Heilbrigði og vinnusiðferði
Að mínu mati er viðhorf okkar til vinnu og hvíldar mikilvægur þáttur í því sem við teljum heilbrigði. Ég ákvað að taka þrjá ólíka aðila tali og spyrja þau út í viðhorf sín til vinnu og hvíldar.
Eva María Jónsdóttir, jóga- og fræðamiðlari
1. Hvað er heilbrigt vinnusiðferði fyrir þér?
Heilbrigt vinnusiðferði er nokkuð sem vinnuveitandi og starfsmaður þurfa báðir að tileinka sér. Vinnuveitandinn á að taka tillit til þess að starfsmaðurinn eigi sér einkalíf og heilsufar og hafi stofnað til skuldbindinga við fjölskyldu sína og ástvini. Starfsmaður með gott vinnusiðferði sinnir vinnunni eftir fremsta megni af heilindum og sönnum áhuga með heildarhag [vinnustaðarins] að leiðarljósi.
2. Hvernig þróar maður með sér heilbrigt viðhorf til vinnu og hvíldar?
Það er innbyggt í öll dýr að hvíla sig á milli þess sem þau erfiða. Við þurfum ekki að þróa neitt sem er í okkur, bara að aflæra hugmyndir á borð við vinnudýrkun og taka ekki þátt í kapphlaupi um óþörf efnisleg gæði. Minna okkur á að í svefni erum við að vinna úr því sem við höfum verið að læra, losa okkur við það sem gagnast okkur ekki af tilfinningasviðinu, komast á stað þar sem við erum hluti af öllu sem er, þar sem „ég“-ið er ekki eitt og samt heldur getur flökt á milli margskonar fyrirbæra og persóna. Með því að álíta svefn aðeins leiðinlega nauðsyn erum við að horfa fram hjá dásemdum þess að hvílast, líkamlega, andlega, félagslega og sálrænt og gefa sístarfandi huganum frí. Ef við höfum svartamyrkur á meðan við sofum og rafmagnstæki fjarri náum við að hvíla skynfærin betur.
3. Hvers konar samspil vinnu og hvíldar er æskilegt?
Ég hef oft litið á sólarhringinn sem þrískiptan þar sem vinna, svefn og persónulega lífið fá hvert um sig átta klukkustundir. Ef maður er í vinnu sem vekur áhuga manns og dregur fram það besta í manni getur þetta alveg virkað sem ágætt viðmið til að sinna sjálfum sér og vinnunni af kostgæfni. Í seinni tíð hefur mér þótt þetta vinnumódel vafasamt, sérstaklega í ljósi þess að þetta er tilbúningur manna og fyrir 70 árum dugði oft að einn fullorðinn væri starfandi utan heimilis en annar aðili væri heima að sinna lifandi verum og að tryggja öllum gott skjól, næringu og hlýju. Eftir að flestir fullorðnir fóru út á vinnumarkaðinn hefur efnishyggjan vaxið og heimilin orðið sumpartinn erfiðari staðir, sem orsakar að margir flýja aftur í vinnuna til að hvíla sig frá heimilinu. Ég tel að sem samfélag gætum við orðið sáttari og hvíldari ef vinnumarkaðurinn gerði ráð fyrir sex klukkustunda vinnuframlagi frá hverjum útivinnandi einstaklingi. Þá fáum við öll meiri tíma til að láta okkur leiðast og upp úr því sprettur oft mjög skapandi iðja.
4. Er eitthvað sem þú gerir sjálf sem auðveldar þér að viðhalda vinnuorku þinni?
Ég geng snemma til náða, geri jóga daglega og jóga nidra nokkrum sinnum í viku. Mér finnst ég vera að stunda orkubúskap og reyni að sinna honum eins og bóndi mundi sinna búi sínu; reglulega og af alúð.
Vigdís Hafliðadóttir, heimspekingur, tónlistarkona og grínisti
1. Hvað er heilbrigt vinnusiðferði fyrir þér?
Ég held að það sé að leggja sig fram í vinnunni og vanda sig, en geta aðskilið vinnutíma frá nauðsynlegu fríi. Hugsað um vinnuna í vinnunni og látið hana ekki gegnsýra frítíma með samviskubiti. Ég hef aldrei upplifað þessa tilfinningu en hef heyrt að þetta sé æskilegt.
2. Hvernig þróar maður með sér heilbrigt viðhorf til vinnu og hvíldar?
Þú ert að spyrja manneskju sem reif sig upp klukkan þrjú um nótt til að ganga að kaffihúsinu sem ég var að vinna á til að athuga hvort ég hefði ekki örugglega læst útidyrahurðinni. Ég hafði læst henni. Ég fæ yfirleitt verkefni sem ég sinni á heilann, af ótta við að standa mig ekki nógu vel og valda öðrum vonbrigðum. Það hefur krafist mikillar meðvitundar og átaks að reyna að hrista þetta af mér og vera ekki of hörð við sjálfa mig. Það hefur ekki tekist alveg ennþá en ég hef reynt að velja mér vinnur sem er allavega gaman að hafa á heilanum og þar sem ég ræð förinni meira.
