Endurnýting: DIY Pappamassaföndur
Endurnýting hefur orðið vinsælli undanfarin ár, fólk kaupir notað eða lætur hluti ganga á milli. Sumir eru mjög góðir í að finna hlutum, sem þjóna tilgangi sínum ekki lengur nýtt líf, til dæmis með því að taka gömul slitin föt eða sængurver og nota í textílsköpun, tuskur eða annað sniðugt. Með því að vera dugleg að endurnýta þurfum við minna að henda sem er betra fyrir plánetuna okkar. Það er orðin skylda á flestum stöðum að flokka rusl, svo minna fer í landfyllingu og nýtist flokkaða ruslið í endurunnar vörur. Það þarf því ekki að framleiða eins mikið af nýjum efnum eins og til dæmis plasti. Með því að takmarka framleiðslu á nýjum efnum minnkum við kolefnisvandann sem skapast við framleiðslu sumra efna og mengunina frá verksmiðjunum.
Það verður samt alltaf að vera einhver framleiðsla en það má setja upp umhverfisvænni verksmiðjur þar sem önnur fyrirtæki nota svo það sem skapast frá einni verksmiðju yfir í næstu og ekkert fer til spillis. Ég mæli með að kynna sér Auðlindagarðinn sem gengur út á nákvæmlega þetta en þeirra markmið er að engum auðlindum sé sóað.
Sóun er annað vandamál sem má laga að einhverju leyti með endurnýtingu en hún getur verið misjöfn eftir aðilum, því sóun hjá einum getur reynst lífsgæði hjá öðrum. Fyrir eina manneskju skipta falleg föt máli því þau endurspegla persónuleika hennar en öðrum gæti fundist það sóun að eyða í nýjar flíkur. Við þurfum að vera meðvituð um það sem veitir okkur hamingju og ekki sóa í hluti sem veita okkur ekki neitt. Ég mæli með fyrir áhugasama að kíkja á síðu Andrýmis sem geymir fróðleik um sjálfbærni, sóun og endurnýtingu.
Mér finnst tilvalið að deila með ykkur uppskrift að DIY verkefni sem samþættir endurnýtingu og sköpun. Þetta er umhverfisvæn og skemmtileg leið til þess að búa til eitthvað nýtt og hentar meðal annars vel í föndur með börnum. Þetta er umhverfisvænni uppskrift að pappamassa eða pappírsleir, þá með hveiti í stað veggfóðurlíms. Það er skrítin lykt af blöndunni á meðan hún er blaut en hún hverfur við þornun. Það má nota þennan blaðaleir bæði til þess að búa til fallega muni en líka nytjavöru eins og skálar. Þegar leirinn er orðinn þurr má svo mála hann. Blandan geymist í loftþéttum umbúðum í ísskáp í 2-3 vikur.
DIY - Pappamassi
Við mælum með að nýta þau blöð sem koma inn á heimilið og gefa þeim framhaldslíf. Ég ákvað að endurnýta síðustu tölublöð Stúdentablaðsins eftir lestur og búa til blaðaleir úr þeim.
Það sem þú þarft:
Rifin blöð
Heitt vatn
Hveiti
Salt
Tætið blöðin niður og setjið í skál, hellið heitu vatni yfir, passið að allur pappír blotni vel.
Geymið yfir nótt. Blandan verður mýkri og því léttara að blanda henni vel saman í leir.
Blandið vel með höndunum eða töfrasprota.
Kreistið auka vatn úr blöndunni.
Bætið hveiti og salti við (hveitið er 1 á móti 3 af pappírsblöndu).
Fyrir þá sem eru óþolinmóðir og geta ekki geymt pappírinn í bleyti yfir nótt mæli ég með að fikta bara nógu lengi í honum með höndunum; kreista, hræra og rífa blöðin betur niður í vatninu. Það er bæði róandi og svolítið gaman að sulla í þessu. Þegar blandan er orðin leðjuleg er umfram vatn kreist frá og hveiti og salti bætt við. Það þarf að hnoða þetta vel saman svo úr verði leir en einnig má nota töfrasprota eða handþeytara með hnoðaranum á (það eru spíral gaurarnir sem fylgja með).
Úr leirnum má svo gera ýmislegt. Sem dæmi má þjappa honum utan um skál eða önnur ílát til þess að herma eftir formi þeirra. Ég fann líka margar skemmtilegar hugmyndir á pinterest eins og ljósakrónu, grímur og fígúrur. Þar sem sumarið er á næsta leiti ákvað ég að gera blómapott. Vonandi skemmtir þú þér vel við föndrið og gerir listaverk, nytjahlut eða persónulega gjöf.