Bókmenntahorn ritstjórnar: Bækur um heilsu
Myndir: bjartur-verold.is, forlagid.is og amazon.com
Íslenskar bækur:
PTSD ljóð með áfallastreituröskun eftir Ragnheiði Guðmundsdóttir kom út nú fyrir jólin. Ljóðabókin er uppgjör höfundar við krabbamein við hún fékk fyrir nokkrum árum og áfallastreituna sem fylgdi því. Ljóðin eru einstaklega falleg, einlæg en að sama skapi stingandi. Þetta er fyrsta ljóðabók Ragnheiðar, sem gaman er að geta að er nemi við Háskólann. Það er deginum ljósara að Ragnheiður er höfundur sem mun láta að sér kveða og vert er að fylgjast grannt með.
Gangverk Þorvaldar Sigurbjarnar Helgasonar vakti verðskuldaða athygli þegar hún kom út vorið 2019. Þar lýsir Þorvaldur því þegar hann fór í hjartastopp fimmtán ára gamall í kennslustund í Kvennaskólanum. Ljóð bókarinnar lýsa innri og ytri aðstæðum og lesningin er einstaklega áhugaverð. Uppgjör Þorvaldar við þennan trámatíska atburð er einlægt og skilar sér í ljóðabók sem er einstök í efnistökum og góð viðbót á bókalista allra ljóðaunnenda.
Erlendar bækur:
Dr. Bird’s Advice for Sad Poets kom fyrst út árið 2013 og lét ekki mikið fyrir sér fara. Bókin er flokkuð með unglingabókmenntum en á, eins og svo oft vill gerast með góðar barna- og unglingabækur, vel við fullorðinn lesendahóp. Bókin fjallar um unglingspilt sem ímyndar sér að hann eigi sálfræðing sem hann ræðir við um amstur dagsins. Ímyndaði sálfræðingurinn er dúfa í mannsstærð sem sýnir drengnum, James, samkennd og skilning. Ef lesendur lásu og fíluðu The Perks of Being a Wallflower mun Dr. Bird’s Advice for Sad Poets vafalaust höfða til þeirra Mynd byggð á bókinni kom svo út árið 2021 og hlaut góðar undirtektir.
Skáldsagan My Year of Rest and Relaxation eftir bandaríska höfundinn Ottessa Moshfegh kom út árið 2018 og vakti töluverða athygli enda þótti hún bæði djörf og nýstárleg. Bókin segir frá tilraunum ungrar konu til að flýja meinsemdir heimsins með því að leggjast í árslangan dvala. Árið er 2000, sögusviðið er New York-borg: söguhetja bókarinnar er falleg og farsæl ung kona sem vinnur í listagalleríi, lifir á arfi foreldra sinna og býr ein í ríkmannlegri íbúð á The Upper East Side í Manhattan. Hvað gæti mögulega amað að? My Year of Rest and Relaxation er spennandi og áræðin bók sem kemur lesandanum á óvart. Í bígerð er kvikmynd byggð á bókinni.