Miðstéttarvæðing í miðbænum

Grafík/Margrét Aðalheiður

Grafík/Margrét Aðalheiður

Miðstéttarvæðing (e. gentrification) er hugtak sem lítið hefur verið fjallað um hér á landi. Þó að hugtakið sé flókið felur meginkjarni þess í sér breytingu á lýðfræði hverfis. Sifjar orðsins vísa til aðalsins (e. gentry) úr breska iðnsamfélaginu og hvernig sú stétt aðhyllist gildi lægri stétta. Þetta leiðir til þess að efri stéttirnar sölsa undir sig rými sem áður tilheyrðu lægri stéttum. Ríkt fólk flytur inn í fátækari hverfi sem veldur því að fermetraverð hækkar. Þessi hverfi verða eftirsóknarverðari fyrir fólk í efri stéttum samfélagsins sem leiðir oftar en ekki til flutnings fátækara fólks í önnur hverfi borga.

Hlemmur og hugmyndir um miðstéttarvæðingu

Sögu Hlemms má skoða út frá miðstéttarvæðingu. Hlemmur býr yfir langri sögu sem áningarstaður ferðalanga frá efri sveitum og inn í þá ört vaxandi þéttbýli Reykjavíkur. Árið 1978 var byggingin á Hlemmi reist sem aðal biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur. Ásamt notagildi sínu sem biðstöð átti byggingin einnig að hýsa verslanir og var hugmyndin að hún myndi þjóna sem yfirbyggt markaðstorg. Í grein sinni um Hlemm í tímaritinu HA skrifar Bjarki Vigfússon að húsið „hafi mátt þola röð mistaka.“ Sem dæmi nefnir Bjarki að innanhúss hönnuninni var breytt úr opnu, björtu og gróðursælu rými í dimmara og kaldranalegra rými. Flestar verslanir hússins hurfu að lokum. Hugmyndin um markaðstorgið Hlemm náði ekki lengra en svo. 

Sem aðgengilegt rými í miðbæ Reykjavíkur laðaði húsið að sér annan markhóp en upphaflega var gert ráð fyrir. Pönkararnir á 9. áratugnum tóku yfir rýmið, eins og er vel skjalfest í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík. Ásamt þeim urðu heimilislausir einstaklingar sem og einstaklingar með vímuefnavanda tíðir gestir byggingarinnar. 

Markaðstorgið Hlemmur

Í dag virðist sem upphaflegt notagildi hússins hafi verið endurreist. Markaðstorgið Hlemmur lifir góðu lífi sem höfuðstöðvar mathallarvæðingarinnar í borginni. Hlemmur Mathöll opnaði dyrnar árið 2017 og stuttu seinna opnuðu aðrar slíkar hallir vítt og breitt um borgina: Grandi Mathöll árið 2018 og Höfði Mathöll 2019.

Hlemmur gegnir nú hlutverki samkomustaðar fyrir milli- og efristéttina þar sem fjölbreytt úrval góðra veitingastaða laðar fólk úr þessum stéttum til staðarins. Meira að segja hefur komið til aðgerða sem bókstaflega hamla aðgengi lægri stéttarinnar að staðnum. Rekstraraðilar hafa með tímanum skert aðgengi staðarins gagnvart þeim gestum sem sóttu staðinn áður fyrr.

Með bæði skipulagsbreytingarnar og upphaflegt notagildi hússins í huga er erfitt að líta fram hjá raunverulegu notagildi þess í gegnum tíðina. Staðurinn þjónaði sem raunverulegt athvarf fyrir einstaklinga sem ekki gátu verið annars staðar á daginn. Breytingin á Hlemmi ruddi fram því sem kallast menningarleg tilfærsla. Áðurnefndir fastagestir Hlemms voru ekki lengur velkomnir inn á staðinn. Ekki var gert ráð fyrir þeim við endurskipulagningu húsnæðisins.

Þeir einstaklingar sem áður sóttu staðinn þurfa nú að leita annað til þess að sinna grunnþörfum sínum. Skjól, aðgengi að vatni og félagslegu tengslin sem fengust á Hlemmi eru ekki lengur aðgengileg þessum hópum. Þrátt fyrir þessar breytingar er ekki hægt að gera ráð fyrir því að þessir sömu einstaklingar leiti ekki aftur í húsið eins og dæmin hafa sýnt. Þetta skapar togstreitu á milli þess sem var og er, ásamt stéttaátökum á milli efri og neðri stéttanna. Í tilfelli Hlemms breyttist húsið úr því að vera almenningsrými, opið öllum án sérstaks tilgangs, yfir í að vera verslunarrými sem lýtur markmiðum og gildum hagsmunaaðilanna sem þar starfa.

Ferðamannaiðnaðurinn sem hreyfiafl miðstéttarvæðingar

Til þess að skoða miðstéttarvæðingu almennilega þarf að líta á ferðamannaiðnaðinn sem mikilvægan þátt. Með vaxandi straumi ferðamanna eykst eftirspurn á náttstöðum í miðborg Reykjavíkur. Það orsakar flutning íbúa úr miðborginni, sem leigja ferðamönnum húsnæði sitt, og inn í önnur hverfi borgarinnar. Að auki eykst bolmagn veitingageirans til þess að anna eftirspurn eftir þjónustunni. Þessi þróun leiddi til einkenna miðstéttavæðingar á ákveðnum svæðum, t.d. í gömlu verbúðunum úti á Granda.

Þessi gífurlega aukning gjaldeyris inn í hagkerfi miðborgarinnar veldur straumhvörfum. Það er vissulega rétt að borgin virðist hafa verið líflegri sem aldrei fyrr. Á sama tíma þarf að hafa í huga að ekki njóta allir sömu forréttinda. Rótgrónir og jaðarsettir hópar eiga ekki skilið að vera bolað úr þeim rýmum sem gegna mikilvægu hlutverki í þeirra lífum. Arkitektúr skilgreinir hvaða manneskjur það eru sem nýta tiltekin rými. Hann hefur vald til þess að skapa manneskjur í tilteknu rými auk þess að ráða fyrir um hegðun þeirra, hugsanir og tilfinningar. Þetta vald þarf að beisla í þágu almenningsins, þegar það á við.