Vill gera peysurnar verðmætari: Viðtal við Ýrúrarí

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Ýr Jóhannsdóttir er textílhönnuður sem þekkist gjarnan undir listamannanafninu Ýrúrarí. Prjónaskapurinn var lengi eitt helsta áhugamál Ýrar en þar sem það er nú orðið að vinnu segir hún að áhugamálin hennar séu orðin venjulegri. Henni þykir gaman að horfa á bíómyndir og fer reglulega í Klifurhúsið. 

Hún segir að áhugi sinn á fatahönnun hafi einnig orðið viðvarandi snemma og segist alltaf hafa fundist skrýtin föt áhugaverð. „Þegar ég var unglingur fór ég í MH en áður en ég byrjaði þar þá fór ég oft í vinnuna með mömmu sem vann í skólanum og man eftir því að hafa verið að fylgjast svolítið með fólkinu þar, í alls konar fötum. Ég var í algjörum útverfaskóla þar sem var ekki alveg í lagi að vera í skrýtnum fötum þannig í MH fékk það að blómstra,“ segir Ýr.

Gerir eitthvað skrýtið úr því venjulega

Aðspurð hvað veiti henni innblástur í hönnun sinni segist hún gera eitthvað venjulegt að einhverju skrýtnu. Henni þykir gaman að vinna með gamlar merkjavörupeysur og gera hvað sem er við þær, breyta þeim og gera þær að einhverju nýju og segir það vera skemmtilegur útgangspunktur.

Þessa dagana gengur Ýr lítið í því sem hún gerir sjálf. Hún segir að flíkurnar hennar fái gjarnan töluverða athygli og segir hún að henni finnist það oft á tíðum ekki sérlega þægilegt. Uppáhalds flík Ýrar sem hún hefur sjálf gert er græn hákarlapeysa og segir hún að það sé eina peysan sem hún notar reglulega.

Þegar Ýr býr til flíkur segir hún að ferlið sé mismunandi. „Núna hef ég verið að fá peysur frá Rauða krossinum og það sem ég geri gjarnan er að hengja peysu upp sem mig langar að vinna með og virði hana fyrir mér, stundum finn ég ekki neitt, stundum finn ég eitthvað. En ég geri það langoftast út frá peysunum sjálfum. Ef það er gat eða fastur blettur á peysunni þá þarf ég að vinna út frá því hvar gatið eða bletturinn er staðsettur. Það leiðir líka ferlið áfram. Núna er ég að vinna að tilraun fyrir Hönnunarmars sem verður reyndar núna í maí. Þá er ég að fá vini mína og annað fólk til að taka peysu sem er fremur sjúskuð og túlka hana. Ég fékk til dæmis vin minn sem skrifar smásögur til að skrifa smásögur um eins peysu, hver átti hana, hvað gerðist við hana og hvernig endaði hún hér. Svo ætla ég að vinna peysuna út frá þeirri sögu. Ég er mjög spennt að sjá hvernig það verður. Síðan gæti verið áhugaverð nálgun á hvernig hægt sé að laga þessar peysur, að ímynda sér einhverjar sögur. Þar af leiðandi verða þær líka verðmætari fyrir manni,“ segir Ýr.

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Úr svörtum ruslapoka á svið í Los Angeles

Ein af fyrstu peysunum sem Ýr fékk frá Rauða krossinum var frá Zöru og var þó nokkuð blettótt að hennar sögn og skreytti hún hana fremur mikið. Tónlistarkona hélt síðan tónleika á hátíð í Los Angeles þar sem hún klæddist peysunni hennar Ýrar. „Það er svo æðislegt að sjá peysur sem voru á leiðinni á einhverja ruslahauga eða landfyllingu einhvers staðar fá meiri líftíma og gera þær verðmætari. Sumar eru meira að segja komnar á söfn. Það er geggjað að sjá peysur eftir sig á svona stöðum, sérstaklega þegar þær koma til mín í svörtum ruslapokum til að byrja með. Þær áttu einhverja sögu áður en ég fékk þær sem ég veit ekki um en ég framlengdi þann tíma og gerði þær að einhverju merkilegu,“ segir hún.

