Vill róttækari aðgerðir í loftlagsmálum
Guðrún Fríða Wium er 23 ára stjórnmálafræðinemi og situr í Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Umhverfis- og samgöngunefnd er ein af níu nefndum Stúdentaráðs og sinnir umhverfismálum skólans, þar á meðal sjálfbærnisstefnu HÍ, skipulags- og samgöngumálum háskólasvæðisins og endurvinnslu. Að auki sér nefndin um Grænfána verkefnið, alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni, samhliða starfsmanni Sjálfbærni- og umhverfisnefndar HÍ. Í nefndinni sitja tveir meðlimir úr Röskvu, tveir úr Vöku og einn óháður meðlimur sem er fenginn inn á haustönn.
Guðrún byrjaði að hafa áhuga á umhverfismálum eftir að hún hóf nám við menntaskólann við Hamrahlíð og varð mun meðvitaðri um gróðurhúsaáhrif þegar hún kynntist mörgum grænmetisætum og grænkerum í skólanum. Það varð til þess að hún byrjaði að horfa á heimildarmyndir og lesa sér meira til um þau áhrif sem hún var að valda með því að neyta dýraafurða.
Bíllausi dagurinn
Vikuna 15.-19. febrúar hélt Umhverfis- og samgöngunefnd Samgönguviku. Með henni vildi nefndin fræða nemendur um hversu mikið samgöngur vega í útreikningum á kolefnisspori einstaklinga. Að auki hélt nefndin Bíllausan dag til þess að hvetja nemendur HÍ til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta, þá til dæmis með því að ganga, hjóla, línuskauta, taka rafmagnshlaupahjól eða strætó. Þeir sem tóku þátt í Bíllausa deginum gátu sett mynd af sér í Instagram story að nýta einhverja af ofantöldum samgöngumátum og komust þannig í happdrættispott.
Vegna kórónuveirufaraldursins hafa allir viðburðir nefndarinnar á þessu skólaári farið fram á netinu en Guðrún segir að með nýlega breyttum sóttvarnarreglum verði vonandi hægt að halda viðburði í persónu, til dæmis innan veggja háskólans.
Aðgerðaráætlun sem endurspeglar alvarleika málsins
Blaðamaður Stúdentablaðsins spyr Guðrúnu hvað henni finnist Háskóli Íslands gera vel þegar kemur að umhverfismálum. Hún segir gott að sjá að eitt af markmiðum Háskóla Íslands, sem kemur fram í stefnu skólans 2016-2021, sé að stuðla að sjálfbærni háskólasamfélagsins. Til þess að ná því markmiði stofnaði háskólinn Sjálfbærni- og umhverfisnefnd sem hefur verið að vinna að innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis að nafni ISO 14001 og Grænna skrefa en forseti Umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ, sem á þessu skólaári er Urður Einarsdóttir, á sæti í nefndinni. Að auki er Guðrún spurð hvort hún telji að háskólinn geti gert eitthvað betur þegar kemur að málaflokknum. Hún telur háskólann þurfa að grípa til róttækra aðgerða sem ríma við alvarleika loftslagsbreytinga. „Hann ætti að vera leiðandi í umhverfismálum og ætti þess vegna að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Því þyrfti að fylgja aðgerðaráætlun sem endurspeglar alvarleika málsins,“ segir hún og bætir við að háskólinn ætti einnig að beita sér fyrir bættum almenningssamgöngum á háskólasvæðinu.
Tíminn er naumur
Guðrún segir að stúdentar geti gert ýmislegt til að draga úr kolefnisspori sínu og nefnir nokkrar auðveldar leiðir til þess. „Ég veit að þetta er alltaf sama runan en að minnka neyslu á óþarfa hlutum, sérstaklega sem pakkað er í plast, gerast vegan eða minnka neyslu á dýraafurðum og velja umhverfisvænni ferðamáta eru allt frábærar leiðir til þess að minnka kolefnissporið sitt. Við þurfum öll að taka til aðgerða og breyta hegðun okkar því, eins og við vitum, þá er tíminn naumur.“
Umhverfis- og samgöngunefnd heldur uppi Instagram reikning sem Guðrún hvetur stúdenta til að fylgja enda lofar hún alls kyns góðum leikjum og frábærum vinningum á næstunni. Að auki vill hún ítreka mikilvægi þess að við breytum hegðunarháttum okkar og að það sé hægt að byrja á því strax í dag. „Eftir ár gætir þú verið að hugsa ‘Vó, það er ár síðan að ég sannfærðist um að gerast vegan eftir að ég las viðtal við Guðrúnu Fríðu í Stúdentablaðinu! Food for thought,“ segir Guðrún.