Á léttu nótunum: Viðtal við Guðmund Felixson
Hver er munurinn á spuna og sketsum? Hvernig er best að semja gott grín og hvernig veit man hvað er fyndið? Hvernig er hinn fullkomni sketsaþáttur? Stúdentablaðið settist niður með Guðmundi Felixsyni, sviðshöfundi og sprenglærðum spunaleikara, og ræddi við hann um grín, spuna og sketsahópinn Kanarí.
Minningar um sól og sumaryl
Kanarí er hópur grínista, leikara, sviðs- og handritshöfunda sem hefur gert garðinn frægan með samnefndum sketsaþáttum á RÚV. Hópurinn varð til árið 2018 og stefna hans er sú að búa til fyndna dagskrárgerð sem höfðar til yngra fólks og er í senn innblásin af hversdagsleikanum og samtímanum. Við spurðum Guðmund hvers vegna nafnið Kanarí hafi orðið fyrir valinu. „Við völdum þetta nafn eftir mikinn hausverk, okkur fannst það fela í sér ákveðna séríslenska stemningu og um leið hlýjar minningar um sól og sumaryl. Þú ferð til Kanarí til þess að flýja snjóinn, vera í sól og drekka bjór á ströndinni. Það er einhver sérstök stemning í því.“
Sama tungumál í spuna og sketsagríni
Spunatæknin sem Improv Ísland stundar er upphaflega frá Bandaríkjunum og var tekin upp hér á landi í kringum árið 2015. „Þetta er í rauninni ákveðin hugmyndafræði í gríni og aðferðafræði við að búa til grín,“ segir Guðmundur. Mörg sem lagt hafa stund á þessa spunatækni í Bandaríkjunum hafi sömuleiðis farið út í það síðar að semja sketsagrín fyrir sjónvarp. Það er því ákveðin tenging þarna á milli. „Ég held að ástæðan fyrir þessari tengingu sé sú að þetta er eiginlega sama tungumál sem við notum. Þegar við gerum spunasenur í Improv Ísland þá erum við í rauninni að semja sketsa á sviðinu.“ Í spunanum getur þó hvað sem er gerst og stundum fer allt svolítið út um þúfur. Sketsarnir eru hins vegar formfastari og fylgja yfirleitt föstum strúktúr. „Sketsasenur hefjast því oftast nær á því að ákveðnar aðstæður eru kynntar til sögunnar. Þessar aðstæður verða að vera venjulegar, það er mjög mikilvægt. Svo er eitthvað skrýtið kynnt til sögunnar, og þetta skrýtna er síðan stækkað. Svo reynum við að enda á því að þetta skrýtna geti ekki stækkað meira eða það kemur viðsnúningur á það.“
Leikari og höfundur í senn
Þegar kemur að því að semja sketsa segir Guðmundur það mjög gagnlegt að hafa reynslu af spuna. „Á spunasviðinu þá er maður ekki bara leikari heldur líka höfundur. Maður er í raun að semja senuna á meðan maður er að leika hana.“ Það sem virkar í spunasenum gengur þó ekki alltaf upp í sketsum. „Það sem er fyndið í spunasenum er eitthvað sem gerist lífrænt og á staðnum. Mistök eru til að mynda oft fyndin í spunasenum, en þau eru ekkert sérlega fyndin í sketsum. Svo er til dæmis ótrúlega fyndið á spunsviðum þegar einhver getur ekki haldið niðri í sér hlátrinum, en við myndum ekki gera mikið af því í skets.“
Skrifa grín sem er nokkurn veginn tímalaust
Ferlið við að skrifa sketsaþætti getur verið bæði langt og strangt. Oft líður langur tími frá því að efni er skrifað og tekið upp þar til það birtist að lokum á skjám landsmanna. „Maður lærir það mjög fljótt í sjónvarps- og kvikmyndagerðarbransanum að vera þolinmóður. Allir sem hafa einhvern tímann verið á setti vita að það er níutíu prósent bið. Þetta á líka við um það að skrifa og framleiða þætti – níutíu prósent af ferlinu er alltaf bið.“ En er ekkert erfitt að skrifa sketsa og grín sem kemur síðan ekki út fyrr en miklu seinna? „Jú, algjörlega,“ svarar Guðmundur. „En lukkunarlega tókum við þá stefnu mjög snemma sem hópur að skrifa grín sem er nokkurn veginn tímalaust. Við vísum ekki mikið í þjóðþekkta einstaklinga eða það sem er „heitt“ akkúrat núna. Við vísum þó vissulega í tíðarandann, tölum til dæmis um áhrifavalda og annað slíkt, en reynum að búa til grín sem við teljum að muni vera enn þá „relevant“ eftir fimm eða tíu ár.“
Hið sammannlega lykillinn að besta gríninu
Stefna Kanarí er því ekki sú að fjalla náið um málefni líðandi stundar, heldur fremur um hið sammannlega sem flest kannast við. „Okkur finnst mjög mikilvægt að sketsarnir okkar séu „relatable“ og fjalli um eitthvað sem fólk tengir við. Bestu sketsarnir verða yfirleitt til út frá samtali á milli okkar í hópnum. Hver hefur til dæmis ekki lent í því að heilsa einhverjum úti á götu en viðkomandi heilsar ekki til baka? Eða að fara í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og það eru læknanemar viðstaddir? Hið sammannlega er oft lykillinn að besta gríninu.“
Koma áhorfandanum á óvart
En hver er hinn fullkomni sketsaþáttur að mati Guðmunds? „Fyrir mér er hinn fullkomni sketsaþáttur sjúklega fyndinn og kemur á óvart. Ég vil reyna að koma áhorfandanum á óvart eins oft og hægt er.“ Hver skets þarf þannig að vera fyndinn og óvæntur en líka þátturinn allur í heild sinni. „Hinn fullkomni sketsaþáttur fer um víðan völl og snertir á alls konar tegundum af gríni og umfjöllunarefnum. Þannig að það er eitthvað eitt að gerast á skjánum og svo eftir tvær mínútur er eitthvað allt annað sem á sér stað. Það er mikilvægt að sjá til þess að efnið sé ekki einsleitt, að leyfa því að fara hingað og þangað og út um allt.“
Besta ráðið að skrifa endalaust
Að lokum spyrjum við Guðmund hvaða ráð hann myndi vilja gefa ungu fólki sem er að feta sín fyrstu spor í spuna og gríni og eiga sér jafnvel þann draum að semja sketsaþætti. „Ég mæli algjörlega með því að fara á spunanámskeið og stunda spunann frekar grimmt, af því að hann hjálpar svo ótrúlega mikið til við að þjálfa ákveðna vitund fyrir gríni. Svo er það bara þetta klassíska: að skrifa og skrifa, alveg endalaust. Skrifa eitthvað á hverjum degi og skrá niður fyndnar pælingar. Skrifa þó að þú vitir ekki fyrirfram hvar skrifin eigi að enda. Og ekki vera hræddur við að sýna skrifin þín öðrum og fá fólk til að lesa yfir fyrir þig. Það er óþolandi að vera skúffusketsaskáld.“
Finnið Kanarí á facebook og instagram: @kanarigrin