Litblindan og ég
Þýðing: Anna María Björnsdóttir
Ég man þegar ég var krakki og eyddi kvöldunum fyrir framan sjónvarpið, horfandi á hvað sem var á dagskrá til að eyða tímanum. Eitt kvöldið var myndin Reservoir Dogs í gangi og ég átti erfitt með að fylgjast með söguþræðinum vegna þess að mér fannst allar persónurnar líta eins út.
Það var ekki fyrr en ég var 18 ára að ég skildi loksins af hverju. Þá var mér fyrst sagt að ég væri litblindur.
Á höttunum eftir regnboga
Algengustu gerðir litblindu lýsa sér í erfiðleikum við að greina á milli lita, upp að mismunandi marki. Þetta stafar af því að mannsaugað inniheldur undir venjulegum kringumstæðum þrjár sjálfstæðar rásir sem miðla litaupplýsingum - litaviðtakar. Og þegar einn (eða fleiri) þeirra er gallaður eða vantar hefur það áhrif á litsjónina á einn eða annan hátt.
Deuteranopia og Deuteranomaly – hefur áhrif á skynjun á mjög löngum bylgjulengdum, eins og rauðum, og veldur því að ekki er hægt að greina grænan frá rauðum eða að grænir litir virka rauðkenndir;
Protanopia og Protanomaly – hefur áhrif á skynjun meðallangra bylgjulengda, eins og grænum, og veldur því að ekki er hægt að greina rauðan frá grænum eða að rauðir litir virka grænkenndir og daufari;
Tritanopia og Tritanomaly – hefur áhrif á skynjun stuttra bylgjulengda, eins og bláum, og veldur því að ekki er hægt að greina bláan frá grænum, fjólubláan frá rauðum og gulan frá bleikum eða að erfitt er að greina bláan frá grænum og gulan frá rauðum;
Monochromacy – einnig þekkt sem „algjör litblinda“ og er mjög sjaldgæf.
Flest litblint fólk mun segja þér að líf með litblindu sé í flestum tilfellum einungis örlítil óþægindi. Þrátt fyrir að þessi „fötlun“ sé þekkt fyrir að hafa áhrif á daglegt líf og framtíðar starfsframa margra, mig meðtalinn. Slökkviliðar, lögregluþjónar, læknar, rafvirkjar, (atvinnu)flugmenn, grafískir hönnuðir og hermenn eru einungis brot af þeim mörgu starfstitlum sem reiða sig í ríkum mæli á liti svo hægt sé að sinna starfinu vel, með hinum ýmsu áhættuþáttum. Á meðan vandamál þessara tilteknu sjónskerðinga hafa verið afgreidd í vissum störfum, með nútímasamfélagi að þróast í átt að algjöru samþykki á hinum ýmsu kvillum sem fólk hefur, er staðan enn fjarri góðu gamni.
Þetta er algjört hundalíf
Ég veit að nú hugsið þið líklega að „hlutirnir eru ekki alltaf svartir og hvítir“ en fyrir suma þá eru þeir það. Bókstaflega. Um 8% fólks með XY-litninga og 0.5% þeirra með XX-litninga þjást af einhvers konar skorti á litsýn, sem er oft arfgeng. Þetta er vegna þess að genið sem ber litblindu finnst á X-litningi sem veldur því að hún er líklegri til að koma fram hjá þeim sem eru með XY-litningasamstæðu. Að sama skapi þá geta einstaklingar með XX-litningasamstæðu borið genið án þess að litblindan komi fram (nema í þeim sjaldgæfu tilvikum þegar báðir X-litningar bera arfgengu stökkbreytinguna).
Til að skilja þetta betur getum við litið aftur til 18. og 19. aldar konungsfjölskyldnanna í Evrópu, þjakaðar af „konunglega sjúkdómnum“ - dreyrasýki. Verandi talsvert hættulegri af þessum tveimur sjúkdómum, hefur dreyrasýki (vanhæfni blóðs til að storkna almennilega) hrjáð aðalinn í gegnum afkomendur Viktoríu Bretadrottningar og þeirra óhóflegu þörf að halda ættinni göfugri. Staðfest hefur verið að sex kvenkyns afkomendur hennar (þeirra á meðal tvær dætur hennar, Alice og Beatrice prinsessur) og níu karlkyns (einn af sonum hennar, Leopold prins, meðtalinn) voru annað hvort með dreyrasýki eða báru genið, sem síðan dreifðist yfir í konungsættir Þýskalands, Spánar og Rússlands. Ein ástæða þess að sjúkdómurinn hvarf að einhverju leyti má rekja til þess að hann styttir lífslíkur þeirra sem fá hann. Sem, blessunarlega, er ekki raunin með litblindu.
Grasið er ávallt fjólublárra…
Ég hef heyrt spurninguna: „Hvernig er þetta á litinn?“ ótal sinnum í hinum ýmsu félagslegum aðstæðum, allt frá nánum vinum til hálfgerðra kunningja. Jafnvel þótt hún virðist saklaus getur spurningin ýtt undir og skapað kvíða - ekki bara ein síns liðs heldur einnig vegna samtalsins sem mun óneitanlega fylgja. Það nýtir sér veikleika og mögulegt óöryggi fólks, neyðir það til að taka þátt í samtali þar sem það er dæmt fyrir eitthvað sem það hefur enga stjórn á. Og spurningin kemur (nánast) aldrei bara einu sinni.
En í stað þess að færa sök yfir á aðra, eða vilja líkjast þeim, er leiðin fram að líta inn á við. Persónulega tel ég sjálfan mig vera óforbetranlegan bjartsýnismann sem lítur á heiminn í gegnum blálituð gleraugu. Ég trúi því að það að takast á við eigin galla jafngildi því að vaxa sem manneskja og ég trúi því að það að geta notað húmor til að takast á við óþægindi, erfiðleika eða hvaða óreiðu sem er í lífi þínu verði til þess að þú getir sætt þig við hluti sem þú færð engu um breytt, á meðan þú reynir að gera hið besta úr því.
Hvað með það að ég geti ekki keypt þroskaða banana úti í búð upp á eigin spýtur?
Eða það að ég get ekki unnið fyrsta borðið í Candy Crush?
Eða það að fyrir mér eru norðurljósin ekkert nema þunn skýjaslæða?
Ég átta mig á því að litir eru fallegir fyrir þeim sem geta greint þá og kunna að meta þá til fulls. Líka fyrir mér, því ég á gleraugu sem rétta af liti og hjálpa mér gríðarlega með því að leyfa mér að skimast inn í heim litanna í hvert sinn sem ég geng með þau. Þegar ég geri það, trúðu mér, þá virðist heimurinn þeim mun meira töfrandi og spennandi svo að jafnvel grænkan í grasinu fær hjarta mitt til að sleppa úr takti.
Sagt er að þú vitir ekki í raun hvað þú hefur fyrr en þú missir það, en ef það var aldrei þitt geta stutt kynni verið nóg.