Græn atvinna – lausnir við loftslagsvánni?

Viðtal við Söndru Snæbjörnsdóttur, kolefnisfargara hjá Carbfix

„Það er kannski erfitt að ímynda sér svona kolefnisförgunarver. En að sama skapi er galið að hugsa sér hvað við höfum gengið langt í nýtingu á kolefnaeldsneyti.”

“Lausnin að [loftslags]vandamálinu eru margar lausnir.”

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Vandamál tengd loftslagsvánni vaxa og stigmagnast því lengra sem tíminn líður án aðgerða. Þessi vandamál kalla á aukin verkefni sem æ fleiri einstaklingar og fyrirtæki sinna. Mikil atvinnusköpun hefur átt sér stað í þessum geira þar sem fyrirtæki eru stofnuð utan um tiltekin sóknarfæri á markaðnum. Þau störf sem vinna að varðveitingu eða endurheimt umhverfisins eru alla jafna kölluð græn störf.

Á Íslandi eru ófá fyrirtæki sem hafa tekið að sér græna atvinnusköpun. Eitt þeirra er fyrirtækið Carbfix sem sérhæfir sig í kolefnisföngun og förgun. Sandra Snæbjörnsdóttir er einn þeirra kolefnisfangara sem starfa á Hellisheiði þar sem aðstæður til föngunar og förgunar eru góðar.

Að fanga og farga koltvíoxíð

Við fyrstu sýn virðist starfsemi Carbfix vera sprottin upp úr vísindaskáldskap. Verkefni fyrirtækisins felst í því að hagnýta það náttúrulega ferli sem á sér stað í kolefnisbindingu í bergi. Fyrirtækið hefur mest einblínt á tvö verkefni. Annars vegar föngun á koltvíoxíði og brennisteinsvetni úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar, og hins vegar föngun á koltvíoxíði beint úr andrúmsloftinu. Carbfix nær að fanga um þriðjung þess koltvíoxíðs sem Hellisheiðarvirkjun losar sem samsvarar um 12.000 tonnum á ári og auk þess er um 5.000 tonnum af brennisteinsvetni hreinsað úr útblæstri virkjunarinnar.
Ferlið felst í því að gastegundirnar koltvíoxíð og brennisteinsvetni eru fangaðar úr útblæstrinum með því að leysa þau í vatni. Úr því verður til „frekar ógeðslegt brennisteinssódavatn,“ eins og Sandra orðar það, sem er dælt djúpt í basaltbergið á Hellisheiði. Vegna þess að „sódavatnið“ er þyngra en vatnið sem er nú þegar í jarðlögunum hefur það ekki tilhneigingu til að rísa til yfirborðs heldur sekkur dýpra í jarðlögin. Auk þess hefur það hátt sýrustig og leysir því málma úr berginu sem steinrenna koltvíoxíðsblönduna. 

Hitt niðurdælingarverkefnið á Hellisheiði, sem miðar að föngun koltvíoxíðs beint úr andrúmsloftinu, er samstarfsverkefni Carbfix og svissneska fyrirtækisins Climeworks, og er m.a. fjallað um verkefnið í bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. „Tilraunafasa á verkefninu er lokið, við höfum dælt niður um 50 tonnum á ári af CO2 fönguðu úr andrúmslofti og við förum nú í alvöru verkefni með þeim þar sem loftsugur sem fanga allt að 4.000 tonn af koltvíoxíð á ári verða settar upp,“ segir Sandra, en gert er ráð fyrir að niðurdæling hefjist næsta sumar. „Climeworks fær rafmagn og heitt vatn frá Orku Náttúrunnar til þess að knýja þessar loftsugur og svo tökum við CO2 frá þeim og dælum niður. Það er í fyrsta skipti sem svona keðja er sett saman á heimsvísu svo það er mjög spennandi,“ segir Sandra.

