Þegar lítið færir þér meira: Ferðalag í átt að ruslfríum lífsstíl
Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir
Í daglegu lífi getur sjálfbærni hljómað eins og merkingarlaust hugtak, sem það er nema við byrjum að iðka sjálfbærni af alvöru. En hvernig gerum við það í alvörunni? Það er meðal annars hægt að lifa sjálfbærara lífi með því að stunda ruslfrítt líferni. Samkvæmt Zero Waste International Alliance felst ruslfrítt líferni í því að varðveita allar auðlindir með ábyrgri framleiðslu, neyslu, endurnýtingu og endurheimt á vörum, umbúðum og efnum. Þetta er þá gert án þess að brenna þær og án losunar sem ógnar umhverfi eða heilsu fólks. Þetta hljómar e.t.v. eins og allt of umfangsmikið verkefni fyrir einstaklinginn en ekki hafa áhyggjur, þú þarft ekki að uppfylla þetta allt með þínum persónulega ruslfría lífsstíl. Þetta er samstarfsverkefni sem snýr að okkur öllum. Ferðalagið í átt að ruslfríum lífsstíl snýst um eigur þínar og kaupvenjur. En það gæti hjálpað þér að lifa auðveldara og ánægjulegra lífi með minni sóun - í öðrum orðum að lifa sjálfbærara lífi.
Ólöf Jóhannsdóttir hefur áralanga reynslu af þessu ferðalagi en hún er eigandi vistvænu verslunarinnar Vonarstrætis sem er staðsett á Laugaveginum, fjölmennustu verslunargötu Reykjavíkur. Hún rekur ekki einungis fallega verslun þar sem má nálgast úrval vistvænna, úrgangslítilla vara úr heimabyggð, heldur lifir sjálf minimalískum og ruslfríum lífsstíl og nýtur þess að deila reynslu sinni með viðskiptavinum. Í upphafi samtals okkar tekur hún strax fram eitt mikilvægt atriði: „Þú þarft ekki að stefna að ruslfríum lífsstíl, reyndu frekar að hugsa um minni sóun. Það tekur mikla pressu af þér.“ Persónulegt ferðalag Ólafar hófst fyrir mörgum árum en á þeim tíma ætlaði hún sér ekki að lifa ruslfríum lífsstíl heldur vildi einfalda líf sitt. Hana langaði að minnka við sig og nota minna. „Ég vildi vita hvað ég átti í raun,“ minnist hún, „og ferlið sem það var að fara í gegnum allt [dótið mitt] var nánast heilandi.“
Átta mánaða ferðalag með eiginmanni Ólafar markaði ákveðin þáttaskil hjá henni. Þau leigðu út íbúðina sína og þurftu að tæma hana. Þau settu mikið af eigum sínum í geymslu og tóku bæði með sér aðeins eina handfarangurstösku með öllu því sem þau héldu að þau þyrftu í þessa mánuði. „Þegar við komum heim áttuðum við okkur á því að við hefðum allt sem við þyrftum - í þessari tómu íbúð. Ég man að við hugsuðum ‘hvað ætli sé í þessari geymslu?’“ Eftir þetta hófu þau að breyta venjum sínum meira og meira og fóru í gegnum allar eigur sínar, einn hlut í einu. Þegar Ólöf var farin að kynnast neysluvenjum sínum (og losunarvenjum) gat hún byrjað að breyta til. Smám saman varð hún meðvitaðri um hvað og hvernig hún neytti og velti fyrir sér því sem gæti og ætti að breyta. „Það einfaldar líf þitt að eiga og kaupa minna. Og það róar mig,“ útskýrir hún.
„Það er stórt ferðalag að breyta um lífsstíl. Farið ykkur hægt, takið ykkur tíma. Og ekki vera of ströng við ykkur,“ mælir Ólöf með. Gefið ykkur tíma til þess að læra inn á kauphegðun ykkar. Þið getið prófað að fylgjast betur með því sem þið eruð að henda í hverri viku. Hvernig og hversu miklum mat eruð þið að henda? Og af hverju? Hvað eruð þið að henda mikið af umbúðum?
Þið getið byrjað á því að fara í gegnum eigur ykkur. Ólöf mælir með að „einbeita sér að spurningunum ‘hvað nota ég?’ og ‘hvað kaupi ég?’ Þegar þú veist það geturðu byrjað að spyrja þig að því hvort þú getir skipt yfir í eitthvað sem er aðeins umhverfisvænna.“ Þarftu til að mynda í alvörunni nýja margnota vatnsflösku? Kannski átt þú eða einhver sem þú þekkir gamla flösku sem þið þurfið ekki lengur. Farðu í gegnum það sem þú átt nú þegar og hvað foreldrar þínir eiga. Þú getur líka spurt vini hvort þau séu til í að lána þér eitthvað. „Gerðu það, ekki kaupa neitt fyrr en þú ert viss um að þú þurfir það í alvörunni!“ segir búðareigandinn.
