Toon - Fyndin hollensk þáttasería sem þú þarft að sjá
Þýðing: Bergrún Andradóttir
Hugsaðu um eitt þessara kvölda sem þig langar til að horfa á eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem þú veist ekkert um. Þú flettir gegnum titla á Netflix en úrvalið er ekki spennandi, það er alltof venjulegt. Svo sérðu andlitið hans, eins og bústinn, ósofinn Ed Sheeran. Titillinn Toon gefur í skyn að þetta séu feel-good þættir. Tvær seríur, 16 þættir sem eru aðeins 20-25 mínútur hver. Hentar fullkomlega til þess að fókusera á eitthvað annað en óbeitina á sjálfu þér í smá stund og beina athyglinni á eitthvað létt og afslappandi í staðinn.
Ég gleymdi því hversu skrítin hollensk nöfn geta verið og gerði ráð fyrir að Toon væri stytting á „cartoon“ (í. teiknimynd). Toon er semsagt aðalpersóna þáttanna, tónskáld sem semur stef fyrir auglýsingar. Hann er eins og rauðhærður hikikomori, einsetumaður sem hefur ekkert samband við umheiminn. En eftir að upptaka af honum að spila hallærislegt lag í partýi birtist á samfélagsmiðlum og fær þúsundir áhorfa breytist líf Toon. Hann verður frægur, sem og Nina sem syngur með honum í myndbandinu.
Ég vil ekki fara í smáatriðin en álagið sem fylgir verður óbærilegt fyrir Toon. Hann á erfitt með að tjá það sem hann vill og er þar af leiðandi dreginn inn í aðstæður sem hann vill ekki vera í og á staði sem hann vill ekki fara á, og þar að auki hefur hann engan áhuga á því að vera frægur. Hann vill ekki stíga út úr þægindarammanum. Í rauninni hefur hann ekki áhuga á að vera í þægindaramma yfirleitt, því líf hans snýst um að vera til án þess að tekið sé eftir honum. Ég er viss um að það tæki á taugarnar að hafa samskipti við hann í alvörunni, rétt eins og hinum persónunum í þáttunum virðist finnast.
Aðstæður í þáttunum eru ákaflega ýktar og fjarstæðukenndar, líkt og þegar Toon verður besti leikmaður í leik sem snýst um að stjórna fiskabúri. Sérvitur húmorinn er ólíkur því sem ég hef áður séð og ég sprakk oft úr hlátri yfir einföldu flæði hans. Þetta er eins og að horfa á The Office (UK), Parks and Recreation, fullan Ed Sheeran spila á tónleikum og flugu deyja hægum dauðdaga, allt á sama tíma. Ég meina, þetta er fyndið (fyrir utan fluguna) en þetta er líka ansi vandræðalegt. Toon er á Netflix, ef þú þorir að uppgötva svartan húmor Hollendinga.