Svefnráð úr ýmsum áttum
Öll þurfum við að sofa. Það getur þó verið hægara sagt en gert að sofna. Það dugar ekki alltaf til að leggja höfuðið á koddann, loka augunum og leyfa meðvitundarleysinu að líða yfir sig. Stundum fer hausinn á fullt, mínúturnar verða að klukkustundum og allt í einu hringir vekjaraklukkan að morgni eins og grimm áminning um þann litla svefn sem við fengum um nóttina. Við könnumst eflaust mörg við þetta vandamál og svefn er því miður sjaldan ofarlega á forgangslista flestra námsmanna. Hér eru því nokkur ráð sem ég fékk úr ýmsum áttum á háskólasvæðinu og vonandi reynast þau ykkur vel í svefnleysinu.
Hugleiðsla er frábær leið
Í mörgum af þeim ráðum sem ég fékk var lögð áhersla á hugleiðslu í einhverju formi. Þetta liggur auðvitað beint fyrir. Svefn snýst um hvíld og því er gott að ná innri ró til að svífa yfir í draumalandið. Hugleiðsla hefur það markmið að tæma hugann og beina athyglinni að líkamanum. Þá eru ýmsar aðferðir til að hugleiða, það er hægt að einbeita sér að önduninni, skanna líkamann frá hvirfli til ilja eða einfaldlega tæma hugann. Mikilvægast er þó að finna það sem hentar hverju sinni.
„Ég anda inn í 4 sek, held inni andanum í 7 sek og anda frá mér á 8 sekúndum. Það hjálpar mér að róa mig niður.“ - Hulda Sif Högnadóttir, laganemi
„Mér finnst geggjað að hlusta á ASMR fyrir svefninn.” - Þórhildur Davíðsdóttir, stjórnmálafræðinemi
Þreytan er vinur ykkar
Oft erum við einfaldlega ekki orðin nógu þreytt þegar við leggjumst á koddann. Einföld lausn við því vandamáli er að fara ekki of snemma að sofa, heldur vaka örlítið lengur og leyfa þreytunni að koma yfir sig. Létt hreyfing eins og göngutúr getur hjálpað okkur að verða þreytt á kvöldin, en varið ykkur þó á því að þetta getur einnig hresst man við. Þá er einnig ráðlagt að takmarka koffínneyslu og símanotkun á kvöldin en báðir hlutir eiga það til að örva hugann.
„Ég reyni að lesa áður en ég fer að sofa. Passa að vera ekki mikið í símanum því að ég finn að ef ég er búin að vera að hanga í honum og ætla svo strax að fara að sofa þá gengur það ekki.“ - Guðrún Lilja Friðjónsdóttir, íslenskunemi
„Ég á auðveldast með að sofna þegar ég fer nógu seint að sofa.“ - Ragnhildur Katla Jónsdóttir, sálfræðinemi
Ekki ofhugsa
Þegar það reynist erfitt að festa svefn er mikilvægt að örvænta ekki því þá fer hausinn á flug og það verður enn ólíklegra að ná að sofna. Þá getur verið gott að standa upp og gera eitthvað annað í smá stund. Það er einnig hægt að njóta einverunnar og reyna að gleyma sér í léttvægum hugsunum. Hver veit nema þær leiði ykkur á vit draumanna.
„Ef ég næ ekki að sofna strax, þá reyni ég að stressa mig ekki of mikið á því. Ég reyni þá að liggja aðeins lengur og hugsa bara um eitthvað skemmtilegt.“ - Guðrún Lilja Friðjónsdóttir, íslenskunemi
„Ég spila sudoku eða legg kapal þegar ég er andvaka.“ - Brynja Eyfjörð, verkfræðinemi
Litlu persónulegu hlutirnir
Stundum hjálpa litlu hlutirnir langmest. Sama hversu asnalegir, skrýtnir eða óhjálplegir þeir virðast í fyrstu. Eins og einhver sagði einhvern tímann: ef það virkar, þá virkar það. Finnið það sem hentar ykkur best og nýtið ykkur það eins vel og þið getið.
„Þung sæng (víkingateppi) er nauðsynleg fyrir fólk með mikla snertiþörf eða þau sem eru alltaf á iði til að ná góðum svefni.“ - Kjartan Ragnarsson, stjórnmálafræðinemi
„Sko mér finnst „integral“ að vera með kaldar tær þegar ég fer upp í rúm. Annars er engin leið til þess að sofna. Svo ef man er of lengi að sofna og tærnar eru orðnar heitar, þá verður man bara að byrja aftur“ - Mars M. Proppé, eðlisfræðinemi
„Alvöru ráð sem ég nýti mér er að ég tek gamla námsbók þegar ég er andvaka, helst um leiðinlegt námsefni, byrja að lesa og endist oftast ekki lengur en 10-15 mín áður en ég dett út.“ - Jón Ingvi Ingimundarson, stjórnmálafræðinemi.