Sjálfboðastarf á vegum SEEDS Iceland: Spjall við Hella og Michał
Þýðing: Stefán Ingvar Vigfússon
Sjálfboðastarf er frábær leið til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, þróa sýn byggða á þvermenningarlegum skilningi og hafa gaman að því. Íslandsdeild SEEDS eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð árið 2005. Deildin treystir á sjálfboðaliða hvaðanæva úr heiminum. Megináhersla hennar er að vekja athygli á umhverfislegum, félagslegum og menningarlegum verkefnum á Íslandi. SEEDS heldur utan um net sjálfboðaliða og annarra þátttakenda, svo sem yfirvalda, samfélaga og annarra stofnanna. Auk þess eru sum verkefni hennar styrkt af Youth in Action og Lifelong Learning verkefnum Evrópusambandsins.
Samkvæmt vefsíðu þeirra hefur SEEDS skipulagt um 140 verkefni um allt Ísland. Þau tóku á móti 1200 alþjóðlegum sjálfboðaliðum frá 50 löndum, sem unnu 75.000 klukkustundir af sjálfboðastarfi. Frá árinu 2010 hefur SEEDS einnig sent 100 Íslendinga til þess að liðsinna við verkefni um heim allan. Ég fékk að leiðbeina tveimur sjálfboðaliðum á vegum SEEDS árið 2020-2021, þeim Hella Wagner og Michał Grabowski, og þau voru til í að tala við mig um upplifanir sínar á Íslandi.
Mynd / Szymon Podubny Photos
Mynd / Fekete Emese
Af hverju ákvaðstu að verða sjálfboðaliði á Íslandi?
MG. Mér fannst spennandi að verða leiðbeinandi í heimsbúðum (e. world camp leader). Heimsbúðir er lítið verkefni sem við gerum þegar aðrir sjálfboðaliðar koma en það samanstendur af umræðum um umhverfið og viðburðum svo sem ruslaplokki og að hreinsa strandir, en einnig því að skipuleggja ferðir um landið. Mér fannst umhverfið mikilvægt viðfangsefni þar sem ég hafði þegar tekið þátt í nokkrum vinnusmiðjum um það. Ég er einnig búinn að stýra nokkrum verkefnum.
HW. Ég tók þessa ákvörðun svolítið út í bláinn. Ég vildi gera eitthvað gagnlegt eftir útskrift úr háskóla, áður en ég færi út á vinnumarkaðinn, og var á höttunum eftir svona tækifærum. Ég valdi SEEDS vegna þess að í mínum augum var Ísland spennandi, nánast framandi staður til þess að heimsækja og búa á. Einn vinur minn hafði líka verið líka verið sjálfboðaliði hjá SEEDS og mælti með því.
Hver voru ykkar helstu verkefni sem sjálfboðaliðar?
MG: Að miðla þekkingu, mestmegnis í gegnum stafrænar búðir (e. online camps).
HW. Í þau örfáu skipti sem við skipulögðum búðir í raunheimum tókum við einnig þátt í því að þrífa strandir með Bláa hernum. Um haustið gróðursettum við tré með Skógræktarfélaginu. Við plokkuðum líka rusl eftir gamlárskvöld, týndum upp eftir flugeldana. Við hjálpuðum Rauða krossinum að selja föt í verslunum þeirra og flokkuðum þau í vöruhúsinu.
MG. Við sóttum líka afgangs brauð og bakkelsi í lok dags hjá bakaríum, það var eiginlega eins og gámagrams án gramsins.
Lærðuð þið einhver sjálfbær úrræði þegar þið voruð sjálfboðaliðar?
HW. Við lærðum að gróðursetja tré, það gæti komið sér vel einn daginn. Ég hugsa meira um það hvernig ég flokka rusl núna. Ég gerði það áður en ég kom, en ég var minna meðvituð um hvernig ætti að fara rétt að því. Ég átta mig fyrst núna á því, eftir að hafa mætt á allar þessar umhverfisvænu vinnusmiðjur, að ég var búin að henda sumu rusli í vitlausar tunnur. Ég lærði líka að búa til heimagerðar snyrtivörur hjá öðrum sjálfboðaliðum. Við vorum öll með okkar eigin plöntur í gluggunum. Við vorum að reyna að rækta kryddjurtir á borð við steinselju, en enduðum óvart á því að rækta litla gulrót [hlær].
MG. Við öðluðumst meiri hæfni og þekkingu með því að hlusta á kynningar annarra sjálfboðaliða og með því að útbúa okkar eigin kynningar. Ég er ekki beint með neitt „life-hack“, ég lærði bara meira um viðfangsefnið sjálft.
Hvaða minningar standa upp úr þessari upplifun?
MG. Það sem stendur upp úr er að verða það náinn öðrum sjálfboðaliðum að þið sitjið öll saman í þægilegri þögn, áhyggjulaus. Það er engin pressa til að gera neitt. Við getum setið og horft á myndband af arineldi, öll róleg og full af öryggiskennd.
HW. Ég get eiginlega engu við þetta bætt. Það er allt þetta litla, sem erfitt er að benda á og ramma inn. Auðvitað var útsýnið í sumum ferðunum svo fallegt að ég hugsaði með mér að ég myndi aldrei gleyma því, en þessi litlu hangs hafa staðið upp úr. Félagslega hlið sjálfboðastarfsins var ríkjandi á meðan þessari dvöl stóð.
Viljið þið bæta einhverju við?
MG. Með því að taka þátt í SEEDS og vinna að sjálfbærni kynnistu fullt af stórkostlegu fólki, sem ég mæli sterklega með!
HW. Ég er sammála því. Þar sem ég fer mjög fljótlega var ég að kveðja í dag. Ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri og mér finnst það hafa verið góð leið til þess að þroskast sem manneskja.