Ávarp alþjóðafulltrúa LÍS

Ég heiti Erla Guðbjörg og er alþjóðafulltrúi LÍS, Landssamtaka Íslenskra Stúdenta, og læknanemi á fjórða ári í Kýpur. Alþjóðafulltrúi hefur margvíslegar skyldur og mun ég greina frá þeim hér að neðan.

Alþjóðafulltrúi sér um öll alþjóðleg verkefni LÍS. Ég útskýri oft mitt helsta hlutverk sem milliliður þar sem vinna mín felst mikið til í því að flytja þekkingu milli staða. Ég sæki alþjóðlegar ráðstefnur, fundi og samráð, miðla upplýsingunum svo aftur til Íslands og til okkar aðildarfélaga. Með þessari vitneskju reynum við svo að bæta hag íslenskra stúdenta, til dæmis með því að skrifa yfirlýsingar. Alþjóðafulltrúi sér einnig um að koma upplýsingum frá Íslandi á framfæri erlendis. Þá geri ég mitt besta til að miðla þekkingu, gildum og sjónarmiðum okkar fulltrúaráðs til að bæta aðstæður stúdenta á stærri mælikvarða. 

Meðal ábyrgða alþjóðafulltrúa er einnig að vera annar tveggja verkefnastjóra Student Refugees Iceland (SRI). SRI var upprunalega verkefni stofnað í Danmörku en varð hluti af störfum LÍS árið 2019. SRI er byggt á þeim grundvelli að öll hafi rétt til menntunar, líkt og kveður á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. SRI vinnur að því að tryggja  öllum sanngjarna gæðamenntun og stuðla að tækifærum til símenntunar fyrir öll. Sjálfboðaliðar SRI hjálpa flóttafólki og hælisleitendum að sækja um háskólanám á Íslandi, veita þeim upplýsingar um umsóknarferlið og hvaða hindranir gætu staðið í vegi fyrir þeim. 

Alþjóðafulltrúi hefur líka umsjón með Alþjóðanefnd LÍS. Ég er heppin að sitja yfir nefnd skipaða fjórum snjöllum og metnaðarfullum einstaklingum. Nefndin fundar einu sinni eða tvisvar í mánuði til að undirbúa væntanlega viðburði með því að lesa yfirlýsingar, gera breytingartillögur og deila hugmyndum. Í augnablikinu erum við að búa okkur undir stjórnarfund Samtaka Evrópskra stúdenta (e. European Student Union, ESU) þar sem við vonumst til að standa vörð um og styrkja félagslega stöðu námsmanna og rétt þeirra til náms.  

Síðan í mars 2020 hefur vinna alþjóðafulltrúa farið fram með rafrænum hætti. Þrátt fyrir margar breytingar frá upphafi faraldursins, kemur í ljós að alþjóðlegt samstarf og samskipti hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Þau brýnu mál sem við stöndum nú frammi fyrir, þ.e. Covid-19 og loftslagsmálin, eru heimsmál sem krefjast lausna strax. Við höfum ekki tíma til þess að bíða eftir því að hver þjóð fyrir sig finni upp hjólið. Við verðum að tala hvort við annað. Eina leiðin til að berjast fyrir framtíð okkar með góðum árangri er með því að skiptast á skoðunum og miðla hugmyndum yfir landamæri og höf.