Svefnleysi drepur hægt
„Það er sterkt tvíátta samband á milli svefns og ónæmiskerfisins. Svefn notar allskonar vopn ónæmiskerfisins til að berjast við sýkingar og sjúkdóma og halda verndarhendi yfir þér.“ Á þessum orðum byrjar Dr. Matthew Walker rússnesku útgáfu bókar sinnar Þess vegna sofum við: Um mikilvægi svefns og drauma. Walker er prófessor í taugavísindum og sálfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley, forstjóri Svefnrannsóknarstöðvarinnar þar og fyrrverandi prófessor í geðsjúkdómafræði við Harvard háskóla.
Bólusetning auk ónæmis
Því betur og réttar sem við sofum, því heilbrigðari erum við. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga, sérstaklega á tímum kórónuveirunnar, þegar það fer eftir ónæmi einstaklingsins hvort hann veikist og hversu alvarlegur sjúkdómurinn verður, og ónæmið getur farið eftir svefngæðum. Mig langar að minna hér á að bólusetning hjálpar ónæmiskerfi mannsins að sigrast á kórónuveirunni en sigrar hana ekki af sjálfu sér. Fyrir meira en tuttugu árum, þegar Dr. Michael Walker var rétt að byrja að rannsaka svefn, upplifði Rússinn Denís Semeníkhín áhrif svefns á ónæmiskerfið. Semeníkhín er íþrótta YouTuber, heilsu- og líkamsræktarrita höfundur og fyrrverandi blaðamaður fyrir heilsutímaritið Men's Health.
Barátta íþróttamanns við svefn
Semeníkhín ákvað að hann væri að eyða of miklum tíma í svefn og ákvaðað sofa aðeins 4,5 klst. á nóttu til að koma meiru í verk á daginn. Honum leið vel. Hann vann mikið, æfði í ræktinni en eftir hálft ár veiktist hann af sjaldgæfum sjúkdómi - stíflu í munnvatnskirtlinum. Seinna fékk hann, í fyrsta skipti á ævinni, hnúð á auga. Læknarnir sögðu að sjúkdómarnir væru líklegast arfgengir og nú koma þeir reglulega fram hjá honum. Íþróttamaður sem hefur aldrei verið veikur fær skyndilega sjaldgæfan sjúkdóm. Semeníkhín gekk út frá því að veikindin gætu stafað af því að hann svaf ekki nóg, þótt hann hafi ekki fundið fyrir því á annan hátt. Eftir að hann fór aftur að sofa í átta tíma á nóttu hafa sjúkdómarnir ekki gert vart við sig. Niðurstaða Semeníkhíns var eftirfarandi: í hverri lífveru eru veikir punktar og ef lífveran er undir miklu álagi, svo sem langvarandi svefnleysi, koma þessir veiku punktar upp á yfirborðið.
Klukkutíma svefngildi
Fyrir nokkrum árum varð tafla sem sýndi tímagildi svefns vinsæl á Facebook. Hún hélt því fram að klukkutíma svefn fyrir miðnætti væri miklu dýrmætari en klukkutími eftir miðnætti. Semeníkhínn vill meina eitthvað svipað, því hann valdi tímann frá 22.30 til 3.00 fyrir svefn. Hann trúði á það að sofa aðeins 4 klukkustundir, en á dýrmætasta tíma sólarhringsins. Dr. Matthew Walker staðfesti í bókinni sinni að þú ættir að sofa í 8 tíma og það skipti ekki máli hvenær þú sefur: frá 19.00 til 3.00 eða frá 00.00 til 8.00. Þörfin fyrir átta tíma svefn hefur verið sönnuð af vísindamönnum við háskólann í Pennsylvaníu og Washington State háskólanum.
Rannsóknir í Bandaríkjunum
Rannsakendur söfnuðu 48 heilbrigðum körlum og konum sem sváfu að meðaltali 7-8 klukkustundir á nóttu. Síðan var þeim skipt í 4 hópa:
Þurfti að vera vakandi í 3 daga samfleytt.
Svaf í 4 tíma á nóttu.
Svaf í 6 tíma á nóttu.
Svaf í 8 tíma á nóttu.
Allir nema fyrsti hópurinn sváfu þannig í 2 vikur samkvæmt tilmælum Á meðan tilraunininni stóð var líkamleg og andleg frammistaða einstaklinganna prófuð. Hópurinn sem svaf 8 tíma stóð sig vel en þeir sem sváfu 4 og 6 tíma sýndu vitræna hnignun, athyglisleysi, skerta hreyfifærni og svo framvegis. Fjögurra klukkustunda hópurinn sýndi verstan árangur.
Svefnskortur safnast upp
Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að svefnskorturinn væri uppsafnaður. Viku eftir prófanirnar sofnuðu 25% sex tíma hópsins af handahófi yfir daginn. Eftir tvær vikur sýndu þeir svo sljóa hegðun eins og þeir hefðu ekki sofið í 2 daga í röð. Það er að segja að tveggja vikna svefn í 6 tíma á dag jafngildir því að sofa ekki tvo daga í röð. Og það áhugaverðasta er að þátttakendur tóku ekki eftir eigin hnignun í frammistöðu. Í rauninni tekur margt þátt í þeirri blekkingu. Góð lýsing á skrifstofunni, kaffi, fyndin samtöl við samstarfsmenn – allt þetta fær þig til að halda að allt sé í lagi hjá þér. Hins vegar er sljó hegðun ekki versta afleiðing ófullnægjandi svefns. Rannsóknir sem Dr. Matthew Walker vitnar til sýna að þau sem skortir reglulega svefn eiga meiri líkur á því að verða fyrir barðinu á þunglyndi, kvíðaröskunum, sykursýki, krabbameini, hjartasjúkdómum og heilablóðfalli. Það getur reynst dýrkeypt að hangsa á Tik Tok til klukkan 03:00 að nóttu, er það ekki? Svo kláraðu að lesa þessa grein og skríddu svo undir sængina.