Auðvald óprúttinna aðila

Það kemur fyrir að skipaflutningafyrirtæki lenda í því að henda skipum sínum í ruslið í Indlandshafi. Fyrirtækið selur fullnýtta skipið til þriðja aðila sem sérhæfir sig í því að áframhenda skipinu þannig að það kosti ekki mikið. Kaupandinn lofar að taka ábyrgð á framkvæmdinni og þar með er syndaaflausnin veitt. Þegar skipið er bútað niður í Indlandi hefur það verið selt í tvígang.  

Fjölmiðlar fá stundum veður af slíkri framkvæmd. Það er hið óheppilegasta mál. Margt bendir til þess til séu betri ruslakistur fyrir góðhestana sem hafa lokið þjónustu sinni við land og þjóð. Til dæmis samtök nokkur sem hafa þann eina tilgang að vekja athygli á þessu tiltekna málefni. Ef til vill væri betra ef síðasta ferð flutningaskipanna væri farin til þróaðri landa, þar sem einhver vottar fyrir ágæti starfseminnar. Fjölmiðlar kunna að benda á þá staðreynd að fólkið sem starfar í skipakirkjugarðinum vinni við miður góðar aðstæður. Og þá staðreynd að umhverfissjónarmiðin séu líklega ekki í hávegum höfð á ströndum Indlands. 

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

 ,,Það vorum ekki við sem seldum skipið til niðurrifs í þriðja heiminum, þar sem fátæklingar stikna úr hita og slasa sig við að búta skipið í sundur.“ Segja fígúrur fyrirtækisins. ,,Vissuð þið ekki hvert skipið myndi fara að sölu lokinni?“ Spyr fréttamaðurinn. ,,Jú en það var hann sem ginnti okkur til þess. Bendið á milligöngumanninn, hann keypti jú skipið. Við áttum ekkert í því þegar þeir rifu það í sundur. Hann freistar fátæka fólksins og borgar þeim peningana til þess að menga land og sjó.“ 

Gott og vel segja samtök fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð. Þau eru ekki stofnuð til þess að fylgjast með vafasömum aðgerðum fyrirtækja, heldur til þess að taka við peningum frá þeim gegn því að fyrirtækin lofi að haga sér vel. Nefndin skilur hversu grunnhyggin fyrirtæki eyjaskeggja geta verið. Það er hinn alþjóðlegi milligöngumaður sem er vondur. Við Íslendingar erum umhverfisvæn þjóð með umhverfisvænt atvinnulíf. Þetta var bara óvart. Skipaflutningafyrirtækið fær aðeins viðvörun og er áfram fyrirmyndarfyrirtæki í íslensku atvinnulífi.  

Það er beinlínis ómögulegt að Íslendingar standi í svona löguðu braski. Við erum umhverfisvænasta þjóð í heiminum. Raunar erum svo umhverfisvæn að hingað kemur erlend stóriðja til þess að framleiða ál með grænni orku. Við erum svo umhverfisvæn að erlend kolabrennslu- og kjarnorkuver kaupa af okkur upprunavottorð fyrir grænu orkunni. Þar með eru þau orðin umhverfisvæn kolabrennslu- og kjarnorkuver. Með því að millifæra peninga til íslenskra orkufyrirtækja verður vond orka góð orka, á pappír að minnsta kosti. Einhver kann að færa rök fyrir því að þetta sé tvískinnungur. Getur stóriðjan þá ekki montað sig af því að nota græna orku lengur? Jú auðvitað, það geta allir sem hingað koma séð að hérna eru hvorki kjarnorkuver né kolabrennsla. Það stenst því ekki skoðun að á Íslandi sé álið framleitt með rafmagni sem verður til úr kola- og kjarnorku. Það er vitleysa. Við erum umhverfisvæn. 

Markmið okkar er að græða sem mest á okkar grænu ímynd. Best er að bæði halda henni og sleppa. Við stöndumst ekki freistinguna frekar en skiparuslakallarnir í Indlandi. Það er ekki nema von að ætlast til þess að við fúlsum við peningum. Tilboðið er einfaldlega of gott til þess að taka því ekki. En til þess að dæmi gangi verður að tileinka sér ákveðið hugarfar. 

Þegar eitthvað fer úrskeiðis í umhverfismálum á Íslandi er það iðulega fólki í útlöndunum að kenna. Við erum lítil og krúttleg og eigum ekki roð í stórlaxana erlendis. Við kunnum ekki annað en að vera umhverfisvæn. Alþjóðlega peningavaldið notfærir sér það. Það vorum ekki við sem ginntum Indverjana heldur mennirnir í útlöndum. Íslenska atvinnulífið er alveg ótrúlega smátt í stóra samhenginu. Við erum bara peð í skák hins alþjóðlega auðvalds.