Geimurinn stór hluti af okkar daglega lífi: Viðtal við Space Iceland

Alfa Björnsdóttir og Atli Þór Fanndal eru teymið sem standa að baki Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands: Space Iceland. Space Iceland er þjónustuskrifstofa fyrir geimvísindi og geimtækni á Íslandi. Geimrannsóknir snúast að miklu leyti um að skilja plánetuna sem við búum á. Geimurinn er orðinn stór hluti af okkar daglega lífi og við erum hætt að átta okkur á því. Atli og Alfa benda á stefnumótaforritið Tinder og Strætó appið sem dæmi um þekkingartilfærslu geimvísinda yfir á hluti sem eru notaðir dagsdaglega. Bæði forritin nota GPS staðsetningartækni en sú tækniþekking kemur úr geimvísindum. 


Mikil tækifæri búa í geimiðnaðinum

Alfa og Atli segja mikil tækifæri búa í geimiðnaðinum: „Okkar hlutverk er að vera rödd þessa geira, vinna í því að stjórnmálamenn séu sannfærðir um kosti þess að þróa störf á þessu sviði og sjái atvinnumöguleika og möguleika til þess að byggja upp auð og velferð.“ Ekkert ráðuneyti á Íslandi sér einungis um mál geimvísinda. Þar af leiðandi dreifist stjórnsýsla mála sem koma á borð Space Iceland á fjölda stofnana. Á Íslandi er mikil sérhæfð tækniþekking og er því mikill ávinningur fólginn í því að para saman rétta aðila sem unnið geta saman að verkum. „Við erum að klasa saman fyrirtæki, stofnanir og aðila til þess að reyna að hækka töluvert tæknigetuna og takast á við stærri verkefni saman og skapa þannig fleiri tækifæri,“ segja Alfa og Atli en Space Iceland er miðstöð geimvísinda sem hefur safnað saman þekkingu og upplýsingum um geimvísindi- og tækni.

Að sögn Ölfu og Atla geta gögn geimvísinda veitt mikilvægar upplýsingar um loftslagsbreytingar. „Þú færð ekki betri yfirsýn yfir þær breytingar en frá gervihnöttum.“ Geimvísindi auðvelda jarðarbúum að fylgjast með loftslagsbreytingum. Til þess að auka græna sporið og hvetja til breytts hugsunarhátts hvað varðar umgengni á jörðinni er nauðsynlegt að nýta þær upplýsingar sem berast frá innviðum geimvísinda. Starf Atla og Ölfu er mikið til hefðbundin skrifstofuvinna en hefur þó skrítna þætti. Þau hafa meðal annars fylgst með geimskoti frá Langanesi og séð um að útvega leyfi fyrir notkun á byssupúðri. 

Skýr stefnumótun mikilvæg

Varðandi framtíð geimvísinda vill Space Iceland sjá stjórnvöld leggja til skýra stefnu í geimmálum og fylgja henni eftir. Einnig myndu þau vilja ganga í Geimvísindastofnun Evrópu (ESA). Með því að ganga í ESA myndi Ísland fá aðgang að rannsóknum sem hafa verið gerðar á geimnum, tækjabúnaði og ýmiss konar þekkingu. Atvinnulíf hér á landi myndi einnig hagnast á inngöngu í ESA þar sem mikilvægar og gagnlegar upplýsingar búa í gervihnattagögnum. Ísland myndi einnig eiga kost á fjármagni frá ESA sem ætlað er atvinnusköpun. Ísland er ekki á sama báti og lönd sem hafa aðild að ESA, og því skapast ekki samskonar tækifæri fyrir íslenska geimiðnaðinn. 

Alfa og Atli segja mikla vinnu fram undan í vinnslu á skýrri stefnumótun til að vinna gegn þekkingar- og sögutapi. „Erlend fyrirtæki og stofnanir sem sótt hafa til Íslands með verkefni sín hafa í mörgum tilfellum tekið þekkinguna sem skapaðist við verkið með sér til baka.“ Space Iceland vill sjá þekkinguna verða eftir hér á landi en til þess að það gerist segja þau að stjórnvöld verði að hafa skýra stefnumótun. Það myndi líka ýta undir það að Ísland verði virkur þátttakandi í verkefnum, frekar en að verkefni sem hingað koma séu unnin á forsendum annarra. „Það vantar skýra sýn yfir hvað við teljum okkar þarfir vera í staðinn fyrir að taka bara á móti og þjónusta.“ 

Aðsend mynd af fjarfundi við Húsavíkurhöfn

Aðsend mynd af fjarfundi við Húsavíkurhöfn

Þrátt fyrir að engin ákveðin stefna sé til staðar hér á landi er áhugi á Íslandi sem geimskotsstað fyrir hendi frá erlendum aðilum vegna legu og landgæða Íslands. Það þyrfti að vera samfélagsleg ákvörðun um hvort að Ísland ætti að vera geimskotsstaður en það myndi skapa gríðarleg tækifæri og fjölbreyttari störf á stöðum þar sem atvinnulíf er einhæft.

Það eru ákveðin skilyrði til staðar á Íslandi sem laða erlenda aðila að landinu í leit að geimskotsstað. Ísland hefur mikla og góða þekkingu í gervigreind, jarðfræði, orku, verkfræði, fjarkönnun og fleira, sem erlendir aðilar hafa leitað til. Einnig vekur áhuga að sum svæði á Íslandi líta út eins og tunglið og Mars. „Landbúnaður á Íslandi er stundaður við erfið skilyrði og geimurinn er svo sannarlega landbúnaður við erfið skilyrði,“ segir Atli. Veðurstofa Íslands vinnur reglulega að því að greina erfið veðurskilyrði og nýtur veðurstofan því mikillar virðingar innan geimvísinda og gögn þeirra eru mikils metin. 

Margvísleg verkefni og samstarfsaðilar

Space Iceland hefur unnið með HÍ og öðrum háskólum við ýmis verkefni og hefur tekið það að sér að vera umsjónarmenn nemendaverkefna styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Það skiptir miklu máli að fólk geti séð fyrir sér að vinna við geirann og er mikil eftirspurn eftir fólki í þessum geira eins og stendur. Space Iceland hefur því með þátttöku sinni í verkefnum nemenda opnað dyr þeirra að geimiðnaðinum. Space Iceland stóð að baki þriggja verkefna sumarið 2020. Verkefnin voru margvísleg og vann eitt þeirra að kortlagningu á tækifærum og verðmætasköpun innan geimvísinda. Annað verkefni var unnið í samstarfi við Árnastofnun við gerð á íðorðasafni og myndun nýrra orða á íslensku fyrir íslensk geimvísindi og tækni. Þriðja verkefnið var hönnun fyrsta íslenska gervitunglsins. 

Í sumar mun Space Iceland, í samstarfi við Geimvísindastofnun Íslands (ISA), Geimvísindastofnun Evrópu (ESA), og Euro Moon Mars teymi á vegum International Lunar Exploration Group, prófa geimbýli sem ætluðum er að hýsa rannsóknarteymi í geimnum. Space Iceland hefur náð langt á seinustu tveim árum; frá lítilli vitneskju um geimiðnaðinn yfir í samvinnu með mörgum aðilum og upplýsingaöflun og söfnun um fortíð, nútíð og framtíð geimiðnaðarins á Íslandi og annars staðar. Haldnir eru mánaðarlegir fundir opnir öllum þar sem aðilar úr ýmsum áttum halda erindi um málefni sem tengjast geimiðnaðinum. Áhugasamir geta fylgst með Facebook-síðu þeirra: Space Iceland - Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands.