Hacking Hekla: Eldgangur í sköpun á landsbyggðinni
Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir
Sköpun og getan til þess að þrífast þrátt fyrir innri og ytri áskoranir eru eiginleikar sem einkenna meirihluta íbúa á Íslandi. Magdalena Falter og Svava Björk Ólafsdóttir frá Hacking Hekla hafa verið að hakka sig í gegnum Íslensku landsbyggðina í leit að nýjungum og sjálfbærni, og það í óaðfinnanlegum lopapeysum. Ég var spenntur að fá tækifæri til þess að taka viðtal við þessar skapandi, hvetjandi og glaðlyndu konur á Háskólatorgi. Við spjölluðum og áttum notalega stund saman.
Fyrsta lausnamótið (e. hackaton) var á Suðurlandi og þar var áhersla á nýbreytni og þróun í átt að sjálfbærri framtíð með því að búa til skapandi matartengdar lausnir. Verkefnið sem bar sigur úr býtum var Ómangó, sem snýst um framleiðslu á mangó með frumuræktun. Hugmyndin kom frá rannsóknum á óhóflegu magni af koltvísýring sem verður til vegna innflutnings til Íslands. Hægt er að lesa sér til um það í gegnum „Hacking Hekla hugmyndaþorp.“
„Verkefnið snýst ekki bara um að búa til hugmyndir heldur koma af stað umræðu. Mér finnst gott að lýsa þessu eins og ísjaka. Útkoman, verkefnin og þáttakendurnir standa upp úr vatninu en sá hluti ísjakans sem er enn í kafi er hið breiða net sem við byggjum,“ segir Magdalena.
Byrjum á að koma útskýringu á nafninu „Hacking Hekla“ úr vegi. „Hacking“ er notað hér í þeim skilningi orðsins sem vettvangur þar sem fólk getur komið saman með það að leiðarljósi að finna sjálfbærar lausnir á dreifbýlum stöðum. Hacking Hekla heldur utan um slíka viðburði, kallaða lausnamót, sem leiða af sér raunverulegar lífs-lausnir (e. Life-hack) sem nýta má í baráttunni við umhverfis áskoranir nútímans en efla líka efnahag þeirra bæja sem njóta samvista með verkefnunum.
Sameiginlegur draumur Magdalenu og Svövu er að búa og starfa á friðsælum stað á landsbyggðinni en það knúði þær af stað í þetta verkefni. Ég deili þessum draum og hafði því mikinn áhuga á að heyra meira um þær og bakgrunn þeirra.
M: „Ég er doktorsnemi við Háskóla Íslands með áherslu á frumkvöðlastarf og stafræna nýsköpun á landsbyggðinni, þar sem ég hef búið og unnið en mig langaði alltaf að tengja doktorsnámið við landsbyggðina. Svo fékk ég þessa hugmynd um að það þyrfti meiri nýsköpun þar. Þú þarft ekki að fara til Reykjavíkur til þess að vinna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Þegar ég byrjaði að hafa samband við frumkvöðla hitti ég Svövu og fannst við eiga vel saman. Síðan þá höfum við unnið að þessu verkefni í sameiningu.“
S: „Ég kem úr sterku öryggisneti frumkvöðla á Íslandi. Síðustu 6-7 árin hef ég unnið á ýmsum vígvöllum, stjórnað verkefnum, lausnamótum, hröðlum og keppnum sem snúa að viðskiptaáætlunum. Ég vann hjá Icelandic Startups í rúm 5 ár en hætti árið 2019 til þess að opna mína eigin ráðgjafarstofu, Rata, sem þýðir víst rotta á spænsku, eins og ég komst seinna að,“ dæsir hún. „En hér á Íslandi merkir það finna sína eigin leið. Við aðstoðum frumkvöðla og teymi innan stærri fyrirtækja og hjálpum þeim að vinna betur saman að sameiginlegri ástríðu. Það er það sem við gerum og það hentar persónulegum markmiðum mínum fullkomlega.“
Þið hélduð ykkar fyrsta viðburð, Hacking Hekla 2020, í október á síðasta ári. Geturðu sagt mér meira um viðburð þessa árs?
