Fjöltyngi er fjársjóður
Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir
„Allir borgarbúar búa í ýmsum heimum á mörgum tungumálum.“ (e. “All city people inhabit several worlds in many languages.”)
Svo mælir Binyavanga Wainaina, rithöfundur frá Kenya, í ævisögu sinni One Day I Will Write About This Place. Titillinn vísar í Kenya þar sem flest fólk talar bæði opinberu tungumál landsins, þ.e.a.s. ensku og kiswahili, ásamt móðurmáli sem gæti verið eitt af þeim 68 tungumálum sem töluð eru í Kenya. Þetta brot nær yfir kraftinn sem býr í fjöltyngi sem vel getur átt við í víðara samhengi.
Tungumál opna dyr
Þetta á sífellt betur við þegar samfélagið hliðrast og aðlagast með áframhaldandi alþjóðavæðingu. Alþjóðasamfélagið einkennist af flutningum, færanleika og breytingum, hlutum sem hafa bein áhrif á landslag tungumála. Þetta veldur þeirri þverstæðukenndu tilfinningu að hinn áþreifanlegi heimur fari sívaxandi með bættu aðgengi að stöðum sem áður fyrr voru einangraðir en á sama tíma fari heimurinn minnkandi. Sé nógu lítill til að passa í lófa okkar. Við getum nú haldið fundi milli landa, við mætumst við skjáinn til að skiptast á hugmyndum og reynslu á tungumáli sem við höfum fengið að láni og gert að samskiptamáli. Með hverju tungumálinu sem við lærum opnast fyrir okkur heill heimur, brunnur tækifæra og skilnings sem við höfðum ekki aðgang að áður. Þetta opnar ekki einungis nýja farvegi í samskiptum heldur eru tungumál í eðli sínu líka menningarleg. Hið samtvinnaða samband tungumála og menningar veldur því að menning mótar málið en tungumálið hefur einnig afgerandi áhrif á menningu vegna þess að tungumálið mótar hugsun.
Endurspeglun áskoranna
Í Pormpuraaw, svæði frumbyggja í Queensland í Ástralíu, er talað Kuuk Thaayorre sem er tungumál sem á ekki sérstakann orðaforða yfir afstæð rýmdar hugtök eins og t.d. hægri eða vinstri. Í staðinn nota þau höfuðáttirnar, ekki bara þegar verið er að tala um langar vegalengdir heldur í öllum aðstæðum, til dæmis „gaffallinn á að setja vestan við diskinn.“ Til að tala Kuuk Thaayorre verður þú að vera vel áttaður. Þessi skilyrði tungumálsins knýja fram og æfa vitsmunalega hæfileika.
Mannfólk er gjarnt á að aðlagast og býr á landsvæðum sem hver hafa sínar áskoranir ásamt einstökum menningarbakgrunn og tungumálum í sögu sinni. Sögu fullri af áskorunum, þörf og þrá fólksins sem býr þar. Hver staður býður upp á vitsmunaleg tól og fólkið sem þar dvelur býr yfir visku og heimsmynd sem hefur þróast á þúsundum ára innan menningar sinnar. Hver staður veitir aðferðir við að skynja og flokka heiminn og gefa honum merkingu. Tungumálið er arfleifð sem hefur gengið kynslóðanna á milli í sífelldri þróun og vexti til að ná yfir upplifanir mannkyns.
Þetta er það sem ég meina þegar ég segi að við eignumst nýjan heim með hverju tungumáli. Tungumál er ekki aðeins táknasúpa með samþykktum merkingum. Tungumál er óaðskiljanlegur hluti menningar og því er fjöltyngi svona mikill fjársjóður.
Að lifa af er að breytast
Nútíma námskrár einkennast að miklu leyti af eintyngdri heimsmynd sem er ráðandi í samfélaginu. Aðalástæða þess er hræðslan við breytingar, hræðslan við það að hið „hreina“ tungumál okkar og menning verði fyrir erlendum áhrifum. Það er algeng hugskekkja að halda að tungumál sé fast fyrirbæri sem hægt sé að afmarka og einskorða en það hefur aldrei verið satt. Hinsvegar er tungumál síbreytilegt fyrirbæri í sífelldri þróun sem ekki er hægt að stöðva. Við vitum þetta til dæmis vegna þess að regluleg endurnýjun orðabóka er nauðsynleg þar sem tungumál er ekki, og ætti aldrei að vera, kyrrstætt. Um leið og við sleppum hugmyndinni um að þurfa að „vernda“ tungumálið frá þróun sinni til að henta þörfum þeirra sem tala það, þegar við færumst frá málhreinsunarstefnu, þá og aðeins þá, getum við opnað fyrir fjöltyngda heimsmynd þar sem blöndun tungumála er ekki lengur smánuð heldur viðurkennd sem náttúruleg útsjónarsemi í samskiptum. Tungumál eru ekki einstaklingsbundin fyrirbæri sem til eru í einangrun og geymd í afmörkuðum krókum heilabúsins sem aðeins koma fram á yfirborðið sem skemmtiatriði. Tungumál eru síbreytileg og við höfum aðeins takmarkaða stjórn á þeim.
Að sjá möguleikana
Hugmyndin um þjóðlegan hreinleika eða hreint tungumál stendur ekki undir sér. Með því að skorða okkur við það sem er nú þegar til, afneitum við öllum breytingum og þar með öllum vexti. Hugmyndin um fjöltyngi er að finna stöðugleika í breytingunum en að horfa ekki á stöðugleika sem andstöðu við breytingar. Með því að taka fjöltyngi opnum örmum, verður meðvituð hliðrun í umræðunni sem ræktar samfélag fólks sem víkur ekki frá fjölbreytileika eða hinum ýmsu málfræði- og menningarlegum kerfum, sem vilja ekki einskorða tungumálið og halda í það sem nú þegar er til, en sér í staðinn möguleika í menningarskiptum.
Samfélag sem sér heila heima og getur ekki beðið eftir því að þekkja þá.
Fjöltyngt samfélag.
Þetta er það sem námskerfið ætti að ala í okkur. Heimsmynd sem viðurkennir þann auð sem finnst í tungumálum, sem hvetur til forvitni og málfræðilegar nýsköpunar frá unga aldri og býr nemendur undir sí-alþjóðlegri heim.