Sudokuþraut ritlistarnema: Jólabók Blekfjelagsins kemur út í 10. skipti
Síðastliðin ár hafa meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands fengið það strembna verkefni að skrifa smásögur í ákveðnum orðafjölda. Jólabók ritlistarnema kemur út um miðjan desember og hver saga bókarinnar þarf að vera nákvæmlega 91 orða löng.
Námsleiðin ritlist var sett á fót árið 2008 og varð fljóttgífurlega vinsæl. Í vor var það í fréttum að inntaka í námið væri að verða sama eldraun og í læknanám, sem frægt er fyrir ströng inntökuskilyrði og erfitt inntökupróf. Spekúlantar í bókaútgáfabransanum þakka margir hverjir náminu fyrir hve framboð góðra handrita hefur aukist undan farin ár, og því deginum ljósara að námið er að skila sér út í samfélagið.
Jólabók ritlistarnema hefur komið út árlega síðustu tíu árin og þetta ár er því sérstakt hátíðisár. Sögurnar í fyrstu bókinni urðu að vera nákvæmlega 100 orð og á hverju ári er eitt orð tekið af orðafjöldanum. Eftir standa, sem áður segir, 91 orð í þetta skiptið.
Þema bókarinnar í ár er „grautur“. Helgi Grímur Hermannsson, einn meðlimur skipulagsteymis útgáfunnar, segir að þó svo að teymið eyði bróðurparti annarinnar í að skrifa og ritstýra sögunum í bókinni, sé það einkum leikgleði sem einkennir þessar jólabækur ritlistarnemanna. Fólk vandi sig en taki þessu þó ekki of hátíðlega.
Það hefur lengi fylgt jólunum að í aðdraganda þeirra föndri fólk og njóti samveru hvers annars í einhvers konar undirbúningi. Helgi segir jólabók Blekfjelagsins einhverskonar jólaföndur, sudokuþraut upprennandi skálda og rithöfunda þessa lands. Sögurnar eru um það bil 30 talsins og þó svo að þemað sé grautur, eru þær allar mjög ólíkar. Þemað sé í rauninni bara kveikja, og höfundar sagnanna geta oft endað einhvers staðar allt annars staðar en innan þess.
Kápuhönnuður bókarinnar í ár er Berglind Erna Tryggvadóttir, ritlistarnemi. Skipulagsteymið, sem sér um yfirlestur, ritstjórn og útgáfu, skipa Birna Stefánsdóttir, Berglind Ósk Bergsdóttir, Helgi Grímur Hermannsson og Sunneva Kristín Sigurðardóttir. Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarnema, gefur út.
Bókin, Grautur, sem mun fást í öllum helstu bókabúðum, kemur út 16. desember og Blekfjelagið heldur útgáfuhóf í bókabúð Sölku klukkan 17:00 sama dag.