„Tenging sem helst til framtíðar”

Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs HÍ tekur til meðferðar fjármál stúdenta og tengsl þeirra við atvinnulífið. Sindri Snær A van Kasteren, 23 ára gamall viðskiptafræðinemi með áherslu á reikningshald sinnir forsetaembætti nefndarinnar meðfram námi. Blaðamaður Stúdentablaðsins spurði Sindra spjörunum úr um nefndina, verkefni hennar og hvað sé á döfinni hjá þeim.

Mynd / Helga Lind Mar

Mynd / Helga Lind Mar

Atvinnudagar í febrúar

Markmið fjármála- og atvinnulífsnefndar er að skapa mikilvæga tengingu stúdenta við atvinnulífið. Um þessar mundir beinir nefndin sjónum að Atvinnudögum en eitt af helstu verkefnum nefndarinnar er að halda utan um og skipuleggja þá. Atvinnudagar verða haldnir rafrænt í febrúar og er því hægt að sækja viðburði í gegnum netið. Sindri segir að Atvinnudagar HÍ séu ekki með ósvipuðu sniði og Framadagar sem haldnir eru af AIESEC í Háskólanum í Reykjavík en nefndin er gjarnan í samstarfi við NSHÍ í kringum daganna. „Á Atvinnudögum er boðið upp á ýmsa fyrirlestra og kynningar sem nýtast ættu nemendum til að fræðast meira um atvinnutækifæri og hvað er gott að hafa í huga þegar sótt er um vinnu,“ bætir Sindri við. Um þessar mundir er nefndin einnig að undirbúa kannanir fyrir nemendur háskólans sem tengjast starfsþjálfun annars vegar og hins vegar þeim þáttum sem gott gæti verið að hafa á ferilskrá. 

Fyrri hluti starfsárs nefndarinnar var heldur rólegt vegna samkomutakmarkanna en tíminn var nýttur í að skipuleggja það sem þau ætluðu að gera seinna á árinu. „Það virðist vera sem að samkomutakmarkanir eru að léttast og þá vonandi er hægt að gera eitthvað skemmtilegt eins og að kíkja í heimsóknir í fyrirtæki eða eitthvað slíkt,“ segir Sindri. 

Samkeppni á vinnumarkaði

Aðspurður hvað hann telji vera það mikilvægasta sem fjármála- og atvinnulífsnefndin hefði upp á að bjóða telur Sindri að það sé mikilvægt að nýstúdentar hefðu greiða leið að atvinnumarkaðinum eftir útskrift. „Það mikilvægasta er að nefndin er að reyna að auka tengingu stúdenta við atvinnulífið. Það getur verið erfitt fyrir stúdenta að koma sér út á vinnumarkaðinn, þar sem oft skortir stúdenta starfsreynslu. Sumir hafa unnið lítið sem ekkert með skóla og því er mikilvægt fyrir stúdenta að fá þá fræðslu sem getur nýst þeim við að sækja um störf eftir að námi líkur eða jafnvel á meðan námi stendur,“ segir Sindri. Í kjölfarið spyr blaðamaður Sindra hvernig hann telur að atvinnumöguleikar nýstúdenta séu um þessar mundir og hvaða þætti hann telur hafa áhrif. Sindri segir að atvinnumöguleikar nýstúdenta séu verri núna en þeir hafi verið áður en hann telur að það sé ef til vill afleiðing kórónuveirufaraldursins. „Heimsfaraldurinn er að valda töluverðu atvinnuleysi á Íslandi og nýstúdentar eru að fá að finna fyrir því líkt og aðrir. Atvinnuleysi þýðir að það er meiri samkeppni á vinnumarkaði fyrir störf. Það getur ollið því að stúdentar, sem hafa oft minni starfsreynslu heldur en það fólk sem hefur verið lengur á vinnumarkaði, eru ólíklegri til að fá starfið sem sóst er um. Þetta þarf þó ekki alltaf að vera og geta nýstúdentar t.d. verið líklegri að fá starf sem krefst meiri sérþekkingar heldur en þeir aðilar sem hafa ekki lokið námi. Því er mikilvægt fyrir stúdenta að stækka tengslanetið sitt og sækjast í alla þá starfsreynslu sem hægt er að fá og þá sérstaklega á sumrin,“ bætir hann við.

Mikilvægt að minnka útgjöld

Að lokum var Sindri spurður hvort hann hafi einhver peningaráð fyrir ungt fólk og þá sérstaklega háskólanema. Hann segir að háskólanemar ættu að reyna að minnka útgjöld sín eins og hægt væri. „Á meðan náminu okkar stendur er alveg sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að huga að og reyna að minnka útgjöldin okkar. Við þurfum að passa að útgjöldin verði ekki meiri en þær tekjur sem við erum að fá. Það getur verið mjög gagnlegt að gera grófa tekjuáætlun fyrir hvern mánuð og aðra áætlun yfir útgjöldin okkar, bera þær saman og sjá hvar við stöndum. Þetta er alveg sérstaklega mikilvægt fyrir suma sem geta ekki unnið með námi og þurfa því að reiða sig á námslán,“ segir Sindri.