Hótel Jörð

„Þegar ég sá ömmu þína fyrst var hún fallegasta kona sem ég hafði séð,“ sagði afi við mig í eldhúsinu á Brekkubraut þegar hann rifjaði upp Síldarævintýrið á Sigló. „Þegar ég elti hana hingað á Akranes átti ég ekkert nema fötin sem ég stóð í og fyrstu vikuna var enga vinnu að fá,“ sagði hann um leið og hann setti í brýrnar og horfði á spilin í höndum sér. „En ég var nú aldeilis heppinn að fá vinnu í sementinu, enda launaði ég það vel. Á fjörutíu ára starfsferli missti ég einungis tíu daga úr vinnu og þó eignaðist ég þrjú börn á þeim tíma, vann aukavinnu við smíðastörf og byggði mér hús! – Ólsen,“ sagði hann með bros á vör. – Ég var enn þá með þrjú spil á hendi og átti ekki annarra kosta völ en að setja út spaðakónginn. – „Hjartakóngur – Ólsen, ólsen. Sá vinnur sem tapar – sá tapar sem vinnur,“ sagði afi og rétti mér hundrað kall í vinningslaun. Ég horfði brosandi yfir til hans og hlýnaði mér um hjartað. Þótt hár hans hefði hvítnað og bakið örlítið bognað, þótt ég væri þarna nýskriðin yfir tvítugt og fannst ég fullorðin, giltu sömu reglurnar. Unga kynslóðin átti alltaf vinninginn.  

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Tíu ár eru liðin frá samtali okkar afa og tæplega fimm ár frá því hann kvaddi þessa tilvist. Virðing og kátína einkenndi samskipti okkar og var hann iðulega tilbúinn að miðla visku sinni. Með fordæmi sínu kenndi hann mér ótrúlega margt um þakklæti og auðmýkt gagnvart umhverfi mínu og þá elju sem þarf til þess að ná markmiðum sínum. Þetta mátti sjá í öllum hans verkum. Vinna hans hjá Sementsverksmiðju ríkisins varð til þess að hann gat byggt þak yfir höfuð fjölskyldu sinnar og veitt henni gott líf. Verksmiðjan var vin í eyðimörk verkamannsins og sementið sem streymdi frá henni fór til uppbyggingar í landinu. Íslenska sementið leynist í mörgu húsinu þó að í dag sé búið að jafna við jörðu þennan fyrrum vinnustað margra bæjarbúa Akraness. Nú á dögum viljum við ekki hafa slíkan umhverfisskaðvald fyrir augum okkar – í miðju bæjarfélagi – fremur kjósum við að hafa þar fallegt íbúðarhverfi með grænu svæði. 

Á sama hátt og húsið hans afa varð heimili fjölskyldunnar er jörðin heimili okkar mannfólksins. Og líkt og í tilfelli sementsverksmiðjunnar höfum við lært að koma leyndarmálunum – verksmiðjum, sorpi og brotajárni – fyrir á háloftinu og í kjallaranum. Við hyljum áhrifin sem við höfum á náttúruna í herbergjum sem við vörumst að opna. Þar geymum við mengunina, hækkandi hita, rísandi sæ, ofsaveður og brennandi skóga. Hamfarirnar breytast í tráma mannkynsins sem gengur síendurtekið aftur og vex að stærð og krafti – líkt og afturgöngur hrollvekjunnar. Jörðin breytist úr heimili okkar í óhugnanlegt reimleikahús.  

Mannkynið er sögupersóna í þessu volduga húsi, við göngum á auðlindir þess og sinnum ekki viðhaldinu. Vaskarnir leka, burðarvirkið skelfur og óhreinindin safnast upp. Húsið grotnar undan hirðuleysinu og áganginum og grípur til allra ráða til að losa sig við íbúana. Fegurð náttúrunnar snýst gegn okkur. 

Fyrirbæri úr náttúrunni þóttu mér nærtækust til að túlka fegurð barna minna þegar kom að því að gefa þeim nöfn. Ísarr Myrkvi vísar í glitrandi jökulinn og sólmyrkvann sem ekki er hægt að líta berum augum. Eldey Rán vísar í lífskraftinn sem felst annars vegar í sköpun landsins undir fótum okkar og hins vegar hafsins sem tekur við. Þegar ég horfi í augu þeirra finn ég fyrir djúpri ást og á sama tíma sektarkennd. Heimurinn sem ég skil eftir fyrir þau og börnin þeirra er ekki sá sami og ég fæddist inn í – og alls ekki sá sami og langafi þeirra fæddist inn í. Á þeirra tíma mun áður ósigrandi ísinn hverfa og verða einn með voldugu hafinu sem fer ránshendi um heiminn um leið og það eykst í vexti. Eldeyjar munu sökkva og heimili tapast á meðan myrkrar halda sínum takti og fylgjast með hamförum mannanna.  

Afturgöngur náttúrunnar munu ásækja okkur mannfólkið á meðan við erum ekki tilbúin að horfast í augu við þær. Til þess að friða þær þurfum við að öðlast þakklæti og auðmýkt gagnvart híbýlum okkar. Ef við ætlum að vinna okkur í gegnum trámað þörfnumst við elju til að stoppa lekann, styrkja burðarvirkið og hreinsa upp óhreinindin. Nýtum reynslu fyrri kynslóða til að veita þeirri ungu vinninginn. Á meðan afneitunin ríkir hafa reimleikarnir yfirhöndina og sá tapar sem vinnur og sá tapar sem tapar.