Ada: Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni

Á dögunum talaði Stúdentablaðið við stjórn Ada, hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ. Ada var stofnað fyrir þremur árum og ég fékk stjórn félagsins þetta árið til að sitja fyrir svörum. Stjórnina skipa þær Sunneva Þorsteinsdóttir, forseti félagsins, Júlía Sif Ólafsdóttir varaforseti, Guðrún Karítas Blomsterberg ritari og Embla Laufey Gunnarsdóttir gjaldkeri. Allar stunda þær nám í greinum sem flokkast undir upplýsingatækni: tölvunarfræði, iðnaðarverkfræði og stærðfræði, en svið upplýsingatækninnar er breitt, og eiga það sameiginlegt að nota tækni til þess að vinna úr upplýsingum. Skort hefur sýnileika kvenna innan sviðsins en félagið var stofnað til stuðnings við konur innan þess til að bæta úr því. Félagið skapar öruggt umhverfi fyrir konur í upplýsingatækni og þar hafa þær vettvang til þess að mynda tengsl innbyrðis, deila reynslu og styðja við bakið á hvorri annarri.

Mynd / Torfi Þór Tryggvason

Mynd / Torfi Þór Tryggvason

Ójöfn kynjahlutföll og skortur á fyrirmyndum

Konur eiga erfiðara uppdráttar innan upplýsingatækninnar. Stjórn Ada segja vanta fleiri konur inn á sviðið og sömuleiðis vanti kvenkyns fyrirmyndir. Því þurfi að beina meiri sjónum að þeim konum sem eru nú þegar til staðar. Fáar konur stunda nám við upplýsingatækni í samanburði við kynjahlutfall nemenda við Háskóla Íslands, en konur eru almennt fleiri innan háskólans. Embla Laufey og Sunneva segjast ekki hafa áttað sig á því fyrr en seint að það væri möguleiki á því að læra stærðfræði og tölvunarfræði, þar sem fyrirmyndir kvenna innan greinanna sárvantaði. Þær eru allar sammála um að það sé nauðsynlegt að hafa félag sem þetta til þess að konur geti leitað stuðnings og mætt skilningi. Þær deila ef til vill svipuðum reynsluheimi og vita hvernig það er að stunda nám þar sem þær eru í algjörum minnihluta. Guðrún Karítas segir að henni finnist mikilvægt að það sé til einhvers konar samfélag sem konur og stelpur geti leitað til, þar sem bróðurparturinn sem stundar nám við upplýsingatækni eru karlkyns. Hún segir fullt af kennurum meðvitaða um að það halli á konur og að enginn sé að reyna að mismuna þeim en segir jafnframt að það geti myndast ákveðið andrúmsloft. Guðrún segir skrítið að hafa farið úr bekk í menntaskóla þar sem hafi verið tiltölulega jafnt kynjahlutfall, yfir í iðnaðarverkfræði í háskóla þar sem hlutfallið er mun ójafnara.

Pláss fyrir öll

Ada hefur staðið fyrir fyrirtækjaheimsóknum þar sem konur innan fyrirtækja kynna starf sitt og gefa félagskonum innsýn inn í það sem koma skal. Þar sem fátt er um kvenkyns kennara og skortur er á fyrirmyndum yfir höfuð, þá verða þær konur sem þær heimsækja í fyrirtækjum fyrirmyndir. Þær segja stöðu kvenna þó vera að batna samhliða auknu kynjajafnrétti, en að þær vilji auka enn meira á sýnileika kvenna og gera stelpum og konum ljóst að það sé hægt að feta þessa braut. Félagið hefur staðið fyrir fyrirlestrum handa börnum til að ýta undir áhuga á upplýsingatækni og fræða, með sérstakri áherslu á stelpur. Í ljósi aðstæðna hefur ekki verið mikið um viðburði hjá félaginu en þær stefna á fleiri fyrirtækjaheimsóknir og vilja einnig bjóða upp á rafrænar fyrirtækjaheimsóknir. Þær ætla að byggja félagið enn meira upp á komandi starfsári og vonast til þess að fleiri konur sjái sér fært að velja nám í upplýsingatækni. Það er áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér þar sem sífellt fleiri skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar og þurfa ekki síður á hvatningu að halda. Þó svo að Ada hafi aðallega einbeitt sér að stöðu kvenna, þá er það einnig opið fyrir kynsegin einstaklinga.