Ef þú veist hvað þú ert í raun að nota getur þú byrjað að skoða hverju þú vilt breyta. Það er feikinóg af valmöguleikum á öllum sviðum lífsins. Þegar þú klárar það sem þú átt nú þegar er hægt að skipta yfir í umhverfisvænni kosti og kaupa þá frekar vörur með engum eða litlum umbúðum. Með því að hugsa um þínar eigin venjur dag frá degi nærðu að brjóta þessa vegferð niður í lítil og viðráðanleg skref. Hvernig getur baðherbergið þitt innihaldið minni sóun? Sápur, tannkremstöflur, áfyllanleg sjampó, margnota rakvélar úr stáli og svo má lengi telja. Ertu á túr? Kannski eru túrnærbuxur eða túrbikar eitthvað til þess að skoða. Hvernig hellir þú upp á morgunkaffið? Hefur þú velt því fyrir þér að nota mokkakönnu í staðinn fyrir vél sem þarf kaffihylki? Hvernig pakkar þú nesti? Hefur þú skoðað nestisbox eða bývaxfilmur? Það eru ótal möguleikar í boði sem bíða þín. Þú munt kynnast þeim betur hægt og rólega og njóta þess að finna aðra valmöguleika og skapandi lausnir.
Ef þig vantar föt eða húsgögn ættirðu að byrja á því að skoða búðir sem eru með notaðan varning. Það er nauðsyn, ekki bara vegna þess að það er gott fyrir umhverfið, heldur vegna þess að það er ótrúlega gaman að grúska í fjársjóðum sem búa yfir sögu. Ef þú þarft að kaupa eitthvað nýtt mælir Ólöf með því að velja vandaða og tímalausa hluti, og þá helst hluti sem þú getur nýtt á fleiri en einn máta. Þegar kemur að fötum er gott að þekkja stílinn sinn, velja góð og náttúruleg efni, athuga hvort framleiðsluferli flíkarinnar sé sjálfbært og velja klassísk snið. „Í Vonarstræti sel ég til dæmis föt sem eru úr hampi og bómull. Þau eru í klassískum stíl sem dettur ekki úr tísku á milli árstíða - jakkar, bolir, kjólar, sokkar, föt sem þú kemur til með að eiga í langan tíma.“
Þetta verður mjög dýrt, er það ekki? Ekki endilega, „Á heildina litið muntu klárlega spara pening. Ég spara pening á matnum sem ég hendi ekki. Ég kaupi vandaðar vörur sem endast lengur. Sumir hlutir munu endast mér ævilangt, sem þýðir að ég mun aldrei þurfa kaupa þá aftur,“ segir Ólöf.
„Það er stórt ferðalag að breyta um lífsstíl. Farið ykkur hægt, takið ykkur tíma. Og ekki vera of ströng við ykkur.“
Við höfum enn ekki snert á einum mikilvægum punkti: „Þetta er skemmtileg vegferð sem er holl fyrir sálina. Það kom mér mjög á óvart hversu mikið af dóti ég átti til að byrja með en mér fannst mjög hreinsandi að fara í gegnum það allt,“ segir Ólöf og lýsir reynslu sinni. Vonandi mun saga hennar veita ykkur innblástur sem gagnast á ykkar eigin ferðalagi í átt að minimalískara og ruslminna lífi. Hér eru nokkur lokaorð frá Ólöfu sem munu vonandi styðja ykkur á leiðinni: „Horfðu inn á við og ekki vera á svipunni. Og ekki halda að þú þurfir að eiga ákveðna hluti til þess að hugsa um umhverfið. Gerðu bara eitthvað. Gerðu það sem þú getur.“
Ruslfrír Svindlmiði
Hér höfum við safnað saman nokkrum ráðum og lesefni fyrir þau sem vilja kynna sér hvernig og hvar er hægt að stíga skref í átt að því að vera umhverfisvænni í Reykjavík.
Lesefni fyrir ruslfrían lífsstíl:
Hafið í huga að þið þurfið ekki að kaupa þessar bækur til þess að lesa þær. Við mælum með því að kíkja fyrst á næsta bókasafn eða jafnvel fá þær lánaðar hjá vinum ykkar.
Bea Johnson - Engin Sóun: leiðarvísir að einfaldara, sorplausu heimili
Naomi Klein - Þetta breytir öllu: kapítalisminn gegn loftslaginu
Anneliese Bunk og Nadine Schubert - Betra líf án plasts
Margrét Marteinsdóttir og Rakel Garðarsdóttir - Vakandi veröld - ástaróður
@wastefreesteffi
@zerowastedoc
@plastlausseptember
@wastefreeplanet
@thezerowasteguide
Hagnýt verslunarráð:
Í Nettó er hægt að fylla á sjampó og hárnæringu
Í Krónunni má finna gott úrval af ávöxtum og grænmeti í lausu án nokkurra umbúða. Þar má einnig finna vörur sem eru á „síðasta séns“ en þær má fá á afslætti.
Í Veganbúðinni er hægt að fylla á eigin sápubrúsa.
Stúdentar fá 10% afslátt af vörum og 15% afslátt af fötum í versluninni Vonarstræti sem selur umhverfisvænar vörur.
Gagnlegar síður
Facebook hópar
Ruslfrír lífsstíll (Zero Waste) -Iceland: https://www.facebook.com/groups/158949151107877
Áhugahópur um endurvinnslu og endurnýtingu: https://www.facebook.com/groups/endurvinnsla