Háskóladansinn
Þýðing: Stefán Ingvar Vigfússon
Hvernig förum við að því að vera frumleg og einstök í samfélagi sem verðlaunar það að falla inn í hópinn? Í bók sinni Find Your Artistic Voice: The Essential Guide to Working Your Creative Magic heldur Lisa Congdon því fram að listræn rödd okkar sé það sem gerir okkur einstök. Við þróum hver okkar eigin stíl með gegnumgangandi tilraunum og áskorunum.
Dans er eitt þeirra listforma sem gerir okkur kleift að tjá okkar innra sjálf. Þú getur tengst þínum dýpstu hugsunum og tilfinningum. Forngrikkir höfðu miklar mætur á dansi og töldu hann vera mikilvægt skref í þroska líkama og huga.
Það er gefandi upplifun að vera áhorfandi á danssýningu, en hvers vegna tekurðu ekki þátt frekar en að sitja og horfa á? Það er áskorun, þú bætir jafnvægið, líkamsburð, örvar heilann og minnið, og skemmtir þér í leiðinni. Háskóladansinn er frábær vettvangur til þess að byrja að dansa. Hann er ekki bara opinn nemendum Háskólans, heldur mega öll sem hafa áhuga skrá sig og taka þátt! Það er úrval dansstíla í boði, sem henta bæði þeim sem vilja dansa ein eða með dansfélaga. Yfirleitt er hægt að velja um West Coast swing, rokk og ról, Lindy hop og salsa. Vegna óvissunnar í kringum COVID eru engin námskeið í boði að svo stöddu, en skólinn stefnir á að bjóða upp á stutt námskeið eftir páska. Við vildum fræðast um Háskóladansinn og höfðum því samband við innanbúðarfólk.
Rut Malmberg
West Coast swing, swing, rock og roll, Lindy hop, blues, salsa og tango dansari
Er dans íþrótt eða listform?
Dans getur verið hvort tveggja. Hann er íþrótt í þeim skilningi að það er hreyfing að dansa. Ég held að það sé gott að læra dansa vegna þess að dans bætir líkamsstöðu, fínhreyfingar og minnið. Dans, eins og aðrar íþróttir, stuðlar að framleiðslu endorfína, hinna svokölluðu „hamingjuhormóna.“ Rannsóknir hafa sýnt fram á að dans geti verið forvörn við Alzheimers sjúkdómnum, vegna þess að hann bætir minnið. Dans er líka listform, vegna þess að það er fallegt að horfa á hann og hver einasta manneskja hefur sína eigin tjáningu í dansi.
Hvað fékk þig til þess að byrja í danstímum?
Vinkona mín úr menntaskóla spurði hvort ég vildi koma með henni í ókeypis tveggja vikna prufutímabil [hjá Háskóladansinum] vorið 2014. Mér fannst gaman að dansa og að kynnast fólki. Það góða við Háskóladansinn er að dansa og tala við marga. Ég kynntist nýjum dansstílum, nýrri tónlist og nýju fólki.
Hefurðu einhvern tímann gleymt sporunum í miðju dansverki? Ef svo er, hvað gerðirðu?
Já, það hef ég gert. Ef það gerist spinn ég eitthvað á staðnum og reyni að láta það virka eðlilega.
Amanda Christine Carticiano
K-pop danskennari
Er dans íþrótt eða listform?
Ég lít á dans sem listræna íþrótt vegna þess að ákveðnir dansstílar kalla á að dansararnir noti íþróttamennskuna, þolið og þokkan, ekkert ósvipað fimleikum til dæmis. Það má meira að segja líta keppni í dansi sömu augum og keppni í listskautum. Kannski blasir það ekki við að dans geti talist vera íþrótt, vegna þess að hann virkar svo fullur af gleði. Það er hins vegar miklu meira á bak við dans en það virðist vera. Dans er meira en bara listform. Það er mikil æfing og erfiðisvinna sem býr að baki, sérstaklega hjá þeim sem hafa hann að atvinnu, rétt eins og hjá íþróttafólki sem æfir sína íþrótt.
Hverjir eru mikilvægustu eiginleikar sem dansari ætti að búa yfir?
Dansari þarf að vera skapandi, búa yfir góðri samskiptahæfni, líkamlegu þoli, dug, íþróttamennsku, stöðugleika og geta unnið vel með öðrum. Dansari þarf að kunna að túlka tónlist og texta á skapandi hátt og geta myndað tengsl við áhorfendur með því að tjá tilfinningar sínar með líkamanum. Að hafa gott þol og búa yfir íþróttamennsku eru mikilvægir eiginleikar bæði til þess að geta enst lengi á dansgólfinu, eða í dansverki, og til þess að geta framkvæmt flóknar hreyfingar. Að hafa seiglu er algjör lykill, það skiptir miklu að halda í jákvæðnina í dansheiminum. Stöðugleiki skiptir mjög miklu til þess að þroskast og þróa hæfni í dansinum. Þar sem dans er list er hann oftar en ekki sýndur með hópi dansara en þá skiptir miklu máli að geta unnið með öðrum.
Hvernig er venjuleg vinnuvika?
Það er krefjandi vinna að kenna dans. Það kallar á mikinn undirbúning. Ég kenni K-pop dansnámskeið. Allavega mánuði áður en námskeiðið hefst þarf ég að læra K-pop dansrútínur sem ég hef hug á að kenna. Yfirleitt læri ég rútínu á innan við tveimur tímum á einum degi. Ef ég er löt getur það alveg tekið nokkra daga af æfingum áður en ég get dansað rútínuna án þess að hugsa. Fyrir utan rútínuna sjálfa þarf ég líka að undirbúa upphitunar rútínu, sem samanstendur af teygjum og svæðisæfingum sem við förum í gegnum áður en við byrjum að dansa í tímanum. Ég þarf líka að velja lög fyrir upphitanir og stundum þarf ég að klippa lög.
Erna Sól Sigmarsdóttir
Stjórnarmeðlimur Háskóladansins og Choreography Workout danskennari
Hvernig myndir þú lýsa því sem þú gerir?
Ég er í stjórn Háskóladansins auk þess að kenna [þar]. Ég reyni einnig að taka þátt í öðrum námskeiðum sem eru í boði. Námskeiðið sem ég kenni heitir Choreography Workout og byggir á tækni úr jazz og nútímadansi. Við lærum skemmtilegar dansrútínur og gerum líka aðeins styrkleika- og teygjuæfingar.
Hverjar eru algengustu ranghugmyndirnar um dans?
Ég held að frasinn „ég kann ekki að dansa“ sé algengasti misskilningurinn. Öll geta lært að dansa, þú þarft bara að losa þig við það sem heldur aftur að þér.
Hvaða námskeið eru í boði núna?
Við gátum ekki undirbúið hefðbundna vorönn vegna óvissunnar í samfélaginu í upphafi árs. Það stendur hins vegar til að bjóða upp á styttri námskeið yfir næstu vikur og mánuði, ef vel gengur að halda faraldrinum niðri. Við látum vita á Facebook og Instagram um leið og við vitum meira sjálf!