3. Hvers konar samspil vinnu og hvíldar er æskilegt?
Við þurfum að vinna X mikið til að vera ánægð með okkur og eiga í okkur og á – en við þurfum líka X mikla hvíld til að líða vel. Of mikil vinna getur ýtt undir vanlíðan en of mikil hvíld getur gert það líka. Galdurinn er að finna jafnvægið þarna á milli og ég hugsa að það sé ólíkt hjá fólki og óhollt að bera okkur saman við aðra eða dæma fólk sem er á öðrum hraða.
4. Er eitthvað sem þú gerir sjálf sem auðveldar þér að viðhalda vinnuorku þinni?
Trikkið mitt, sem fullkomnunarsinni í bataferli með stöðugt samviskubit, er að finna hvíld í því ólíka sem ég er að gera. Fyrir mér getur æfing með hljómsveitinni minni endurnært mig og ef ég er í skapandi ferli með margt í hausnum getur stundum verið fínt að taka til eða gera eitthvað í excel. Svo er ég dugleg að fara í göngutúra, sund og gefa mér tíma til að hitta vini mína – eitthvað sem krefst þess að ég sé í núinu.
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tokyo
1.Hvað er heilbrigt vinnusiðferði fyrir þér?
Það er gott að líta á sig sem hluta af teymi, vinna að sama markmiði með heildarhagsmuni hópsins í huga og gefa þeim sem vinna með þér hlutdeild í árangrinum sem náð er. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að réttindum fylgja líka skyldur gagnvart vinnuveitenda og samstarfsfólki, til dæmis að sinna vinnu sinni eftir bestu getu, en það finnst mér oft gleymast. Svo skiptir miklu máli að vera tilbúinn að taka réttmætri gagnrýni um vinnu sína, kalla jafnvel eftir henni og líta á hana sem leið til að bæta sig eða það verkefni sem unnið er að. Þar sem ég hef unnið mikið í alþjóðlegu umhverfi er rétt að nefna að lokum mikilvægi þess að sýna annarri menningu skilning og virðingu í samskiptum við útlendinga.
2. Hvernig þróar maður með sér heilbrigt viðhorf til vinnu og hvíldar?
Ég held að það hafi orðið mikil vitundarvakning um þetta á undanförnum árum. Fólk gerir sér almennt mun betur grein fyrir mikilvægi svefns og hreyfingar og það ríkja ekki sömu fordómar og áður gagnvart þunglyndi og kulnun. Vinnustaður sem leggur sig fram um að rækta sitt fólk, gerir ráð fyrir jafnvægi milli vinnu, einkalífs og hvíldar og hvetur fólk til að sinna heilsu sinni uppsker í betra og ánægðara samstarfsfólki. Hins vegar virðast einkenni kulnunar og streitu hafa aukist hjá fólki. Kannski er það í einhverjum mæli vegna þess að fjölskyldur eru að ætla sér of mikið utan vinnunnar, það er svo margt í boði. Stundum er einfaldlega best að slaka á heima hjá sér.
3. Hvers konar samspil vinnu og hvíldar er æskilegt?
Ætli þetta snúist ekki um forgangsröðun og að hlusta á líkama sinn. Auðvitað er það þannig í mörgum störfum að fólk þarf að keyra á varaorku, taka skurk í vinnunni til að skila ákveðnum verkefnum í tíma. En þá er æskilegt að vera meðvitaður um að það verði ekki reglan, það er svo mikilvægt að pústa á milli tarna. Og ef þetta lagast ekki þarf kannski einfaldlega fleiri hendur á dekk.
4. Er eitthvað sem þú gerir sjálfur sem auðveldar þér að viðhalda vinnuorku þinni?
Ég lít svo á að með því að hreyfa sig sé maður að ávaxta betri líkamlega og andlega heilsu, nú og til lengri tíma. Stóran hluta starfsævi minnar hef ég verið í stjórnunarstörfum og sinnt krefjandi verkefnum á alþjóðavettvangi, oft undir mikilli pressu. Því hefur fylgt streita, en ég hef alltaf gætt þess að gefa mér tíma til að hreyfa mig og stunda hlaup 4-5 sinnum í viku að meðaltali. Á meðan ég hleyp hlusta ég gjarnan á tónlist, hljóðbækur, fréttir eða hlaðvörp með fréttaskýringum og greiningum á alþjóðamálum. Ég hef líka notað hlaupin til að skoða mig um í borgum sem ég hef búið í erlendis vegna vinnunnar. Bæði í Reykjavík og þegar ég bjó í London hljóp ég iðulega í vinnuna og stundum aftur heim í lok dags. Mætti glaður og hress í upphafi vinnudags, ánægður með sjálfan mig og lífið. Að hlaupa út snemma að morgni heima á Íslandi, jafnvel út í kuldann og skammdegið eða nýfallinn snjó, undir tungli og stjörnubirtu, er töfrum líkast.