Að verða Innlendingur
Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir
Undanfarin ár hafa nemendur af erlendum uppruna farið fram úr fjölda skiptinema sem stunda nám við Háskóla Íslands. Stúdentar alls staðar að úr heiminum hafa rifið sig upp frá heimalandi sínu í leit að nýjum stað til að þroskast á og til að stunda nám með íslenskum stúdentum. Það er mikil áskorun fyrir nemendur sem hafa ekki íslensku að móðurmáli að stunda nám sem kennt er á íslensku en vert er að geta þess að stór hluti íslenskra nemenda eiga einnig í erfiðleikum með tungumál íslenskra fræða.
Það sem ég er að ýja að er viðurkenning á notkun tvímála orðabóka, nokkuð sem er mér hjartans mál.
Lykilinn að nýju tungumálaumhverfi
Ég var alin upp á heimili þar sem bæði var töluð þýska og íslenska, meðan samfélagið sem ég bjó í talaði sænsku. Það tók mig nokkur ár að aðgreina móðurmál mín; eintyngdir fjölskyldumeðlimir mínir voru fegnir þegar ég loks náði því. Áður en ég byrjaði í grunnnámi mínu á Íslandi, hafði ég heyrt og talað málið en ég hafði aldrei þurft að lesa það né skrifa. Við tók undarleg upplifun þess að endurlæra mitt eigið móðumál í umhverfi sem hafði litla trú og efasemdir á árangri mínum.
Tungumálið er aðeins leið til að tjá ákveðið inntak, ekki inntakið sjálft. Þetta er eitthvað sem fjöltyngd börn læra mjög ung – það eru mörg orð og margar leiðir til að lýsa sömu merkingu, munurinn á setningafræði og merkingarfræði. Tvímála orðabækur sýna einfaldar þýðingar orða frá einu tungumáli til annars. Fyrir barn sem er alið upp í umhverfi þar sem stöðugt er verið að skipta á milli mismunandi tákna, þá er tvímála orðabók lykilinn til að venjast nýju tungumálaumhverfi.
Viltu ekki bara skrifa á ensku í staðinn?
Alþjóðlegir nemar, eða þeir sem eru með svipaðan bakgrunn og ég, fá oft að heyra það að námið sé fyrir Íslendinga og því sé það kennt á íslensku og að þeir eigi að aðlagast því. Þegar þeir gera sitt besta við að skila verkefnum á íslensku, þá er fyrirhöfn þeirra samt sem áður oft vísað frá með athugasemdum eins og: „Viltu ekki bara skrifa þetta á ensku í staðinn?“ Þvílík mótmæli sem myndu brjótast út ef kennari myndi gera slíka athugasemd við ritgerð lesblinds nemanda: „Af hverju notar þú ekki upptökutæki í staðinn?“, en slík lítillækkun á tilraunum nýrra Íslendinga, til að verða innlendingar er ekki talin fréttnæm.
Það er skiljanlegt að það geti reynst erfitt að vera með tungumálanema í námskeiðum sem eru ekki sniðin að tungumálakennslu, en staðreyndin er sú að slíkt er raunveruleikinn í þvi alþjóðlega umhverfi sem við búum í. Háskóli Íslands hreykir sér af því að vera alþjóðlegur háskóli í forystu, sem aðstoðar aðra háskóla í Evrópu við að verða leiðandi rannsóknarháskólar. Það er því bagalegt að svipaða samstöðu sé ekki að finna í okkar eigin kennslustofum, og að alþjóðlegum nemendum sé stundum þröngvað til að hætta. Sérstaklega á þetta við um raunvísindi, þar sem flestir rannsakendur á efri stigum nota almenna bjagaða ensku til að auðvelda samskipti milli rannsóknastofa um allan heim. Nemendur sem skipta frá einu tungumáli í annað eiga því að fá hvatningu eða stuðning frá starfsfólki deildanna, en ekki vanþóknunarsvip.
Íslenskur almenningur samanstendur ekki lengur af hreinræktuðum sjómönnum og nútíma Íslendingurinn á ekki endilega rætur sínar að rekja til Ingólfs Arnarsonar – því ættu nemendur Háskólans að þurfa að vera það? Nemendur í hvaða kennslustofu sem er ættu að endurspegla samfélagið sem þeir búa í. Að sjálfsögðu, deila þeir ekki allir sömu áhugamálum en nám á að vera jafn aðgengilegt fyrir alla, burtséð frá bakgrunni þeirra.