (Malik Harris) Minnir á Lukas Graham og er nokkuð grípandi. Ég sé fyrir mér að það fái mikla spilun í útvarpi en að því muni ef til vill ekki ganga of vel í keppninni sjálfri. En hver veit?

  • Greece - Die Together (Amanda Tenfjord) Það kemur ekki á óvart að þetta lag sé nokkuð sorglegt. Það er fallegt, en hryggilegt.

  • Iceland - Með hækkandi sól (Systur) Þetta lag hefur mjög friðsælan og þjóðlagakenndan brag og það mun pottþétt virka á einhverjum ferðalagaspilunarlistum, sérstaklega ef fólk ferðast um í náttúrunni. 

  • Ireland - That’s Rich (Brooke Scullion) Það kom mér á óvart að lagið er mun meira júrópopp en önnur framlög sem Írar hafa sent frá sér áður. 

  • Israel - I.M (Michael Ben David) Framlag Ísraela er raunar virkilega grípandi. Ég get ímyndað mér að það verði spígsporað mikið á sviðinu.

  • Italy - Brividi (Mahmood & Blanco) Eftir sigurlagið í fyrra er Ítalía farin aftur að sýna gamla takta og sendir inn þægilegt, kósí lag. 

  • Latvia - Eat Your Salad (Citi Zēni) Lagið er með undarlegri framlögunum, en upphafslínur þess eru „í stað kjöts ét ég grænmeti og sleiki píkur.“ Það er grípandi, hefur góð skilaboð um  loftslagsmál, og er nógu skrýtið til að verða eftirminnilegt. 

  • Lithuania - Sentimentai (Monika Liu) Það eru ekki mörg lög eins og þetta í ár. Það er ef til vill of „kúl” (það er, djassað) fyrir Eurovision. Ég sé fyrir mér að á sviðinu megi sjá kynþokkafulla dansara í aðsniðnum leðursamfestingum eða eitthvað svipað. . .

  • Malta - I Am What I Am (Emma Muscat) Enn annað lag sem gæti virkað í þroskasögu-kvikmynd. Það er heilnæmt og jákvætt, og er efnilegt. Raunar er þetta það sem ég bjóst við frá Írlandi. 

  • Moldova - Trenuleţul (Zdob şi Zdub & Fraţii Advahov) Zdob şi Zdub keppir í þriðja skipti í Söngvakeppninni. Lagið er skemmtilegt og nokkuð skrýtið á týpískan hátt. Þeim hefur gengið vel í fyrri tilraunum sínum, (sjötta og tólfta sæti) svo ef til vill ná þau að endurtaka leikinn. Lagið er klárlega áhugavert. 

  • Montenegro - Breathe (Vladana) Eins og lag Grikklands er þetta nokkuð niðurdrepandi. Á heildina litið er það ekki slæmt - sviðsetningin gæti gert gæfumuninn. 

  • Netherlands - De Diepte (S10) Ég hélt ég myndi ekki fíla þetta lag, en því oftar sem ég hlusta á það því betur líst mér á það. Það gæti komið á óvart en samkeppnin er hörð. 

  • North Macedonia - Circles (Andrea) Titillinn ,Circles’ gefur leið til að halda að sviðsetningin gæti orðið nokkuð áhugaverð, lagið er ekki slæmt, en það er alls ekki jafn eftirminnilegt og sum önnur. 

  • Norway - Give That Wolf a Banana (Subwoolfer) Þetta er smellur og ef þú heldur öðru fram hefur þú rangt fyrir þér. Ég elska þetta lag. Það er stórfurðulegt og merkilega grípandi. 10 af 10.

  • Poland - River (Krystian Ochman) Þetta lag kom mér á óvart. Ég fílaði það meira en ég bjóst við að ég myndi gera. Pólland hefur ekki komist í úrslit síðan 2017 (og lentu þá í 22. sæti) en hver veit nema þeim gangi betur í ár. 

  • Portugal - Saudade, saudade (Maro) Portúgal sendir sífellt inn rómantísk lög, og þetta er engin undantekning. Það er friðsælt og þægilegt, en ef til vill aðeins of lágstemmt fyrir þessa keppni, sérstaklega ef við lítum á sum hinna atriðanna . . .

  • Romania - Llámame (WRS) Þetta er skemmtilegt því það er sungið á spænsku. Ég hef ensku að móðurmáli og hef alltaf gaman af því þegar lög eru ekki á ensku. Þetta er því skemmtileg (ef ekki óvænt) ákvörðun

  • San Marino - Stripper (Achille Lauro) Tískuvit Achille Lauro er fullkomið fyrir þessa keppni og ég er spennt að sjá hvaða föt hann velur sér fyrir atriðið. Lagið hljómar örlítið eins og það sé að reyna að vera Måneskin lag, en það er grípandi og ég fíla einstöku ensku orðin sem skjóta upp kollinum hér og þar, þó rímið sé ögn tilbreytingarlaus.

  • Serbia - In Corpore Sano (Konstrakta) Þetta lag er mjög grípandi, en þið skulið bara njóta þess án þess að reyna að skilja textann. Þau tala um Meghan Markle og mikilvægi þess að eiga sér hraustan líkama, „stækkað milta er ekki góðs viti“ . . . þú segir ekki?

  • Slovenia - Disko (LPS) LPS (sem stafar víst ‘Last Pizza Slice’) er mjög ungt band. Lagið er skemmtilegt og djassað og ég vona að þeim gangi vel, en ég held að það gæti verið of einfalt til að komast í úrslitin - það er alls ekki slæmt, en með Eurovision held ég að „minna er meira“ sé ekki að gera sig. 

  • Spain - SloMo (Chanel) Lagið er sungið bæði á spænsku og á ensku. Það er grípandi sumar-partílag, en ekki nógu sérstakt til að ég velji þau á toppinn í ár. 

  • Sweden - Hold Me Closer (Cornelia Jakobs) Þetta er ekki slæmt, en það er enn eitt rom-com lagið og ef til vill erfitt að skilja það frá hinum í undanúrslitunum.

  • Switzerland - Boys Do Cry (Marius Bear) Þetta lag er efnilegt og því gæti gengið mjög vel. Og já, það gæti absalútt komið fyrir í rómantískri gamanmynd, en ég held að það stingi ekki heldur í stúf í tilfinningaríku atriði í Pixar-mynd (eða, fyrir ykkur bresku lesendur, ef til vill í John Lews auglýsingu). 

  • Ukraine - Stefania (Kalush Orchestra) Sigurvegari Úkraínsku keppninnar var meinað að keppa af Úkraínskum stjórnvöldum, og þetta kom í staðinn. Ég kann að meta það og ég held að Úkraínu muni ganga vel.

  • United Kingdom - Space Man (Sam Ryder) Ég er ekki hlutlaus, þar sem ég er Bresk, en í sannleika sagt finnst mér þetta ekki svo slæmt! Eins sorglegt (eða réttlátt) og það er, þá gengur Bretlandi aldrei vel í Eurovision, en þetta er TikTok söngvari, svo ef til vill munu yngri áhorfendur kjósa hann.

MenningSam Cone