Framtíðin: feig eða frábær?
Rétt eins og breska nýlenduveldið um miðja síðustu öld er loftslag heimsins á niðurleið. En ólíkt falli nýlenduveldisins þýðir niðurferð loftslagsins ekki að tugir þjóða fái frelsi undan drottnara sínum, heldur markar hún endi þess heims sem við þekkjum. Vísindamenn reyna að kynda undir vonarglætu sem orðið gæti að báli sem brennir þau vandamál er ógna komandi framtíð. Okkur er annars vegar sagt að ekki sé of seint að bregðast við – að við getum bjargað málunum. Ef við bara flokkum meira, kaupum rafbíl, drekkum bara kranavatn og hættum að nota plast þá verður allt í lagi og heimurinn verður kominn aftur í eðlilegt horf fyrir jól. Hins vegar staðhæfa sumir vísindamenn orðið sé of seint að snúa breytingunum við, að þær séu við það að skella á, þá getum við allt eins fest sætisbeltin og beðið í aftursætinu eftir að við getum flutt búsetu okkar á Mars og hafið sama ferli á nýjan leik.
Í eyrum glymja viðvaranir um feigð heimsins sem við þekkjum. Ef sá heimur er feigur og staðan vonlaus, er þá einhver tilgangur í aðgerðum? Ætti ég ekki bara að tilla mér á sófann og bíða eftir endinum? Erum við kannski komin langleiðina yfir Akkeron nú þegar eftir að hafa greitt ferjumanninum með framtíð komandi kynslóða? Þessar spurningar þræða hugann og skapa afvelta áttu sem aldrei hættir að plaga mig. Sama hversu oft ég varpa þessum spurningum fram sit ég ekki uppi með svör og von í brjósti, heldur einungis svartsýni og vonleysi.
Ef ástand heimsins væri líkt og brotinn vasi sem hægt væri að laga með bræddu gulli og stilla upp sem minnisvarða um mistök fortíðar þá væri hið rétta í stöðunni að gera allt sem við mögulega getum. Í fréttum er fjallað um ásetning Evrópusambandsins að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og í kaupauka berast fregnir af því að öll orka Íslands geti mögulega orðið „græn“ um svipað leyti og landið þar af leiðandi orðið óháð jarðefnaeldsneytum. Þrátt fyrir vonarneistann sem þessar fréttir kunna að kveikja þá virðist umfjöllun landans varðandi þessi málefni, sérstaklega á samfélagsmiðlum, ekkert boða nema böl og leggja áherslu á hverja einustu neikvæðu hlið frétta sem annars ættu að tendra vonarneista í hjarta okkar. Hvað á að gera við ónýtu rafhlöðurnar? Er ekki miklu betra að kaupa notaða bíla en rafbíla? Það er ekkert varið í þessa rafbíla, þeir eru algjört drasl! Af hverju ætti ég að hætta að keyra þegar flugvélarnar menga miklu meira? Sú ímynd er gefin að samfélagið sé samstillt um að skjóta niður hverja einustu tilraun til breytinga og tillögur sérfræðinga. Neikvætt viðhorf gagnvart breytingum jafnt sem neitun á áliti sérfræðinga og rannsókna getur auðveldlega smitað út frá sér, en það sést á öllum sviðum samfélagsins hvort sem varðar bólusetningar, grímunotkun, lögun jarðarinnar eða loftslagsmál. Hvort sem einstaklingar deili þessum viðhorfum eða ekki þá á dropinn það til að hola jafnvel hinn harðasta stein. Í dyrunum hvern einasta morgun stendur Bjössi á mjólkurbílnum með flöskur fullar af vonleysi og óvissu og ég, verandi linnulaus uppspretta valkvíða – þamba innihaldið til síðasta dropa.
Kannski er okkur ekki treystandi til þess að laga heiminn, enda gerum við mörg hver bara algjört lágmark þess sem farið er fram á, bara það litla sem þarf til þess að fylgja þeim kröfum sem á okkur eru settar. Það er líkt og við látum okkur þetta ekki varða nema yfir okkur sé haldið refsingum og sektum. Ef almenningur væri ekki skikkaður til þess að flokka rusl dreg ég stórlega í efa að það yrði gert í miklum mæli. Við gerum einfaldlega fátt í þessum málum án þess að okkur sé skipað að gera það. Jarðefnaeldsneytis notkun er stór hluti loftslagsmengunar en þó er ekki jafn mikil fækkun á bensín og dísilbílum á götum landsins og ákjósanlegt væri. Og ef bílarnir eru vandamál sökum eldsneytisnotkunar þá eru flugvélar jafn stórt, ef ekki stærra, vandamál, en samt viljum við fara sem oftast til útlanda til þess að geta setið í sólinni og drukkið kokteila eða bjór.
Mér þykir að sú lausn sem líklegust er til að skila árangri vera einmitt það eina sem hvetur almenning til dáða, að skikka fólk til. Hvort sem það felist í því að hækka sektir við því að skilja rusl eftir á víðavangi eða takmarka fjölda flugferða sem hver einstaklingur fær að fara í á hverju ári. Hvað sem þarf til að lágmarka þann skaða sem tilvera okkar hefur valdið er það sem gera þarf í stöðunni. Við sem einstaklingar erum alfarið ekki að fara að gera það sem þarf til þess að kalla fram raunverulegar breytingar fyrr en það er of seint. Við viljum öll að heimurinn lifi af og það liggur í augum uppi að við þörfnumst ekki leiðbeininga, við þörfnumst fyrirmæla.