„Þarf ekki að leita langt til að átta sig á því hvað maður á ekki að gera“

Þegar Ýr byrjaði að búa til peysur handprjónaði hún þær frá grunni áður en hún færði sig síðan yfir í að vélprjóna. Ýr segir að það hafi verið tímafrekt að gera peysur frá grunni og því hafi hún byrjað að skreyta gamlar peysur, þá gjarnan fyrir vini sína þegar hún var í námi og þurfti á aukapening að halda. „Og í grunninn er þetta mikið betri lausn heldur en að vera alltaf að gera þær frá grunni. Hönnunin mín hefur nokkurn veginn þróast út frá því. Síðan hefur þetta þróast út í verkefnið Peysur með öllu. Þá fæ ég peysur frá Rauða krossinum sem eru ónýtar og er að vinna með þær en annars hefðu þessar peysur lent í ruslinu. Þetta þróast alltaf í umhverfisvænni átt hjá mér,“ segir Ýr og bætir við að með því að læra um hönnun og fataiðnaðinn hafi henni orðið ljóst að þessi iðnaður er ekki í lagi. Það þarf ekki alltaf að leita langt til þess að átta sig á því hvað á ekki að gera. 

Hún lítur þó jákvæðum augum á þróunina sem er að eiga sér stað innan tískubransans og telur fleiri og fleiri veita málefninu eftirtekt og reyna að finna umhverfisvænni framleiðsluleiðir. Ýr segir jafnframt að hún telji vera nóg til af efni og fötum í raun og veru, óþarfi sé að búa til meira nýtt. „Upcycle hefur verið í gangi hér á Íslandi í smá tíma, eins og sú sem hannar undir nafninu Aftur hefur verið að þessu í þó nokkurn tíma og ég held að hún hafi verið góð fyrirmynd fyrir mig hvað þetta varðar. Ganni hjá Geysi hefur líka verið að standa sig mjög vel í þessum málum. Fólk er að sækjast eftir því að vita meira og meira um um framleiðsluferli þess fatnaðar sem þau eru að kaupa, hvaðan hann kemur og hvernig hann sé búinn til,“ segir hún.

Ekki nóg að sefa eitthvað samviskubit

Ýr telur að sú grundvallarbreyting sem hefur átt sér stað er að frekari fræðsla, sérstaklega meðal ungmenna. „Ég fer stundum með fræðslur til unglingahópa og oftar en ekki vita mörg þeirra margt um það sem ég er að segja þeim nú þegar. Það er búið að fræða þau vel um þessa hluti en ég man ekki eftir því að hafa fengið slíka fræðslu þegar ég var í grunnskóla. Síðan fara krakkarnir heim og fræða foreldra sína og þannig breiðist boðskapurinn enn frekar,“ segir hún. „Það verður að vera sjálfsagður hlutur að kaupa notuð föt,“ segir Ýr og bætir við að það skipti miklu máli að fólk sé meðvitað um neysluhegðun sína. „Það eru ótrúlega margir sem fara með föt í Rauða Krossinn eða selja í Extraloppunni til þess að eiga pláss og pening til að kaupa sér nýjar flíkur. Það er annað sem fólk þarf að átta sig á. Það er ekki nóg að sefa eitthvað samviskubit með að fara með fötin þín í þessar búðir og versla síðan ekki við þær til baka. Annars verður enginn hringrás úr þessu. Ég hef líka verið að reyna að benda fólki á það. Líka að nota sín föt eins lengi og mögulegt er, það er umhverfisvænasta leiðin og það er líka það sem ég hef verið að vinna með. Stundum á maður flík, til dæmis peysu sem maður er hreinlega komin með leið á og þá er bara um að gera og breyta henni í peysu sem þig langar meira að ganga í. Það skiptir einnig máli,“ segir hún.

