Hvor er óður, þú eða ég?
Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir
Hvernig myndi þér líða ef sjálfsmynd þín væri allt önnur en sú ímynd sem aðrir höfðu af þér? Hvor þeirra er raunverulega þú? Hver er sannleikurinn? Sannleikur er allt annað en það sem er hægt að sýna fram á. Suma hluti upplifum við sem sanna en getum engan veginn sannað. Stundum trúir fólk á eigin sjálfsmynd sem passar samt ekki við raunveruleikann.
Spurning um upplifun
Í öðrum þætti leikritsins Sitt sýnist hverjum eftir Luigi Pirandello, stendur Laudisi, sem er persóna í leikritinu, fyrir framan stóran spegil. Enginn annar er á sviðinu, aðeins hann og spegillinn. Heyrist ekki orð og engin tónlist í bakgrunninum. Skyndilega ávarpar hann spegilmynd sína rétt eins og gamlan vin og spyr hana sláandi spurningar.
Hann spyr spegilmyndina hvor þeirra sé galinn. Laudisi kemur auga á flækju sem er fólgin í spurningunni. Hann er frekar viss um að hann þekki manneskjuna í speglinum en er hins vegar líka meðvitaður um að aðrir sjái hana ekki á sama hátt og hann gerir sjálfur.
„Laudisi: Þarna ertu þá!
(Hann hneigir sig og heilsar, snertir á sér ennið með fingurgómunum): Svei, gamli minn, hvor er óður, þú eða ég?
(Hann otar ógnandi fingri að spegilmynd sinni; og spegilmyndin gerir að sjálfsögðu slíkt hið sama. Þegar hann brosir, brosir spegilmyndin til baka): Auðvitað, ég skil! Ég segi að það sért þú og þú segir að það sé ég. Þú - þú ert óður! Nei? Er það ég? Gott og vel! Það er ég! Eins og þú vilt. Okkar á milli, þá kemur okkur sérlega vel saman, er það ekki! En málið er það að aðrir hugsa ekki til þín eins og ég geri; og fyrst það er svo, gamli minn, er þetta nú meira klandrið! Hvað mig snertir, þá segi ég að hér, beint fyrir framan þig, get ég séð sjálfan mig með eigin augum og snert mig með eigin fingrum. En hvað ert þú fyrir öðrum? Hvað ert þú í þeirra augum? Mynd, herra minn, aðeins mynd í spegli! Þau bera öll alveg eins vofu innra með sér, og svo klóra þau sér í kollinum varðandi annarra manna vofur og halda að þetta sé allt annar hlutur!“
Luigi Pirandello, Sitt Sýnist Hverjum, brot í þýðingu Lilju R. Einarsdóttur út frá enskri útgáfu eftir Arthur Livingston– (New York: E. P. Dutton, 1922)
Laudisi heillast af hugmyndinni um að ímynd okkar sjálfra af því hvernig við birtumst umheiminum sé önnur en sú sem fólk sér. Í annan kantinn er það oft mikilvægara hvernig við upplifum okkur sjálf út frá sjálfmiðuðu sjónarhorni frekar en hvernig við virðumst í augum annarra. Hinsvegar getur raunveruleikinn verið flóknari og jafnvel hálf tryllingslegur.
Ómeðvituð um eigin veikindi
Til eru tilfelli þar sem fólk sem glímir við andleg veikindi áttar sig ekki á vanlíðan sinni. Þetta er ekki tegund afneitunar heldur taugafræðilegt einkenni. Þetta kallast líkamstúlkunarstol (e. anosognosia) sem á rætur að rekja til forn grísku ἀ- (a-, “ekki, án”) and νόσος (nósos, “sjúkdómur”) and γνῶσις (gnôsis, “viska”). Þetta finnst helst meðal Alzheimersjúklinga, fólks með Huntington’s sjúkdóminn, geðklofa eða geðhvarfasýki. Fólk með líkamstúlkunarstol heldur að það sé við fulla heilsu og hættir iðulega að taka lyfin sín.
Heilinn í okkur er stöðugt að uppfæra sjálfsmynd okkar. Í hvert sinn sem við uppgötvun eitthvað nýtt um okkur sjálf skipuleggur ennisblaðið nýju upplýsingarnar, endurskoðar gömlu sjálfsmyndina og geymir svo uppfærslurnar. Sum andleg veikindi geta skaðað ennisblaðið og getur það því ekki unnið úr nýjum upplýsingum til að endurnýja sjálfsmyndina. Sérfræðingar telja þetta vera orsök líkamstúlkunarstols. Ef ennisblaðið er í ólagi er fólk ekki meðvitað um breytingar sem verða á sjálfsmynd þeirra og sér því aðeins endurspeglun af eldri sjálfsmynd sem hafði ekki orðið fyrir áhrifum sjúkdóms. Með öðrum orðum er kerfið ekki uppfært hjá þeim sem glíma við líkamstúlkunarstol.
Hvernig má koma fólki með líkamstúlkunarstol (e. anosognosia) til hjálpar?
Að eiga ástvini með líkamstúlkunarstol getur reynst erfitt. Þau sem búa við þessi einkenni neita oft að tala um andlegu veikindi sín og ergjast þegar þeim er bent á þau. Fyrst má láta reyna á LEAP (e. Listen-Empathize-Agree-Partner) aðferðina (https://leapinstitute.org/) sem Dr Xavier Amador þróaði. Þessi nálgun mun hjálpa til við að þróa traust með manneskjunni sem glímir við líkamstúlkunarstol. Næsta skref er svo að fá viðeigandi sálfræðiaðstoð frá sérfræðingum. Samspil milli hugrænnar atferlismeðferðar og geðlyfja geta þá stuðlað að betri meðvitund um andlegu veikindin.