Rafskútur – ekki eins grænar og þú hélst?

Grafík/Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Grafík/Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Samgöngukerfi Reykjavíkur breyttist til frambúðar í október 2019 með tilkomu rafskúta. Það sem byrjaði með Hopp, sem er rekið af samskiptafyrirtækinu Nova, hefur þróast og nú, árið 2021, eru mun fleiri fyrirtæki sem reka rafskútuleigu.
Gular Wind skútur, svartar og appelsínugular Zolo skútur og hinar áberandi neon grænu OSS skútur og hjól – sem hafa allar stuðlað að því að minnka kolefnisfótspor og létta á umferðarteppum. Þannig eru þær að minnsta kosti markaðssettar. En eru þær í raun eins grænar og þær eru sagðar, fyrir utan lit sumra þeirra, eða höfum við verið blekkt? 

Það borgar sig að samnýta

Rafskútur eru einstaklega hentugar, það verður ekki tekið af þeim. Þær eru ódýrar, hraðar og mjög aðgengilegar ef miðað er við aðra samgöngumáta á borð við strætó. Gleymdiru að stilla vekjaraklukkuna, svafst yfir þig og þarft að komast í tíma núna strax? Ekkert mál! Hoppaðu bara á næstu skútu og hún mun koma þér rakleitt á áfangastað!

Það er auðvitað alltaf betra að samnýta og með því að deila til dæmis rafskútu eða bíl í stað þess að allir kaupi sitt eigið minnkum við sjálfkrafa kolefnissporið. Það er augljóst. En hvernig stendur á því að rafskútur eru knúðar áfram af (vonandi hreinu) rafmagni en skilja samt eftir sig kolefnisfótspor. 

Slægur og falinn útblástur

Allar vörur sem við notum í okkar daglega lífi eiga sinn falda útblástur, sem kemur einfaldlega frá framleiðslu þeirra. Þar eru rafskútur ekki undanskildar. En ef þær eru knúnar áfram með vistvænu rafmagni og endast lengi, hlýtur útblásturinn sem sparast við notkun þeirra að vera meiri en útblásturinn sem fer í framleiðsluferlið, er það ekki?

Hér erum við komin að vandanum. Fólk virðist ekki fara vel með skúturnar, sem er reyndar raunin með flesta leigu hluti. Þessar leigu rafskútur endast því oftar en ekki of stutt til þess að vega á móti menguninni sem fór í að búa þær til. Þar að auki gera veðurskilyrðin á Íslandi þeim engan greiða. Rannsóknir sýna að leigurafskútur endast bara í hérumbil þrjá til tíu mánuði. 

Flestar rafskútur ganga fyrir lithium rafhlöðum sem margar hverjar innihalda nikkel og kóbalt. Kóbalt hefur fengið sinn skerf af neikvæðri athygli í kringum rafmagnsbíla og snjallsíma sökum þess að kóbalt er að mestu unnið úr námum í Kongó við hörmuleg vinnuskilyrði og oftar en ekki tengt barnaþrælkun. Námugröftur þessara efna leiðir til gjörnýtingar auðlinda, hnattrænar hlýnunar, eitrunar í vistkerfi og hefur síðast en ekki síst skaðleg áhrif á heilsu fólks og mannréttindi þeirra. Það er ekki mjög vistvænt ef það þarf að skipta út rafskútu, eða jafnvel bara batteríi, á tíu mánaða fresti í besta lagi. Það passar líka illa við markmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. 

Þetta hljómar allt frekar illa en hresstu þig við! Þegar þessi dýrmætu efni eru rétt endurunnin er hægt að endurnýta þau en það minnkar umhverfisáhrifin. Ef við kíkjum í spádómskúluna getum við mögulega séð að það dragi úr notkun á kóbalti og nikkel í tækjum framtíðarinnar. Það er ljós við enda ganganna!



Grænþvottur er ekki alltaf lausnin

Fyrst um sinn var flestum rafskútum ekið inn í borgir og þær sóttar aftur alla morgna og nætur til þess að hægt væri að hlaða þær. Þetta leiddi til frekari umhverfisáhrifa völdum útblásturs bílanna sem keyrðu með þær. Sem betur fer hefur þetta breyst til hins betra með nýjum batteríum sem hægt er að skipta út og hlaða og þannig fækka ferðum fyrirtækjanna. Batteríin endast í um 60-80 kílómetra á milli hleðslna. 

Fyrirtækið að baki Hopp hjólanna segir þau starfrækja rafskútur sem endast lengur og nái þau þannig að draga úr umhverfisáhrifum. Önnur fyrirtæki hafa farið aðra leið, þar á meðal Wind Mobility, sem starfrækja stóru gulu rafskúturnar, en fyrirtækið tilkynnti í desember 2020 að þau hafi náð kolefnishlutleysi með því að kaupa „kolefnisinneign“ og styðja verkefni víðs vegar um heim sem draga úr kolefnismengun. Það er betra að kaupa kolefnisinneign heldur en að gera ekkert, en það tekur samt ábyrgðina af fyrirtækjunum! Þau monta sig af þessu í markaðsherferðum sínum en á sama tíma er ekki verið að tækla raunverulegu vandamálin. Grænþvottur í sinni skýrustu mynd!

Framtíð grænna samgangna

Jæja, eru rafskútur þá eins grænar og við héldum? Greinilega ekki en hvað er það svo sem? Ef við viljum velja umhverfisvænasta kostinn þurfum við að ferðast milli staða á tveimur jafn fljótum. Rafskútufyrirtæki eru nú þegar farin að reyna að láta skúturnar endast lengur. Sum þeirra eru jafnvel byrjuð að þróa þeirra eigin tæki og batterí - ekki bara fyrir umhverfið, heldur einnig þeirra eigin sakir. Þetta er byrjun. Með frekari tækniframþróunum verða til tæki sem draga meira úr umhverfisáhrifum.
Þegar rafmagnið sem knýr skúturnar áfram verður einungis framleitt á umhverfisvænan máta, svo sem með vatnsorku eða jarðvarmaorku, og þær koma í stað bíla, þá er öruggt að segja að þær séu skref í rétta átt. Í átt að grænni samgöngumátum sem stuðla að lengri og heilbrigðari framtíð á plánetunni okkar, móður jörð.