S: „Eftir vel heppnaðan fyrsta viðburð á síðasta ári kom einn af fræðurum okkar að máli við okkur og nú stefnum við á Norðurland til þess að vinna með henni. Við erum að setja saman viðburðinn Hacking Norðurland þar sem við erum í samstarfi við EIMUR, Nordic Food in Tourism, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Nýsköpun í norðri (NÍN), sem eru allt mikilvægir hlekkir í þróun á Norðurlandi.
„Viðburðurinn stendur í fjóra daga með upphitun á miðvikudeginum þar sem þátttakendur hittast netleiðis. Lausnamótið hefst á fimmtudeginum með opnunarhátíð og vefstofu. Við munum kynna þær áskoranir sem við viljum leggja áherslu á og fræða þáttakendur um þau tækifæri sem felast í auðlindum svæðisins - með áherslu á mat, vatn og orku. Unnið verður með sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins og framsæknar hugmyndir sóttar þangað. Lausnamótið sjálft hefst á föstudegi og því lýkur á sunnudegi.“
Hvernig samstarfi leitið þið að?
M: „Við leitum að kröftugum samstarfsverkefnum sem tengjast þróun þess svæðis sem við munum vinna á. Í byggðaáætlun Íslands kemur fram að bæta þurfi nýsköpun á landsbyggðinni. Þess vegna taka þau vel á móti okkur og eru fremur opin fyrir samstarfi.“
S: „EIMUR er til að mynda með áherslu á jarðvarmaorku og frumkvöðlastarfsemi á svæðinu.“
M: „Já, ástríða er klárlega það sem við viljum finna í samstarfsaðilum okkar og verkefninu sem heild,“ segir Magdalena og bætir við: „Við viljum líka hvetja fólk til þess að kynna sér verkefni annarra og mynda teymi. Það er svo mikils virði.“
Hvernig skilgreinið þið sjálfbærni?
M: „Við veljum samstarfsaðila eftir landsvæði og notum þann efnivið sem svæðið býður upp á. Allir vilja vera sjálfbærri þessa dagana. En það er ekki hægt að vera sjálfbær þegar við treystum enn á vöruinnflutning. Við viljum nota það sem er í kringum okkur og finna nýjar og betri leiðir til þess að nýta þær auðlindir.“
S: „Akkúrat, þetta er ekki lengur bara möguleiki, endurvinnsla er ekki nóg. Við höldum að Hacking Hekla muni hvetja fólk og ýta þeim aðeins lengra. Við þurfum að endurskipuleggja hvernig við hugsum.“
Erfiðir tímar gefa af sér nýjungar
Hacking Hekla er einskonar óformleg en praktísk kennsla í sjálfbærni. Í þessu ferli kveikjum við smá sjálfstraust í fólki og breytum þannig hugsunarhætti þeirra. Við búum í landi margra áskoranna en líka möguleika.
Við vitum öll af mikilvægi þess að finna skapandi lausnir á eyjunni okkar. Eftir efnahagshrunið 2008 blómstraði frumkvöðlasenan. Síðasta ár var eins, með flestum lausnamótum sem haldin hafa verið á Íslandi. Faraldurinn ýtti undir flutninga fólks úr stórum borgum á minni staði. Margs konar störf er nú hægt að vinna að heiman og þá þarf heldur ekki að keyra eða fljúga einhvert til þess að mæta á fundi. Þetta er frábær þróun fyrir umhverfið allt og sum okkar eru e.t.v. orðin vön því að vinna fjarri asa og látum stærri staða.
Er eitthvað fleira sem þið viljið segja lesendum blaðsins?
M & S: „Skráið ykkur á Hacking Norðurland! Allir sem eru með hugmynd í maganum eða vilja læra um frumkvöðlastarfsemi, þróun og sjálfbærni. Hér er tækifæri til þess að sigrast á óttanum við sviðsljósið. Það er mikill persónulegur ávinningur af því að taka þátt í slíkum viðburði og hver veit, kannski er þetta skref í átt að framtíðinni. Og já, sigurvegarinn fær verðlaun!“