Sandra nefnir að föngun úr andrúmsloftinu sé orkufrekara ferli þar sem mun þynnri straumur er af koltvíoxíði í andrúmslofti heldur en í beinum útblæstri. „Við munum þurfa þessa tækni í framtíðinni þó að við hættum að brenna kolefnaeldsneyti. Við losum koltvíoxíð í ýmsum ferlum sem við erum háð, til dæmis sementsframleiðslu, stál- og áliðnaði og ruslabrennslum. Það er algjörlega ljóst að markmiðum Parísarsáttmálans verður ekki náð án kolefnisbindingar og förgunar á stórum skala. Milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur gefið út að um miðbik þessarar aldar munum við bæði þurfa að hætta losun ásamt því að fanga koltvíoxíð úr andrúmsloftinu með öllum tiltækum ráðum, bæði með náttúrulegum lausnum, en líka tæknilausnum sem þessum.“

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Koltvíoxíðföngun komin til að vera

Carbfix gegnir mikilvægu hlutverki í loftslagsáætlun Íslands. Nú er unnið að rannsóknum og þróun á því að finna hvort hægt sé að nýta tæknina fyrir aðra starfsemi sem losar koltvíoxíð. Í samstarfi við Sorpu ætlar Carbfix að fanga koltvíoxíð frá urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. „Núna ætlum við að prófa eldra berg og það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vita hvort það virki, m.a. svo við getum metið hvort hægt sé að nota aðferðina t.d. við stóriðjustarfsemi á Grundartanga og Reyðarfirði sem losar mikið koltvíoxíð. Náist að fara í fulla föngun og förgun við helstu stóriðjusvæði Íslands væri hægt að farga um 40% af heildarlosun koltvíoxíðs á Íslandi.

 „Á næsta ári förum við líka í tilraunir þar sem við leysum koltvíoxíð upp í sjó og dælum svo niður í bergið. Í framtíðinni getum við séð fyrir okkur nokkurs konar öfuga olíuborpalla: í stað þess að dæla gasi og olíu úr borholum á hafsbotni værum við að dæla koltvíoxíð aftur í basaltið og steinrenna það,“ segir Sandra og bætir við: „Það er kannski erfitt að ímynda sér svona kolefnisförgunarver. En að sama skapi er galið að hugsa sér hvað við höfum gengið langt í nýtingu á kolefnaeldsneyti. Þessi manngerða tilraun sem hefur verið í gangi frá iðnbyltingu er algjörlega sturluð. Að maðurinn skuli vera búinn að breyta lofthjúpi jarðar á svo stórum skala. Við erum að losa u.þ.b 40 gígatonn af koltvíoxíð á ári, það eru 40 milljarðar tonna á ári.“

Sandra segist sjálf vona að Carbfix og sambærilegar mótvægisaðgerðir verði óþarfar eins fljótt og hægt er:  „Ástæða þess að við þurfum á svona mörgum tæknilausnum að halda er til marks um að við brugðumst allt of seint við. Þess vegna erum við uppi á Hellisheiði að þróa einhverjar ryksugur til að sjúga koltvíoxíð sem við höfum þegar losað úr andrúmsloftinu og fjarlægja það úr lofthjúpnum til að minnka áhrif þess á allt lífríki jarðar.“

Í jarðhitagarðinum, svæði Orku Náttúrunnar á Hellisheiði, starfa fyrirtæki að grænum lausnum líkt og Carbfix. Til dæmis hefur þar aðsetur fyrirtækið Algaennovation, sem vinnur að sjálfbærum fæðulausnum fyrir framtíðina. Að sama skapi eru fyrirtæki um allt land að vinna að verkefnum sem snúa að grænni starfsemi. Þessi margvíslegu verkefni eru misgóð og misalvarleg með tilliti til grænþvotts, en eiga það þó öll sameiginlegt að vinna að grænni framtíð. „Það verður engin ein lausn. Carbfix mun ekki leysa loftslagsvandann. Lausnin að vandamálinu eru margar lausnir. Carbfix er með eina og Climeworks er með eina. Svo er hægt að planta trjám, stoppa matarsóun og hætta þessari brjáluðu neysluhyggju. Vonandi getum við bara lagt eins mikið af mörkum og hægt er,“ segir Sandra.