Umhverfismeðvituð list: Viðtal við Fræ

Fræ reynir að ná til fólks með listgjörningum og vekja það til umhugsunar um náttúruna. Listakonurnar Ragnhildur Katla Jónsdóttir og Sædís Harpa Stefánsdóttir standa að baki listaverkanna og vildi blaðamaður vita meira um þær og hugsjónina á bak við Fræ.

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Ragnhildur er 21 árs listakona sem stundar nám í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur síðustu tvö ár ferðast um heiminn, meðal annars til Bandaríkjanna þar sem hún lærði olíumálun og að renna leir. Ragnhildur er mikill umhverfissinni og vill stuðla að vitundarvakningu um neysluhyggju almennings ásamt því að vekja áhuga á náttúrunni með skapandi leiðum. Hún heyrði í Sædísi snemma árs 2020 með hugmyndina að Fræ en þær kynntust fyrir tveimur árum og náðu strax vel saman í gegnum listina og sameiginlega hugsjón þeirra. Sædís er 25 ára tónlistarkona, ljósmyndari Stúdentablaðsins og með BA-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði. Áhugi hennar á listsköpun varð til þess að hún fór í MA-nám í grunnskólakennslu með áherslu á sjónlistir og leggur mikið upp úr sjálfbærni í vinnu með börnum. Með fræ fá listakonurnar tækifæri til þess að tjá sig á ólíkan hátt en þær sjá styrk í fjölbreytninni og verkin þeirra tala mjög vel saman. Sædís notar ljósmyndir og tónverk á meðan Ragnhildur vinnur meira með skúlptúra.


Hvernig byrjuðuð þið að gera umhverfismeðvitaða list?

Við fórum af stað með þessa hugmynd í skapandi sumarstörfum í Kópavogi sumarið 2020 þar sem áhersla var lögð á skúlptúra úr efni sem venjulega hefði endað í endurvinnslu eða rusli heimila. Með skúlptúrunum voru myndverk og samfélagsmiðill þar sem við vildum koma boðskapnum víðar og gefa fólki dýpri innsýn inn í ferlið. Umhverfismeðvitund hefur alltaf skipt okkur miklu máli, og okkur fannst þessi vettvangur tilvalinn til að koma þessum áherslum á framfæri. List hefur þann eiginleika að vekja upp umræður og spurningar hjá hverjum og einum sem vonandi leiðir til samfélagslegrar breytingar.

DSC05610.jpg

Býflugurnar

eru mest unnar úr plasti og töppum úr drykkjarföngum. Þær tákna aðal hetjur umhverfisins, en með stækkun borga og hlýnun jarðar hefur lífi þeirra verið ógnað.

Hvaðan kemur efniviðurinn?

Við notum fyrst og fremst efni sem flokkast undir heimilisrusl og eru ekki náttúruleg, t.d. plast, pappi, gamlir nytjahlutir og textíll. Stundum höfum við nýtt náttúruleg efni til þess að sýna samspil náttúrunnar á móti skaðlegum efnum og áhrif neyslu okkar á hana.

Hugsið þið út frá efninu sem þið finnið eða vinnið þið með einhverja fyrirfram tilbúna hugmynd?

Þetta er einhverskonar samspil milli skúlptúranna og efniviðarins. Fyrst skoðum við hvaða markmiðum við viljum koma á framfæri. Sem dæmi fengum við hugmynd út frá plasti í sjónum og afraksturinn varð alda úr plasti. Við skoðum því kannski frekar þau málefni sem bera hæst í samfélaginu hverju sinni og hvernig það er best að koma þeim á framfæri með listinni.

Sædís Harpa Stefánsdóttir / Aðsend

Sædís Harpa Stefánsdóttir / Aðsend

Það er misjafnt hvaða listform þið notið. Hvað ræður því hverju sinni?

Þetta málefni er mjög viðamikið og okkur fannst mikilvægt að mæta því á fjölbreyttan hátt og það er ekki beint ein leið til þess að koma skilaboðunum á framfæri. Það er í raun engin tilviljun í verkunum okkar en þau þróast á mismunandi hátt eftir því hvor okkar tók verkið að sér. Við erum mjög ólíkar listakonur og túlkum verkin okkar með mismunandi miðlum.

DSC07609.jpg

Hringrás trésins

er skúlptúr unninn úr pappír; ísdollur, klósettpappírsrúllur og dagblöð mynda tréð upp á nýtt. Pappír sem efniviður hringsólast í samfélaginu þó svo ógnarmagn sé nú þegar til staðar. 


Hvernig vinnið þið með umhverfismeðvitund og listsköpun?

Við skoðum margar hliðar á umhverfisvitund en við höfum síðastliðið ár lagt mesta áherslu á skaðsemi neysluhyggju. Við viljum vekja áhuga og skilning á mikilvægi meðvitaðrar neyslu. Neysluhyggja er hluti af vandamálinu og þar höfum við valdið sem einstaklingar í þessari baráttu. Þetta er ekki spurning um að fáir séu 100% heldur að allir leggi sig eitthvað fram, því það hefur mun meiri áhrif. Við hvetjum því fólk til að taka lítil sem stór skref og fyrst og fremst líta inn á við. 


Eru einhver verk í vinnslu og eigum við von á annarri sýningu frá Fræ?

Við erum eins og er að taka þátt í verkefni í skóla á höfuðborgarsvæðinu sem er hluti af verkefni sem kallast LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar). Verkefnið snýst um tengingu barna við plast sem efnivið og munu verkin þeirra vera sýnd á sýningu á Barnamenningahátíð. Það er vonin að halda áfram með FRÆ því við höfum frá mörgu að segja og mörgu að berjast fyrir.


Hvernig viljið þið sjá framtíðina þróast í tengslum við umhverfið?
Þó það sé ljóst að aðaláhrifavaldar hnattrænnar hlýnunar og mengunar sjávar séu stórar verksmiðjur og fyrirtæki er ekki rétt að almenningur hafi engin áhrif. Því meðvitaðri sem við erum um umhverfið því líklegra er að breytingar verði. Vonin er að meðvituð neysla manna geti breytt framleiðslu verksmiðja og leitt okkur að grænni framtíð. Við lifum á tímum ótrúlegra þæginda sem hafa bitnað á umhverfinu okkar. 

Við verðum að muna að við erum ekki ein og ef við höldum áfram að lifa eins og meðal Vesturlandabúar þá getur jörðin ekki staðið undir okkur.

DSC07765.jpg

Plastaldan

táknar allt það plast sem fer í sjóinn á dag og ógnar sjávarlífi. Hér er plast vefað inní vírnet og mótað sem alda.


Hver er boðskapur Fræs?

Eitt af okkar megin áherslum er að ekkert sé einnota nema það sé notað einu sinni. Sérstaklega að nota þau efni sem í nútíma samfélagi eru keypt í miklu magni og hent nær strax eftir notkun líkt og plastumbúðir. Eins og kom fram hér að ofan er lykillinn að skapa fjölbreyttar umræður og sá fræjum sem vonandi hafa áhrif á framtíðina.