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Aðferðir til að gera peysur að verðmæti í stað rusls

Um þessar mundir eru tvær peysur eftir Ýri á sýningu hjá Listasafni Reykjavíkur. Fimmtán nýir listamenn voru fengnir til að sýna verk sín í bland við verk eftir Erró. Ýr segir að það sé mjög gaman að hafa fengið að taka þátt í því verkefni. 

„Síðan er ég aðallega með opna smiðju í Hönnunarsafni Íslands og verð að gera það þangað til að Hönnunarmars byrjar í maí. Fólk getur þar prófað sig áfram í aðferðum sem ég hef verið að nota og lagað fötin sín. Það er ótrúlega gaman. Ég er núna búin að halda eina smiðju og það var ótrúlega gaman að sjá hvað fólk var að gera við flíkurnar sínar. Ég er með Facebook hóp fyrir fólk sem hefur áhuga á verkefninu eða vill koma og taka þátt í smiðjunum. Niðrí anddyri á Hönnunarsafninu er ég með stand af peysum frá Rauða krossinum sem er ekki búið að laga. Ég fæ svo mikið magn frá þeim að fólk getur þá komið, fylgt ákveðnum reglum og tekið þær að sér, með því loforði að það muni nota þær og laga, viðhalda. Ég fékk Grétu vinkonu mína sem er grafískur hönnuður til að hanna „verðmiða“ á peysurnar en í stað verðs þá eru reglurnar á miðanum, þær reglur sem ég set og einnig reglur sem maður ætti alltaf að fara eftir þegar maður er að kaupa sér föt. Til dæmis: passar þetta við eitthvað í fataskápnum þínum, veistu hvenær þú munt nota hana o.s.frv. Ég er í rauninni bara að prófa alls konar aðferðir til þess að fá þessar peysur til að verða aðeins verðmætari og vera ekki eitthvað rusl. En ég verð stundum hrædd um að þær verða lítið sem ekkert notaðar eða enda aftur á sama stað innan skamms tíma,“ segir Ýr.

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Pulsusull

Aðspurð hvernig verkefnið Ein með öllu komst á laggirnar segir Ýr að Rauði krossinn hafi haft samband við hana. „Ég hafði verið að vinna með notaðar peysur og þau hjá Rauða krossinum sögðu mér að þau voru gjarnan að fá peysur sem væru smá gallaðar. Rauði krossinn nær einungis að flokka um það bil 20% af því sem sett er í gámana þeirra, svo er aðeins ákveðið magn sem fer í búðirnar og svo gefur að skilja að það selst að sjálfsögðu ekki allt sem fer í búðirnar,“ segir hún.

Undanfarin ár hefur Rauði krossinn verið í samstarfi við hönnun í kringum Hönnunarmars. Í gegnum samstarfið fékk Ýr mikið af peysum og hélt síðan sýningu í Rauða kross búðinni með afrakstrinum.  „Þau sem eru að vinna í flokkuninni sögðu mér að það væru oft að koma peysur með slettum framan á peysunni, eins konar sósufar og þannig kom nafnið. Eftir eitthvað pulsusull.  Fyrsta peysan sem ég skreytti var einmitt með slíkri slettu og ég saumaði út í slettuna og úr varð þemað. Síðan er ég búin að taka þetta lengra. Núna heitir verkefnið Pylsa með öllu fyrir alla og þá er ég að reyna að gera þetta þannig að allir geta verið með en í byrjun skreytti ég bara tíu peysur,“ segir Ýr. 

Að lokum spyr blaðamaður Stúdentablaðsins Ýri hvað hún fái sér á pulsu. Ýr er grænmetisæta og segir að það hafi verið ákveðið flækjustig þegar kom að fyrrnefndu verkefni, Pylsur með öllu, þar sem hún og allar fyrirsæturnar nema ein voru grænmetisætur. „En ef ég er að fá mér grænmetispylsur þá fæ ég mér pylsu með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi,“ segir Ýr.