Reykjavík Feminist Film Festival 2021: Streymishátíð
Um miðjan janúar var haldin hátíðleg Reykjavík Film Festival, kvikmyndahátíð sem hugsuð er til að gera kvikmyndaverkum um og eftir konur hátt undir höfði. Að þessu sinni fór hátíðin fram eingöngu í gegnum streymi á netinu, gestir hátíðarinnar skráðu sig einfaldlega inn á vefslóðinni rvkfemfilmfest.is/ sem varð streymisveita hátíðarinnar. Við vorum að sjálfsögðu leiðar yfir því að fá ekki að mæta í bíósalinn eftir langt hlé en viljum hrósa því hvernig tókst til. Hér eru hápunktar hátíðarinnar að okkar mati.
Frú Elísabet (2020) Ísland
Heimildamynd - 20 mínútur
Leikstjórn: Anna Sæunn Ólafsdóttir, Elvar Örn Egilsson, Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir
Karitas:
Þessi leikna heimildamynd var notaleg og mjög fræðandi. Eflaust hafa margar eldklárar íslenskar konur glatast í sögubókunum, einfaldlega vegna þess að þær voru ekki uppi á tímum sem mátu konur að sínum verðleikum. Sem betur fer er frú Elísabet Jónsdóttir ekki ein af þeim. Þríeykinu sem kom að þessari stuttheimildamynd um ævi hennar og störf tókst sannarlega vel til að vekja athygli á þessari mögnuðu tónlistarkonu og kvenskörungi á hátt sem höfðaði vel til undirritaðrar.
Ég (2020) Ísland
Saga - 15 mínútur
Leikstjórn: Vala Ómarsdóttir, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir
Karitas:
Hugljúf stuttmynd um innri og ytri baráttu transkonu. Mér fannst takast mjög vel til að sýna fáránleikann sem felst í því að einhver annar en einstaklingurinn sjálfur þurfi að samþykkja kynvitund og kyngervi hans til að það teljist gilt. Myndinni tókst í örfáum orðum að kýla mig fast í magann, á sama tíma og hún vafði mér inn í bómullarteppi og söng fyrir mig vögguvísur með fallegum endi.
Konur á rauðum sokkum (2009) Ísland
Heimildamynd - 60 mínútur
Leikstjórn: Halla Kristín Einarsdóttir
Karitas:
Halla Kristín Einarsdóttir var heiðursleikstjóri hátíðarinnar og því ekki annað hægt en að horfa á allavega tvær af heimildamyndum hennar. Konur á rauðum sokkum er dásamlega fræðandi heimildamynd um þær íslensku konur sem ruddu veginn fyrir framtíðina. Það er mikilvægt að muna hverjum þakka má réttindi sín og áhrifaríkt að sjá þær tala um hvernig allt kom til. Rauðsokkahreyfingin var enn kynngimagnaðari en ég hélt.
Hvað er svona merkilegt við það (2015) Ísland
Heimildamynd - 90 mínútur
Leikstjórn: Halla Kristín Einarsdóttir
Karitas:
Það er sjálfsagt hægt að tala um Hvað er svona merkilegt við það sem framhaldsheimildamynd Kvenna á rauðum sokkum og áhrifin voru svo sannarlega þau sömu. Réttindabarátta íslenskra kvenna stendur enn yfir en það er hverjum aktívista hollt að vita hverjar rætur hreyfingar hans eru. HESMVÞ fjallar um straumhvörfin sem urðu í baráttu kvenna á 9. og 10. áratugnum með stofnun Kvennalistans og því sem fylgdi í kjölfar Rauðsokkahreyfingarinnar.
Fascinatrix (2018) Pólland
Söngleikur - 18 min
Leikstjórn: Justyna Mytnik
Francesca:
Nornir, Rannsóknarrétturinn og viðsnúningur kynjahlutverkanna fléttast fullkomlega saman í þessari stuttmynd sem er líka söngleikur! Það skiptir engu máli hvað þetta hljómar skringilegar, þetta virkar. Sagan fjallar um flóttakonu, grunaða um galdra, sem snýr aftur í heimaþorp sitt dulbúin sem karlkyns nornaveiðari. Myndin er ansi grafísk og dansar á mörkum þess að vera gore. Enda var Rannsóknarrétturinn ekki þekktur fyrir það að ganga mjúklega fram á þessum tímum. Mér fundust lögin í myndinni mjög falleg og hljómþýð og virkuðu vel á móti alvarlegu umfjöllunarefni og yfirbragði myndarinnar
.
