Dagdraumar við hafið

Þýðing: Anna María Björnsdóttir 

Árið 2020 hefur verið erfitt fyrir okkur öll – enginn vafi er á því. Eftir að hafa séð öll 2020 jörmin (e. meme) á samfélagsmiðlum er erfitt að trúa því að nokkur geti vogað sér að segjast hafa átt gott ár. En jæja, ég skal segja ykkur aðeins frá mínum hæðum og lægðum yfir síðastliðið ár og hvernig það orsakaðist að ég gerðist skiptinemi við Háskóla Íslands sumarið 2020. 

Snúið aftur til vindasömu eyjunnar í Atlantshafinu 

Mynd / aðsend

Mynd / aðsend

Eftir að hafa dvalið í átta mánuði í Reykjavík sem au-pair hjá íslenskri fjölskyldu árið 2019, varð mér ljóst að ég þurfti að koma aftur fyrr eða síðar. Ekki vegna vinnunnar eða endilega fjölskyldunnar, og ekki einu sinni af því að ég kynntist kærastanum mínum hér. Nei, bara fyrir mínar eigin sakir! Ég reyndi að minnsta kosti að sannfæra sjálfa mig um það. Af því að í fyrsta skipti leið mér eins og ég þyrfti ekki að huga að skoðunum annarra og væri loks að taka stjórn á eigin lífi. Svaka staðhæfing, ég veit. Kannski leið mér þannig vegna þess að í fyrsta sinn á ævinni, eftir útskrift, var ég alein einhvers staðar ,,langt í burtu“ – að minnsta kosti svo langt sem þú getur kallað eyju norður í Atlantshafi. Þess vegna þurfti ég að koma aftur fyrr fremur en síðar.

Spólum til baka til byrjunar ársins 2020. Ég var önnum kafin við að klára umsókn fyrir Erasmus-dvölina hér í HÍ, ákveðin í að fá eitt af lausu plássunum, áreitandi Erasmus fulltrúann í mínum eigin háskóla án afláts með því að senda honum vikulega tölvupósta og örugglega nánast ergja hann til dauða. Að endingu hafði hann rétt fyrir sér, ég fékk plássið. Eins og hann hafði þegar sagt, Ísland er vinsælt, en ekki það vinsælt í samanburði við önnur lönd. Ég býst við að flestum langi frekar að liggja á einhverri strönd við Miðjarðarhafið og sólbrenna – ég verð þó að segja, búir þú yfir þessari ákveðnu löngun geturðu algjörlega náð því markmiði hérna. Ég átti yndislega stund í Nauthólsvíkinni þar sem ég brann á öllu bakinu og hljóp um eins og soðinn humar á meðan hlegið var að mér fyrir að vanmeta íslensku sólina. 


Vírus inn í myndina 

Mynd / aðsend

Mynd / aðsend

Eftir að dvölin var staðfest, mætir þá ekki stærsti vendipunktur í nýlegri mannkynssögu: COVID-19. Allt í einu var allt breytt. Ég minnist þess að vera skelfingu lostin í mars. Dauðhrædd vegna þess að allir voru að missa vitið í ljósi heimsfaraldurs og dauðhrædd yfir því að geta ekki farið í skiptinámið til Íslands. Ég þorði ekki að deila þessari hugsun með neinum. Úti um allan heim var fólk að deyja og á meðan var ég skíthrædd um að geta ekki búið erlendis. Hversu mikið fyrsta heims vandamál. 

En að öllu gríni slepptu varð ég ótrúlega fegin að fá loks staðfestingu á því að HÍ myndi taka við skiptinemum þrátt fyrir ástandið. Samt var ég enn kvíðin og beið eftir að einhvað fleira færi úrskeiðis. Geimverur eða eitthvað – þú veist aldrei með árið 2020. Í lok ágúst, þegar ég var loksins komin og gekkst undir 5 daga sóttkvína, var ég himinlifandi. Yfir sumarið hafði lífið heima í Þýskalandi verið fremur venjulegt en hér var það eins og að stíga inn í tímavél og ferðast aftur til tíma fyrir COVID. Samt, vegna þess að ég hafði nú þegar búið á Íslandi um tíma, á „venjulegum“ tímum, fannst mér munurinn fremur augljós – sérstaklega í byrjun haustsins, þegar fjöldi smita jókst og námskeiðin voru eingöngu haldin á netinu. 


Ég fegra það ekki, að eignast vini reyndist andskoti erfitt. Mér hefur ekki alltaf þótt auðvelt að kynnast mörgum nýjum í einu, og að búa ein erlendis gerði mér enga greiða. Það komu stundir þar sem ég féll í ákveðið þunglyndi og bar líf mitt saman við fyrri dvölina, árið 2019. Auk þess gerði væntanlegur vetur mér enn erfiðara fyrir. Ég viðurkenndi það ekki þá en þegar ég lít til baka sé ég að skammdegið hafði áhrif á mig. Og andrúmsloftið í Reykjavík, sem hafði nú þegar verið drungalegt vegna COVID, var einungis að dekkjast. Það var virkilega erfitt að halda í jákvæðnina – sérstaklega því það var svo allt öðruvísi að vera hérna á tímum heimsfaraldurs en ég bjóst við. En það var þá sem ég lærði dýrmætustu lexíu ársins. 

Þegar lífið gefur þér sítrónur, fáðu þér ís

Mynd / aðsend

Mynd / aðsend

Ekki bera þig saman við neitt. Ekki við það hvernig annað fólk lifir og ekki við þitt eigið líf frá öðrum tímapunkti. Ég reyndi að sjá kostina við stöðuna, byrjaði að taka mér tíma til að gera hluti fyrir sjálfa mig og njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Mér finnst frábært að fara niður að sjó, leita að skeljum og steinum, taka djúpa andardrætti fulla af salti og köldu lofti og dagdreyma meðan ég horfi á sólarlagið. Þetta hljómar klisjukennt en ég lofa að sálin þín andar bókstaflega léttar þegar þú gerir þetta. Að vera hér á þessari köldu og vindasömu en virkilega fallegu eyju hefur kennt mér að taka skref aftur, hægja á mér og taka hlutunum ekki of alvarlega, kannski vegna þess að ég tók eftir því að Íslendingar taka sjálfum sér almennt ekki of alvarlega. Ein af mínum uppáhalds tilvitnunum eftir Reinhold Niebuhr á vel við þessar aðstæður: 

[...] gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

Og vit til að greina þar á milli.

Það er gott að muna hverju ég get breytt og hvað ég verð bara að sætta mig við, og gera það besta úr því – það gerir gæfumuninn. Á Íslandi lítur COVID ástandið mun betur út í augnablikinu. Það er komið nýtt ár, enn er von í lofti, og ég meina, ástandið getur einungis batnað – ekki satt? Það getur það, ég er viss um það. Sérstaklega þegar þú getur aftur farið í heita pottinn í hverfissundlauginni og látið þig dreyma um væntanlegt sumar tímunum saman, svo fengið þér ís og sagt með þínum nýja íslenska hugsanahætti: ,,Þetta reddast.“