Í krafti nemenda: Ferð Stúdentaráðs Aurora til Íslands

Mynd: Sara Þöll Finnbogadóttir

Það er alls ekki ólíklegt að sem nemandi í Háskóla Íslands hafir þú heyrt minnst á Aurora. Sömuleiðis tel ég þó líklegt að það sé flestum óljóst hvað nákvæmlega Aurora er.

Heimsmarkmið og hagsmunir

Aurora er samstarf 10 háskóla innan Evrópu sem eiga sér sameiginleg gildi og markmið bæði á vettvangi menntunar og rannsókna. Saman vinna skólarnir að ýmsum verkefnum sem snúa til dæmis að aukinni alþjóðavæðingu, fleiri og fjölbreyttari tækifærum til skiptináms, jákvæðum samfélagsáhrifum rannsókna og umhverfisvernd, en samtökin vinna öll sín störf í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Ein af grunnstoðum samtakanna er virk þátttaka nemenda á öllum stigum ákvarðanatöku. Nemendur taka því þátt í öllum ákvörðunum sem varða hagsmuni þeirra. Um þessar mundir gegni ég embætti forseta Stúdentaráðs Aurora ásamt því að eiga sæti í stjórn Aurora og er þar málsvari nemenda í öllum stærri ákvörðunum innan samstarfsins.

Staðreyndin er sú að háskólar væru ekki til ef ekki væri fyrir nemendur; grundvallarhlutverk þeirra er að undirbúa nemendur undir heiminn sem bíður þeirra að námi loknu. Það er því brýnt að nemendum sé gefinn vettvangur og að mark sé tekið á sjónarmiðum þeirra. Virkni stúdenta er þó snúnari í framkvæmd en svo. Nemendur staldra yfirleitt stutt við í sínum skóla, einugis þau ár sem það tekur að ljúka námi og því fylgir að regluleg nýliðun á sér stað í nemendastörfum. Skiljanlega tekur það tíma að ná utan um nýtt og yfirgripsmikið verkefni og þegar nemendaveltan er jafn hröð og raun ber vitni er nauðsynlegt að finna leiðir til að auðvelda nýju fólki að komast inn í starfið og verða þar virkir þátttakendur. Með það markmið í huga ákvað Stúdentaráð Aurora að hittast á Íslandi dagana 11. til 13. mars sl.

Að sjá og mæta þörfum sjálf

Verkefnið sem við stóðum frammi fyrir var að skapa nemendahandbók sem ætlað er að auðvelda fulltrúum nemenda innan Aurora að kynna sér starfsemi samtakanna og hlutverk sitt innan þeirra, eins hratt og örugglega og auðið er. Handbókin var hugmynd nemenda og innihald hennar var samstarfsverkefni þeirra, því höfðu skoðanir allra fulltrúa þýðingu og jafnt vægi í vinnunni við að útfæra hana. Handbókin leggur sérstaka áherslu á þær upplýsingar sem núverandi fulltrúar nemenda telja þarfar fyrir hvern þann sem tekur við hlutverki innan Aurora.

Tækifærið til að koma að vinnu sem þessari - þar sem nemendur fá frjálsar hendur til að ráðast í verkin, þar sem þeir sjá þörf og mæta henni sjálfir - fellur fullkomlega að stefnu Aurora; að veita nemendum heildstæða menntun sem einskorðast ekki við veggi hinnar hefðbundnu skólastofu, heldur þjálfar frumkvöðlaanda og þróun skapandi lausna.

Mynd: Ivo Garnham

Ómetanlegt öryggi

Heimurinn fer stöðugt minnkandi, tækni þróast ört og þessum víðtæku breytingum fylgja nýjar væntingar. Kröfur vinnumarkaðarins hafa umturnast og vinna á borð við þessa veitir ungmennum tækifæri til að þróa með sér sjálfsöryggi á eigin þekkingu og getu til að takast á við krefjandi áskoranir. Það er ómetanlegt. Aurora gefur nemendum tækifæri til að öðlast reynslu sem stæði þeim annars ekki til boða og veitir þeim þjálfun á sviðum sem gleymast oft í hefðbundinni háskólamenntun.

Þverfagleg vinna með fólki sem býr að mismunandi menningarbakgrunni verður sífellt algengari og því er þörf á að háskólar þjálfi nemendur í að takast á við slík verkefni. Það að læra samskiptahæfni, gagnrýna hugsun, ræðumennsku o.s.frv. er jafn mikilvægt og að veita nemendum grunn í þeirri námsgrein sem þeir kjósa sér. Háskólar þurfa að sjá nemendum fyrir heildrænni menntun sem undirbýr þá raunverulega undir heiminn sem bíður þeirra eftir háskólanám. Það er markmið Aurora.

Mikilvægur málsvari

Verkefninu, sem hópurinn réðist í hér á Íslandi, er enn ólokið, enda ómögulegt að heildstæðir verkferlar séu samdir á þremur dögum. Nýja stúdentahandbókin verður kynnt fyrir starfsfólki Aurora í annarri viku maí og við vonumst til að fá hana samþykkta af stjórninni fyrir lok þess sama mánaðar. Með því samþykki verður hún gerð að lögmætu skjali, sem mun aðstoða komandi nemendur til að takast á við nýtt hlutverk, auk þess sem hún mun stuðla að stofnanaminni innan Stúdentaráðs Aurora. Það er von mín að ný stúdentahandbók muni efla Stúdentaráð Aurora og gefa nemendum tækifæri til að öðlast þá þekkingu og reynslu sem nauðsynleg er til að vera öflugur málsvari nemenda. Með skýrum verkferlum hafa framtíðarstúdentaráðsliðar Aurora aðgang að öllum þeim verkfærum sem gott er að hafa í farteskinu þegar kemur að því að veita nemendum háskólanna innan samstarfsins fjölbreyttari tækifæri til menntunar og skiptináms.

Ég er stolt af því starfi sem við vinnum og vona að það leggi grunninn fyrir áframhaldandi velgengni nemendafulltrúa Aurora til margra ára. Sömuleiðis er ég þakklát fyrir að starfa í umhverfi sem treystir þekkingu og getu nemenda og leyfir þeim að ryðja eigin braut.

Mynd: Kristinn Ingvarsson