Lift Like a Girl (2020) Egyptaland/Danmörk/Þýskaland
Heimildamynd - 93 min
Leikstjórn: Mayye Zayed
Francesca:
Stuttmyndin fjallar um egypska unglingsstúlku sem er líka kraftlyftingakona. Æfingarsvæðið hennar er fábrotið, skrælnaður jarðarflötur í einu fátækasta hverfi Alexandriu, en þjálfarinn hennar, Kafteinn Ramadan, ætlar sér að byggja alvöru æfingahúsnæði, enda handviss um að stúlkurnar sem hann þjálfar muni verða heimsmeistarar. Þetta er smá eins og egypsk Múlan, stúlkan er stöðugt minnt á að til þess að ganga vel til að sigra og verða meistari þurfi hún að vera maður. Myndin er innsýn inn í líf og hugsanir unglings-afrekakonu, en líka ádeila á stéttaskiptingu og kynjahlutverk innan íþróttaheimsins.
Her (2020) Ísland
Sjónræn dagbók - 11:25 min
Leikstjórn: Julia Hrefna Rokk
Francesca:
Þremur konum var gert að svara spurningunni „Hvað er femínismi fyrir þér?“. Konurnar voru sammála um sumt en ósammála um annað, enda ekki við öðru að búast þegar þrír sjálfstæðir einstaklingar sitja fyrir svörum. Með viðtölunum fylgdi listrænt myndefni sem minnti á nútímalist/dansverk. Umfjöllunarefni svaranna voru, meðal annarra, mikilvægi femínískra karla, móðurhlutverkið, aktívismi og ritskoðun efnis af kynferðislegum toga á samfélagsmiðlum. Táknrænt gildi myndanna er sláandi. Í gegnum myndina alla má skynja fagurfræðina sem býr í nekt og fjötrum, sem hægt er að skilja sem deilu á hlutgervingu kvenna í samfélaginu.
Viðburður í Franska sendiráðinu: 13 stuttmyndir eftir Alice Guy + Q&A
RVK FFF bauð upp á það einstaka tækifæri að mæta á viðburð. Það var einstök ánægja að fá að mæta eitthvert og taka þátt, næstum geðhreinsandi. Að sjálfsögðu var farið eftir öllum sóttvarnarreglum til að tryggja að þátttakendur gætu notið nokkurra klukkustunda af gamalli góðri samveru. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Franska sendiráðið og fór fram í húsakynnum þeirra. Viðburðargestir fengu að njóta þrettán stuttmynda Alice Guy og í framhaldi var Spurt og svarað með Véronique Le Bris, sem er sérfræðingur í verkum Guy. Ef einhverjir þekkja ekki til hennar var Alice Guy sumsé franskur leikstjóri og framleiðandi sem var þekkt fyrir það að vera fyrsti leikstjóri heims sem fékkst ekki við sannsögulega atburði. Og hún var kona. Og hún var algjörlega þurrkuð úr kvikmyndasögunni þangað til mjög nýlega, þrátt fyrir að hafa leikstýrt og framleitt myndir í hundraðatali. Þær þrettán myndir sem við horfðum á voru einstaklega skemmtilegar, eins og La course à la saucisse (1907), en snertu líka á hlutum eins og femínískum málefnum, t.d. Les résultats du féminisme (án ártals).
Lokaorð
Reykjavík Feminist Film festival var einstaklega fræðandi, spennandi og skemmtileg að okkar mati. Það var áhugavert að sjá femínismann í mörgum mismunandi myndum, sem fór allt eftir því hver leikstýrði, hvernig myndin var tekin upp og hvers konar mynd um ræddi. Úrvalið var fjölbreytt, teiknimyndir, heimildamyndir, stuttmyndir, myndir í fullri lengd, og alltaf var hægt að sjá hlutina í nýju samhengi eftir á. Sérstaklega þótti okkur gaman hve gott aðgengi var að hátíðinni fyrir stúdenta (enginn aðgangseyrir og hátíðin fór fram á netinu) sem gátu kúrt sig undir teppi og hvílt bækurnar meðan þeir auðguðu sjónarhorn sitt á lífið. Við getum ekki beðið eftir því að kíkja aftur að ári liðnu, og læra enn meira.