Mikilvægi FS í baráttunni við loftslagsmálin

Grafík: Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Grafík: Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Í síbreytilegum heimi þar sem tæknilegar framfarir eiga sér stað æ örar má ekki gleyma að mannfólk og náttúra tengjast sterkum böndum, en segja má að aftenging hafi átt sér stað með flutningi fjölda fólks í borgir heimsins. Borgirnar sem slíkar hafa þróast gífurlega hratt með tæknibreytingunum og ýmsar stefnur í skipulagsfræðum sprottið fram. Núverandi ríkjandi stefna einkennist af sjálfbærni, enda hafa loftslagsmálin verið í brennidepli síðastliðin ár.


Loftslag/loftgæði og skipulagsmálin

Ýmis konar mengunarefni fyrirfinnast í andrúmsloftinu, en mismunandi er hvort þau hafi staðbundin eða hnattræn áhrif. Loftmengun er orð sem Íslendingar hafa heyrt æ oftar á síðustu árum, en áður fyrr þekktist það varla. Oft er rætt um gróðurhúsalofttegundir, eins og koltvíoxíð, metan, óson og svokölluð halókarbon (CFC), og hafa þau áhrif á loftslagið (hnattrænt). Svifryk, NOx og kolmónoxíð eru meðal efna sem hafa áhrif á loftgæði (staðbundið), en þar er útblástur bifreiða og afleidd virkni þeirra, svo sem að nagladekk spæni upp malbik, mesti mengunarvaldurinn.

Til að sporna við losun þessara efna þarf að ráðast á rót vandans, sem er m.a. bílaumferð í borgum. Þar skiptir sköpum að skipulagið geri ráð fyrir öðrum lausnum í samgöngumálum. Eins og áður sagði hefur leiðandi stefna í skipulagsmálum einblínt á sjálfbærni borga og einn þátturinn í því er tilkoma hugtaksins „20 mínútna hverfið“, en eitt af markmiðum núgildandi svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er að borgarbyggðin mótist af viðmiðum þess. 20 mínútna hverfið felst í því að íbúar geti gengið að hverfiskjarna á innan við 20 mínútum og að öll helsta nærþjónusta (t.d. skólar og matvöruverslanir) sé dreifð innan hverfisins. Virkir ferðamátar og bættar almenningssamgöngur leika einnig lykilhlutverk í að koma fólki á milli staða, sem er gott fyrir loftslag og loftgæði. 

Háskólasvæðið og framtíðarhorfur þess

Ef við yfirfærum hugmyndina af 20 mínútna hverfinu á háskólasvæðið, með hverfiskjarna á Háskólatorgi, þá teygir það sig í 1,6 kílómetra fjarlægð í allar áttir. Það næði því út að Granda, Skerjafirði og Norðurmýri sem dæmi. Háskólasvæðið sjálft er þó mun minna og einkennist af kennslubyggingum sitt hvorum megin við Suðurgötu og Stúdentagarða, en meginhluti þeirra eru sunnan Sturlugötu. Í áformi er að Borgarlínan fari í gegnum háskólasvæðið eftir þessum götum.

Nýlega bárust fréttir af áhuga HÍ á því að eignast Bændahöllina, betur þekkta sem Hótel Sögu, og eru formlegar viðræður hafnar. Hugmyndir eru uppi um að færa Menntavísindasvið í húsið og nýta það einnig undir skrifstofur og stúdentagarða. Þetta er í samræmi við stefnu háskólans, að starfsemi hans sé öll á einum stað. Í útvarpsþættinum Flakk var fjallað um háskólasvæðið en þar kom fram að rammaskipulag fyrir svæðið sé í vinnslu og meginhugmyndin sé sú sama; að mynda almennilegan „campus“ eins og þekkist annars staðar í heiminum. Þá sagði Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs, í sjónvarpsþættinum Baráttan: 100 ára saga Stúdentaráðs, að draumsýn stúdenta væri sjálfbærara háskólasamfélag, öflugri almenningssamgöngur í kringum háskólasvæðið og fleiri græn svæði.

Hvað hefur FS með þetta að gera?

Meginverkefni FS hefur verið að sjá fyrir stúdentaíbúðum og hafa þær verið byggðar að mestu leyti á háskólasvæðinu en einnig á Lindargötu, Brautarholti og Skógarvegi. Háskólalífið þrífst vel allan sólarhringinn ef stúdentar geta áhyggjulausir fengið húsnæði sem næst háskólanum, annars væri frekar líflaust í Vatnsmýrinni eftir klukkan fimm á daginn. 

FS veitir einnig þá mikilvægu nærþjónustu sem þörf er á ef stefnt er að sjálfbærni og 20 mínútna hverfinu. Háma og Stúdentakjallarinn bjóða hvort tveggja upp á mat og drykk, einnig stað fyrir stúdenta til að njóta sín einir og sér eða í góðra vina hópi. Þá gegna leikskólar FS veigamiklu hlutverki, en á meðal ástæðna fyrir því að íslenskir námsmenn nota almenningssamgöngur minna hér á landi en erlendis er vegna þess að þeir eiga börn og þurfa að koma þeim á leikskóla sem er ekki alltaf sá næsti við heimili þeirra. Því stuðla leikskólar FS að styttri ferðatíma stúdenta með því að hafa þá á Stúdentagörðunum og nálægt háskólabyggingunum.

En helsta umkvörtunarefni íbúa á Stúdentagörðunum er að það vantar almennilega matvöruverslun. Vissulega er Krambúð fyrir miðju Garðasvæðisins, en stúdentar vilja og þurfa lágvöruverðsverslun. Þær næstu séu staðsettar of langt frá, í jaðri 20 mínútna hverfisins, úti á Granda og harla erfitt að komast þangað öðruvísi en á bíl. FS rekur Bóksölu og Kaupfélag stúdenta, en Kaupfélagið selur ekki matvörur. Á Vísindagörðum er kjörið tækifæri til þess að koma til móts við fólkið sem býr þar næst. Að lokum má nefna bakaríið við Fálkagötu, sem verkfræðinemar sjá á eftir, en það stendur nú autt. Þar væri gaman að fá kaffihús eða jafnvel endurlífga „kaupmanninn á horninu“, sem eldri kynslóðir muna eftir, þó myndi hann samt aldrei koma í stað lágvöruverðsverslunar.