Kópavogskrónika – ríðiafrek móður þinnar

Sögur af bólförum og fíkniefnaneyslu, misheppnuðum ástarsamböndum og almenn óþarfa ráð móður til dóttur hafa ratað upp á svið Þjóðleikhússins þar sem sögusviðið er steinsteypubærinn mikli, Kópavogur.

Kópavogskrónika er byggð á samnefndri fyrstu skáldsögu Kamillu Einarsdóttur og er hér í leikgerð Silju Hauksdóttur og Ilmar Kristjánsdóttur. Með aðalhlutverkið fer Ilmur Kristjánsdóttir og með henni á sviði eru leikararnir Arnmundur Ernst Backman og Þórey Birgisdóttir. Búninga og leikmynd hannaði Sigríður Sunna Reynisdóttir, lýsingu annaðist Jóhann Bjarni Pálmason, hljóðmynd var í höndum Kristjáns Sigmundar Einarssonar og tónlistina samdi Auður.  

,,Þú mátt mín vegna apa flest eftir mér, en þú skalt forðast sambönd“

Verkið er hálfgerð einræða ungrar, einstæðrar móður þar sem hún leggur dóttur sinni lífsreglurnar. Gefnar eru óþarflega nánar lýsingar á ástarmálum hennar þar sem engu er haldið eftir, þó svo að leiksýningin sjálf fari ekki út í gríðarleg smáatriði er ýmislegt gefið í skyn sem ætla má að bókin hafi farið nánar út í. Ljóst er að sögukonan hafi ekki verið móðir ársins; sjaldan til staðar og ekki haft mikinn áhuga á lífi dóttur sinnar. En hér virðist hún reyna að gera upp fyrir mistök sín með því að segja dótturinni frá þeim, gera líf sitt að lexíu. Fer Ilmur létt með hlutverk sögukonunnar, þar sem hún nær að fanga frjálslyndan anda hennar á einlægan hátt á sama tíma og særðar og bældar tilfinningar krauma niðri við. 

Screenshot 2021-05-28 at 11.17.02.png

Aukaleikararnir, Arnmundur og Þórey, eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir frammistöðu sína þar sem þau bókstaflega klæðast mörgum höttum. Arnmundur leikur öll karlmannshlutverk  sýningarinnar og fer létt með að bregða sér í mismunandi skíthæla, hvern á fætur öðrum. Til dæmis má nefna raftónlistarskáld sem hefur ástríðu fyrir matvörum, draumaprins sem deilir áhuga sögukonunnar á Dyson handþurrkum, verðbréfasala sem kann ekki að dansa og hneykslaðan útivistarföður á foreldrafundi. Sömuleiðis fer Þórey á kostum sem exótísk dansmey, hughreystandi ljósmóðir, útivistarmóðir með skoðun á öllu og djammara með orkubita og innihaldslaus ráð. Hlutverk hennar hafa heldur minna vægi fyrir heildarsöguna og þarf hún að skipta um persónu á nokkurra mínútna fresti en er hún sannfærandi í þeim öllum.

Sýningin er jafnframt sprenghlægileg og stuðandi á köflum, þar sem tekist er á við erfið málefni án þess að staldrað sé þar lengi við. Málefni á borð við eiturlyfjafíkn, mögulegt kynferðislegt ofbeldi, barnadauða og fæðingarþunglyndi. Þessar alvarlegu senur eru fléttaðar við gamansögur af skíthælum með slavneskan húmor og kærustum sem kæfðir eru í teppum. Ein sena stóð sérstaklega upp úr sem hápunktur gamanseminnar og kom salnum til þess að emja úr hlátri en það var þegar sögukonan hittir draumaprinsinn. Hann er klæddur í bláa skikkju og kann allan dansinn við ,,I’ve had the time of my life“ úr Dirty Dancing - en þorir svo ekki að grípa hana. Þar áttar sögukona sig á að hann væri betur staddur án hennar hvort eð er, þó svo að hann sé ímyndun hennar. 

Leiðarlok 

Screenshot 2021-05-28 at 11.16.45.png

Á sviðinu stendur grashóll og allt í kring er steinsteypa, sögukona gefur í skyn að við séum stödd í Hamraborginni. Þessi fábrotna og heldur þunglynda sviðsmynd gefur tóninn fyrir verkinu sjálfu, að hér sé eitthvað alvarlegra á ferð en einungis skemmtilegar djammsögur móðurinnar. Leikararnir nýta hólinn á ýmsa skapandi vegu, fela í honum leikmuni og á einum tímapunkti virðist sögukonan sameinast hólnum þar sem hún liggur kylliflöt og veltir fyrir sér tilgangi lífsins – í eftirköstum ofneyslu. Sagan virðist ekki hafa neina rökrétta framvindu, enga eiginlega byrjun og ekkert ris og í fyrstu er óskýrt hvers vegna sögukona skuli gera upp líf sitt á þennan máta. Í gegnum verkið má finna fyrir ákveðinni depurð falinni á bakvið hispurslausar frásagnir og létt yfirbragð. En í lokin kemur loks að ástæðunni, þetta er ákveðin kveðjustund þar sem móðir segir skilið við dóttur sína. Hún hefur sinnt sínu hlutverki, séð dóttur sinni fyrir mat sem hægt er að örbylgja og úlpum og skóm, en hér skiljast leiðir. Hin angurværa sviðsmynd og tónlist eru því viðeigandi fyrir þessi kaflaskil í lífi móðurinnar sem haldin er sjálfseyðingarhvöt.

Sýningin er hæfilega löng fyrir svo einfalda atburðarás þar sem áhorfendum er skemmt nánast allan tímann. Fá þeir þó stundir til að velta alvarleika frásagnarinnar fyrir sér og skilur verkið ýmislegt eftir að sýningu lokinni.