Hvað er að frétta af loftslagsmálum?
Höfundur er varaformaður Ungra umhverfissinna og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði
Ísland hefur lýst því yfir að það ætli að vera leiðtogi í loftslagsmálum og skipar sig í hóp þeirra ríkja sem vilja stuðla að því að meðalhækkun hitastigs jarðar fari ekki umfram 1,5°C frá iðnbyltingu. En hvað eru íslensk stjórnvöld að gera í loftslagsmálum, og endurspegla aðgerðir þeirra það leiðtogahlutverk sem við höfum tekið að okkur?
Parísarsáttmálinn
Landsmarkmið (e. Nationally Determined Contribution) Íslands til Parísarsáttmálans var nýlega uppfært en þau eiga m.a. að innihalda töluleg markmið um samdrátt losunar sem ríki stefna á að ná á tímabilinu 2021-2030. Ísland hefur verið hluti af sameiginlegu markmiði aðildarríkja ESB og Noregs um að ná 40% samdrætti losunar árið 2030, fyrir svæðið sem heild, miðað við upphafsárið 1990. Í lok síðasta árs var sameiginlega markmiðið uppfært í 55%, og staðfesti uppfært landsmarkmið Íslands vilja til áframhaldandi samstarfs í samræmi við aukinn metnað. Markmiðið er sameiginlegt, en hverju ríki er svo úthlutað mismunandi skuldbindingum og fylgir skiptingin m.a. þremur undirflokkum markmiðsins (ESR, ETS og LULUCF). Þrátt fyrir að 55% heildarsamdráttur sé ákvarðaður á eftir að ákvarða lokaútfærslu markmiðsins, m.a. í samræmi við flokka. Ef gert er ráð fyrir óbreyttri uppsetningu og reiknireglum mun Íslandi vera úthlutað 42% samdrætti losunar, sem er á beina ábyrgð Íslands (ESR) frá 2005-2030 (þ.e. losun vegasamgangna og skipa, orkuframleiðslu, landbúnaðar, úrgangs og F-gasa). Losun iðnaðarferla í stóriðju og flugi innan Evrópu fellur undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir (ETS) og hefur því ekki sérmarkmið fyrir hvert ríki. Hvað varðar losun landnotkunar og skógræktar (LULUCF) má Ísland ekki auka nettólosun flokksins miðað við ákveðin viðmiðunartímabil.
Auðvitað er ákjósanlegt að Ísland taki áfram þátt í samstarfi með Evrópuríkjum en hafa ber í huga að sameiginleg markmið, sem eru útkoma alþjóðlegra samningaviðræðna, miðast ávallt við lægsta samnefnara. Þó að landsmarkmið Íslands hafi staðfest áframhaldandi þátttöku í sameiginlega markmiðinu var ekkert sem stóð í vegi fyrir því að setja einnig fram sjálfstætt, og metnaðarfyllra, markmið um samdrátt losunar. Noregur (sem tekur þátt í sameiginlega markmiðinu) setti til að mynda einnig fram sjálfstætt markmið. Þar sem markmið Íslands endurspeglaði ekki sjálfstæðan vilja íslenskra stjórnvalda höfum við ekki enn séð á skýran hátt hversu mikinn metnað þau hafa fyrir samdrætti losunar fyrir 2030.
Hvar er losunarmarkmiðið fyrir 2030?
Áðurnefnt stefnuleysi endurspeglast einnig í skorti á lögfestum losunartengdum markmiðum. Eina núverandi langtímamarkmið stjórnvalda er kolefnishlutlaust Ísland 2040, en til stendur að lögfesta það. Þetta hefur margoft verið gagnrýnt, m.a. af Ungum umhverfissinnum, LÍS, SHÍ, fulltrúa ungs fólks í Loftslagsráði og fulltrúum Íslands á Loftslagsráðstefnu ungmenna, Mock COP26. Sem dæmi var ein krafa nýjustu herferðar Loftslagsverkfallsins, Aðgerðir strax!, lögfesting 50% samdráttar heildarlosunar ásamt landnotkunar(1) fyrir árið 2030, en núverandi aðgerðir munu í mesta lagi orsaka 18% samdrátt (eða 15%, sé miðað við upphafsárið 2005). Mikilvægt er að lögfesta markmið um samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda þar sem lögfesting markmiða tryggir stefnufestu í málaflokknum og að markmið raungerist þrátt fyrir stjórnarskipti.
Að lokum
Ljóst er að þrátt fyrir fögur fyrirheit eru íslensk stjórnvöld ekki að gera nóg þegar kemur að loftslagsmálum. Þetta á sér í lagi við losunartengd markmið fyrir árið 2030, en þar er vel hægt að setja markið mun hærra. Því lengur sem við bíðum, því dýrara og erfiðara verður að bregðast við loftslagsbreytingum. Metnaðarleysi stjórnvalda í dag veltir því meirihluta ábyrgðarinnar, sem og verstu afleiðingum loftslagsbreytinga, á komandi kynslóðir. Framtíð okkar (og þeirra lífvera sem deila með okkur jörðinni) er í húfi og því er nauðsynlegt að bregðast við strax. Auðvitað er mikilvægt að hvert og eitt leggi sitt af mörkum með breyttum lifnaðarháttum en hafa verður í huga að raunverulegur árangur næst ekki nema með aðkomu stjórnvalda. Mig langar því að hvetja þig, kæri lesandi, til að taka þátt í baráttunni, en þú getur:
Látið í þér heyra á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum, gegnum Samráðsgátt stjórnvalda eða á Loftslagsverkfallinu (í samræmi við sóttvarnir).
Tekið beinan þátt í hagsmunagæslu loftslagsmála, t.a.m. í gegnum pólitískar hreyfingar eða frjáls félagasamtök líkt og Ungir umhverfissinnar.
Baráttan við hamfarahlýnun er stærsta áskorun samtímans og við þurfum allar hendur upp á dekk. Vertu með!
(1) Heildarlosun ásamt landnotkun nær til losunar vegasamgangna og skipa, orkuframleiðslu, landbúnaðar, úrgangs og F-gasa ásamt losun stóriðju.