Opnir Stúdentagarðar
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á samfélagið líkt og flestir kannast við. Þá er starfsemi Félagsstofnunnar Stúdenta ekki undanskilin. Í ljósi faraldursins eru færri erlendir nemendur að koma til landsins til að stunda nám við HÍ en ætlast var til og því færri að sækjast í leiguhúsnæði á vegum Félagsstofnunarinnar. Einnig sækjast þeir nemendur nemendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins minna í flutninga til Reykjavíkur um þessar mundir þegar mikið af kennslu fer fram í gegnum netið. Af þeim sökum standa mörg herbergi sem opin eru fyrir útleigu auð.
Mýrargarður, sem tekinn var í notkun í janúar 2020, er stærsti stúdentagarður landsins og getur kjarninn hýst um það bil 300 einstaklinga. Eftir opnun Mýrargarðs hafa biðlistar fyrir húsnæði á vegum FS minnkað sem eru afar góðar fréttir. Hins vegar vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu eru færri sem sækjast eftir húsnæði á Stúdentagörðum en áætlað var. Vegna þessa hefur Félagsstofnun Stúdenta ákveðið að hagræða úthlutunarreglum sínum þannig að í fyrsta sinn geta einstaklingar sem stunda ekki nám við Háskóla Íslands leigt húsnæði á vegum Félagsstofnunnar.
Þau rými sem um er að ræða eru einstaklingsherbergi með sér sturtu- og klósettaðstöðu og sameiginlegu eldhús- og stofurými. Slík rými er að finna bæði í Oddagörðum á Sæmundargötu sem og áðurnefnda Mýrargarða.
Í samtali við blaðamann Stúdentablaðsins segir Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands að þau taki öllum sem kunna að nýta sér opnun stúdentagarðanna fagnandi. „Stúdentagarðarnir hafa ávallt verið hugsaðir fyrir stúdenta við Háskóla Íslands, eins og gefur að skilja. Hins vegar hefur hér skapast tækifæri til að bjóða öðru námsfólki húsnæði á góðum kjörum, og að sjálfsögðu tökum við vel á móti þeim einstaklingum. Námsfólk er því miður oftar en ekki vanmáttugur hópur á leigumarkaði því þau eru ekki með öruggar tekjur og geta m.a. þess vegna oft ekki búið lengi á sama stað. Félagsstofnun stúdenta var stofnuð af stúdentum fyrir stúdenta og hefur markmiðið því alltaf verið að bjóða góða þjónustu, þannig að það er frábært að geta boðið fleirum upp á það, sérstaklega í ljósi aðstæðna,“ segir Isabel.
Stúdentar við Háskóla Íslands munu enn hafa forgang að úthlutun herbergja en forgangsröðunin er eftirfarandi:
A. Núverandi íbúar sem uppfylla almenn skilyrði um úthlutun
B. Erlendir stúdentar sem njóta forgangs (Tiltekinn fjöldi styrkþega á vegum menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands eða Fulbrightstofnunar. Njóta forgangs við úthlutun tvíbýla og herbergja á Gamla Garði.)
C. Nemar í HÍ – lögheimili utan höfuðborgarsvæðis
D. Nemar í HÍ – lögheimili innan höfuðborgarsvæðis
E. Nemar í öðrum háskóla
EE. Nemar í framhalds- eða iðnskóla
E3. Ekki í námi
Þetta fyrirkomulag mun einnig vera í gildi fyrir komandi haust en allar upplýsingar um úthlutunarreglur, skilyrði og umsóknarferli fyrir íbúð á vegum Félagstofnunnar er að finna á heimasíðu þeirra.