Nokkur ó-ráð: Af hverju er svona erfitt að eiga í heilbrigðum samböndum?

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir

Við skulum byrja á því að svara titilspurningunni, og mér þykir leiðinlegt að vera sú sem segir þér þetta, en svarið er líklega þú. Og þegar ég segi „þú“ á ég við „mig“. Notum bara „við“. Eftir því sem ég best veit eiga sum einfaldlega auðveldara með að umgangast fólk en önnur. Einhver eru aldrei í betri tengslum við sjálf sig en í langtímasambandi, þau fúnkera vel í pörum og vinna einhverra hluta vegna betur í kringum sambandið sitt. Þetta er, svo það sé aftur tekið fram, mín skynjun á hlutunum og ég er ekki endilega viss um að ég treysti henni. Ég veit það alveg að raunveruleikinn er ekki svona einfaldur og að heilbrigð sambönd spretta ekki upp úr engu, það þarf að hlúa að þeim. En allavega, fyrir þau okkar sem eru ekki vön því að mæta fólki í miðjunni og eiga ekki að venjast málamiðlunum, getur það reynst mjög erfitt að halda sömu manneskjunni sér við hlið, af ýmsum ástæðum. Ein þessara ástæða gæti verið gömul sár og önnur eitruð sambönd, hvort sem það eru fjölskyldu-, vina-, vinnu eða ástarsambönd.

Grafík Sóley Ylja A. Bartsch

„Don’t you know that you’re toxic?“

Lífsreynsla og uppeldi er ekki línulegt og sameiginlegt ferli allra í heiminum. Þegar við komumst úr okkar eigin kjarna förum við að bera reynslu okkar saman við reynslu annarra. Stundum eru þær svipaðar, en oft líka mjög ólíkar. Ég ætla að taka umdeilt dæmi: þangað til mjög nýlega var það algjörlega eðlilegt í sumum löndum að refsa börnum líkamlega. Ég vissi til dæmis ekki, þegar ég grínaðist með það þegar… jæja, það skiptir ekki máli. En hver einasta norræna sála sem heyrði þessa sögu var í sjokki. Málið er að það er erfitt að byrja frá grunni og breyta hegðun sem okkur hefur fundist eðlilega í langan tíma. Við þurfum í rauninni að læra upp á nýtt að eiga samskipti við annað fólk, eða í tilfelli þessarar greinar, maka.

Það getur hrikt í stoðum okkar að eiga allt í einu í heilbrigðu sambandi, því við lærðum aldrei að bera kennsl á eitruð samskipti. Með því að hegða okkur og bregðast við á neikvæðan máta, spýjum við ósjálfrátt eitrinu yfir nýju samböndin okkar. Þegar það hættir að verða ósjálfrátt og við förum að taka meðvitaðar ákvarðanir um að vera leiðinleg, ákveðum við að virði sambandsins sé ekki nóg, og yfirgefum það. Ég í fúlustu alvöru veit ekki hvernig ég kemst yfir þennan þröskuld, að spýja eitrinu í staðinn fyrir að kyngja því.

Get ég fengið amen?

Hugsanlega væri það að hætta að ofhugsa um af hverju og frekar hvernig við getum breytt þessu samviskubitsmunstri þar sem við kennum sjálfu okkur um, fyrsta skrefið. Það er einfalt að hlúa að geðrænum kvölum og leita sér faglegrar hjálpar ef sjálfskoðunin verður okkur um megn á endanum. En því miður hafa ekki öll tíma, fjárráð eða hugrekki til þess að takast á við þessi vandamál. Það er auðvelt að hunsa áföll og óþægilega fortíð sem sársaukafullt er að rifja upp. En það er svo sannarlega stór sigur að átta sig á göllum sínum og brestum, þó það hafi ekki endilega nægt til þess að bjarfa fyrri samböndum, en þroski kemur í smáum skrefum. Við getum aðeins nýtt okkur þekkingu þegar við höfum aflað okkur hana, ekki satt?

Eitt besta ó-ráð sem ég hef fengið er að hætta að hugsa um það hvernig ég fór að því að eyðileggja fyrri sambönd vegna drauga fortíðarinnar. Og ég skal segja þér leyndarmál: heilbrigð sambönd enda stundum líka, af óteljandi ástæðum. Það er mikilvægt að gera eitthvað í málunum ef þér líður alveg óbærilega, ekki vera of hart við sjálft þig og ekki missa trúna á ástinni. Þetta síðasta er að vísu valkvætt. En hvort heldur sem er, það er mikilvægt að sættast við sjálft þig og byrja á því að byggja upp nægt sjálfstraust til að taka eigið öryggi ekki út á sjálfu þér. Alveg eins og heimspekingur okkar daga sagði eitt sinn: „Ef þú elskar ekki sjálft sig, hvernig í andskotanum ætlaru þá að elska einhvern annan?“