Lífið er leikur
Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir
Sólin er að rísa. Borgin sefur. Myrkrið hörfar í rólegheitum. Ég heyri ekki mörg önnur hljóð en mín eigin, stöðugan andardrátt, fæturna smella taktfast á malbikinu, hlaupafötin mín nuddast saman. Ég er næstum kominn heim þegar lagið sem ég er að hlusta á stöðvast skyndilega og ég heyri drungalega rödd segja: „Uppvakningarnir nálgast“. Andlit mitt er steinrunnið, óttasleginn sný ég mér við með hjartað í buxunum, en þar er ekkert. Auðvitað, hugsa ég með sjálfum mér. Þetta er bara forrit.
Viðbúin, tilbúin… af stað!
Ef einhver hefði reynt að telja mér trú um það mánuði fyrr að ég myndi vakna spenntur alla morgna til að fara út að hlaupa klukkan 6, hefði ég hrist höfuðið og hlegið að viðkomandi. En einhvern veginn tókst forriti um uppvakninga að ýta mér út fyrir þægindarammann. Með því að setja á svið áhugaverða sögu, sem ég vissi þó að er ekki sönn, var ætlunarverki forritsins náð fyrirhafnarlaust. Ég varð svo spenntur að samþykkja þennan nýja raunveruleika að ég var tilbúinn að vinna fyrir því að upplifa hann.
Í rauninni virka flest forrit sem ætlað er að leikjavæða líf þitt svona.
Við eigum það til að finnast lífið óáhugavert og leiðinlegt, heimilisverkin eru alltaf eins, vinnan óspennandi og reikningarnir hlaðast upp. Hví ekki að flýja gráa tilveruna, verða einhver annar, einhver með spennandi tilgang í lífinu, í ímynduðum heimi? Þetta er það sem vakti áhuga minn til að byrja með. Mér fannst aðlaðandi að taka þátt í hlutverkaleikjum þar sem ég gat látið sem ég væri ekki bugaður námsmaður, bara í smá stund. Ég gat verið hetjan sem bjargaði deginum eða hugrakkur ævintýramaður sem veigraði sér ekki við að kynnast nýrri menningu. Ég gat lært galdra og álög í staðinn fyrir stærðfræði og bókmenntafræði og í staðinn fyrir að hjálpa mömmu að skipta um gardínur gat ég tekið þátt í leit að galdraveru. En það sem skipti mig mestu máli var hvað þetta hjálpaði mér að átta mig á tilgangi mínum í þessum (þykjustu heimi).
En svo óx ég úr grasi og áttaði mig á því að lífið er ekki leikur. Að ég þyrfti að taka ákvarðanir sem yngri útgáfan af sjálfum mér væri ekki endilega hrifinn af, því nú var ég orðinn ábyrgur og iðinn fullorðinn karl. Svo óx ég enn meira úr grasi og kynntist leikjum sem hafa það að markmiði að gera mig að ábyrgan og iðinn. Og ég var fljótur að tileinka mér þá.
Upp um borð
Zombie’s run var fyrsti leikurinn sem ég prófaði og fléttaði saman leik og alvöru lífsins. Þetta er einmitt sá leikur sem ég minntist á hér í upphafi, en alls ekki sá síðasti.
Að leikjavæða líf snýst ekki bara um að lifa heilbrigðari lífsstíl, heldur líka að öðlast nýja færni eða betrumbæta þá sem fyrir er. Næsta forriti sem, að ég held, gerði mig að betri manni, kynntist ég meðan ég bjó á suður Spáni um stund. Þegar þú býrð í jafn stóru landi og á Spáni er mikilvægt að kunna tungumálið, mestur hluti allra samskipta fer fram á spænsku og ég einsetti mér það að verða altalandi. Duolingo hjálpaði mér alveg gífurlega mikið, enda líklega eitt best þekkta tungumálakennslu forrit heims. Duolingo heldur þér við efnið eins lengi og eins oft og hægt er með blöndu af samfélagslegri þátttöku, upplýsingum um framfarir og utanumhaldi um það í hve marga daga þú notar forritið samfleytt. Þetta er eitthvað sem öll eru sátt við, því við gerum okkur grein fyrir því að þau sem græða mest á þessu eru notendurnir. Síðustu ár hefur Duolingo orðið enn betra forrit, meðfram málfræðiæfingum eru nú komnar sögur sem hægt er að lesa og hlusta á auk spjallborða þar sem hægt er að segja skoðanir sínar eða fá svör við spurningum sem kunna að brenna á þér. En forritið hefur aldrei orðið gagnslaust.
Habitica er annað forrit sem breytti lífi mínu með því að gefa mér tólin til þess að hafa betri yfirsýn yfir dagleg verkefni og venjur. Habitica er leikjavæddasta forritið sem ég nota, þú býrð til litla persónu sem tekst á við verkefnin þín og berst við ógnvekjandi skrímsli undir þínu nafni. Þú styrkir persónuna með því að ljúka við verkefnin, ná skilafrestum og halda þig við góðar venjur. Þegar vinir mínir byrjuðu að prófa forritið fórum við að halda partí þar sem við tókumst á við erfiðari verkefnin. Með því varð meiri pressa á okkur að halda okkur við efnið, því annars mættu persónur okkar ótímabærum dauða sínum.
Eitt tré á dag kemur einbeitingunni í lag
En þegar allur þessi fjöldi forrita bættist ofan á huga, sem nú þegar var út um allt og stressið sem fylgir lífi nútímamanneskjunnar, fór ég að leita að einhverju sem gæti hjálpað mér að einbeita mér og vera í núinu. Og eins og kaldhæðni örlaganna veldur svo oft var það annað forrit sem mætti þessum þörfum mínum. Markmið þess, sem heitir einfaldlega Forest, er nokkuð einfalt. Þú stillir klukku og velur þann tíma sem þú vilt halda einbeitingu án þess að kíkja á símann þinn. Yfir þann tíma sem þú stillir vex lítið tré í forritinu og ef þú, af einhverjum ástæðum, kíkir á símann áður en tíminn klárast deyr tréð. Forest dansar fimlega á línunni milli þess að halda þér við efnið og halda þér frá því. Líkt og Zombie’s run leyfir Forest notandanum að taka þá meðvituðu ákvörðun að taka þátt í þykjustuheimi þess í skiptum fyrir einföld verðlaun á borð við rafrænt tré. Og það er þess virði.
Ég get ekki fullyrt það að lífið án snjallsíma væri verra - það fer eftir þörfum hvers og eins. Það hentar mér mjög vel að nýta mér leikjavædd forrit til að bæta líf mitt, og það gæti hentað þér líka. Svo lengi svo þú notar þau í hófi og, það sem er enn mikilvægara, svo lengi sem það færir þér gleði.
Við fáum bara eitt líf í þessum „leik“ sem við spilum, svo það er eins gott að njóta þess.