Að rusla sér til matar

Stór hluti af framleiddum mat endar í ruslinu. Ekki einungis inni á heimilum, heldur henda matvöruverslanir og veitingastaðir líka óhemju miklu magni. Maturinn sem endar í ruslinu býr yfir sögu og hefur jafnvel ferðast langar vegalengdir áður en honum er síðan hent. Allt framleiðsluferlið og öll orkan sem fer í að búa hann til fer til spillis. Að rusla sér til matar (e. dumpster diving) hefur færst í aukana, þar sem sífellt fleiri eru farin að átta sig á þessu stóra vandamáli sem matarsóunin er. Maturinn sem endar í ruslinu þarf ekki að vera síðri en sá sem fæst í búðum. Oft eru það vörur sem ekki þykja seljanlegar eða einfaldlega renna bráðlega út. Það má vel nýta þennan mat, en háar kröfur neytandans og offramleiðsla leiðir til þess að hluti matarins selst ekki, og endar þar með í gámum. Það er forvitnilegt að sjá hvað má finna sér til ætis og elda. Þess vegna fór blaðamaður Stúdentablaðsins á stúfana og prófaði að rusla mat, ásamt því að elda úr því sem hún fann.

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

rusla2.jpeg

Myndir / Auður Helgadóttir

Það hafði lengi blundað í mér að prófa að rusla, þar sem þetta er gott sparnaðarráð, en ekki síður gott til þess að sporna gegn matarsóun og þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfið. Það virðist vera misgott að rusla á milli verslana, en allt fer eftir því hve gott aðgengi er að gámunum (hvort að þeir séu læstir, eða lokaðir af), hvert viðmót verslana er gagnvart ruslun og í hvernig ástandi maturinn er í gámunum. Ég keyrði eitt fimmtudagskvöldið í leit að gámum sem hægt væri að gramsa í. Ég þekkti lítið fyrir mér í þessum efnum, en ákvað að fara sjálf og sjá hvað kæmi úr því. Ég stóð ein að verki í húsasundi á Grandanum og varð skyndilega smeik við myrkrið og mögulegar hættur sem steðjuðu að við það að róta í rusli, óvelkomin að mér leið. Það var líklega ekki mikið um hættur, en það leið ekki að löngu þar til ég hringdi í vinkonu mína og bað hana að slást í för með mér í þessum leiðangri. Ég myndi ráðleggja fólki að fara nokkur saman, í pörum eða fleiri, þar sem það er mun skemmtilegra og ekki jafn ógnvekjandi þegar maður ruslar fyrst um sinn. 

Eftir miklar vangaveltur um hvert við skyldum halda enduðum við á að kíkja í grænmetis- og ávaxtaheildsölu. Við vissum ekki við hverju við áttum að búast þegar við komum að gámunum. Okkur leið eins og það væri verið að fylgjast með okkur, á stóru upplýstu svæðinu með vörubíla og vélarhljóð allt um kring. Við létum það hins vegar ekki stoppa okkur og dýfðum okkur ofan í fyrsta gáminn. Önnur okkar þurfti að klöngrast upp á meðan hin beið spennt fyrir neðan. Fyrst um sinn virtist þetta ekki mikið, en svo kom annað í ljós. Ofan í gámnum voru þrír salathausar og ógrynni af gómsætri basilíku! Þegar við leituðum í öðrum kössum fundum við meðal annars melónur, papriku, kínahreðkur, kartöflur og spergilkál. 

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

Myndir / Auður Helgadóttir

Yfirfullar af spenningi yfir öllum þessum mat, sem var í meira en fínu lagi með, fylltum við tvo kassa af grænmeti og ávöxtum. Ég bið lesendur að varast æsinginn, og taka aðeins það sem þið vitið að þið getið borðað, taka ekki meira en þið þurfið. Þessum byrjendamistökum munum við læra af. 

Nú var bíllinn fullur af grænmeti og við áttum næstu daga fullt í fangi með að matreiða úr því sem við fengum. Úr matnum urðu hinir ýmsu réttir, sem heppnuðust misvel, enda má ekki búast við öðru í tilrauna-eldamennsku. Við notuðum bæði matinn sem við fundum í gámunum, en líka þann mat sem við áttum til nú þegar. Hér koma dæmi um rétti sem eldaðir voru næstu daga:

rusla6.jpeg

Vegan „kjöt“bollur með kartöflum, basilíku, smjöri og salti, rauðkáli og brúnni sósu:

Klassískur heimilismatur sem gott er að gæða sér á eftir annasaman dag. Ég sauð hluta af kartöflunum og stráði smá basilíku yfir. Kartöflurnar sem komu úr gáminum voru ljómandi góðar, enda bragðast ókeypis matur alltaf betur.


rusla.jpeg

Kínahreðkunúðlur í hnetusmjörsdressingu, með kóríander og dilli:

Vinkona mín matreiddi þessar dýrindis núðlur úr kínahreðkunum sem við fundum. Þessi hráfæðisréttur er vegan og bráðhollur. Með alls konar ferskum kryddum, kasjúhnetum, kimchi og fleiru góðu. Nú höfðum við aldrei séð kínahreðkur fyrr í verslunum, en fundum þær í gáminum og höfum fyrir vikið kynnst einstaklega góðu nýju grænmeti.

rusla7.JPG

Basilíkupestó spagettí, salat og bruschetta:

Hvað átti að gera við alla þessa basilíku? Pestógerð kom fyrst upp í hugann, svo ég fór á fullt að laga grænt pestó. Pestó er gott á brauð og sem meðlæti, en til þess að nýta það betur kom úr því þetta fína spagettí. Meðlætið var salat með vatns- og hunangsmelónum, papriku og rauðlauk. Allt salatið fengum við í ruslinu og gerði það þessa máltíð ennþá betri. Til þess að toppa allt, og nýta ennþá meiri basilíku gerði ég bruschetta, með dass af ólífuolíu og salti og pipar.

Það skiptir máli að vera opin fyrir allskonar mat, og gefa sér tíma í að prófa sig áfram. Ég mæli heilshugar með því fyrir alla að prófa að rusla. Þetta er bæði gott fyrir veskið og jörðina, þess vegna hvet ég fólk til þess að láta á reyna, taka einhvern með sér og plana matseðil eina vikuna út frá því hvaða góðgæti leynist í ruslinu.