Að vera utanaðkomandi

Þýðing: Árni Pétur Árnason

„Ég skil ekki.“

Mín fyrsta minning af upphafi annar og firringunni sem því fylgir er áratuga gömul og handan hafsins, ár og öld síðan samhengið hvarf úr dagsdaglegu tungutaki. Ég átti í erfiðleikum með tungumál. Í æsku minni lærði ég ensku að móðurmáli, fyrst í ríki þar sem Marathi var hið almenna mál og síðar í öðru þar sem Hindí var nauðsynlegt, og glímdi samtímis við „náttúrulegt“ móðurmál mitt, Bengölsku. Tungumál eru hluti af mínum innsta kjarna og það að hafa fjarlægst samskipti sem æðra fyrirbrigði, í stað þess að ríghalda í málin sjálf líkt og sandkorn, gerði mér kleift að líta eðli þess að vera „öðruvísi“ í víðara samhengi en ella.

Að vera utanaðkomandi er ekki erfitt. Það er auðvelt og má notfæra sér síðar á lífsleiðinni. Ríkmannlegan refil eigin sögu má fela eða hylja með gælnum óskum um einrúm, en á milli okkar allra liggja gljúfur sem ekki verða brúuð með þeirri kurteisi sem þá stendur eftir. Að vera utanaðkomandi er hins vegar flóknara en svo að hafna megi ónauðsynlegum samfélagssáttmálum. Slíkar eru rökleysur mannshugans þegar á móti blæs. Það að tilheyra, að vera ekki utanaðkomandi, að skiljast liggur handan menningarlegra siða. Hvert okkar hefur ekki upplifað sig einangrað eða fjötrað væntingum náungans?

Misskilningar eiga sér stað í tíma og ótíma, milli fólks, menningarheima og iðna. Samskipti gera misskilning mögulegan. Okkur sárnast sjaldnast vanhæfni okkar til að lesa flókna fræðitexta úr greinum sem við höfum enga reynslu af en mannkynið reynir samt sem áður að skilja eðli þess að vera utanaðkomandi, blindað af barnslegum hroka.

Hvað merkir það að vera utanaðkomandi þá? Er það að sanka að sér tilvikum velgjörða, líkt og erfðaeinvaldur í höllu sinni, en hvorki geta né vilja launa fyrir sig? Er það að neita að kæfa sitt litla „sjálf“ og laga sig að hegðunarmynstri tíu nálægustu prímatanna, meðvitaður um að síðustu dreggjar annarleikans, þess að hafa ekki upplifað hina sömu atburði, að líta ekki eins út, mun aldrei þrjóta.

Að vera utanaðkomandi er að vera á eilífum vergangi. Líkt og Adam og Evu var sparkað úr Eden, er annarleikinn það að átta sig á því sem aldrei breytist. Heimkoma til staðarins sem „hinn utanaðkomandi“ fór eitt sinn frá léttir ekki byrði þessa annarleika sem hann hefur upplifað. Né heldur getur hún þurrkað út snúna samstöðu þeirra sem eftir voru á hinni hliðinni. Hinn innfæddi má þola nístandi óþægindi í báðum vistkerfum. Eins og stórir fiskar í litlum tjörnum, er það að skilja ekki innbyggt, „utanaðkomandi“ eðli sitt hið sama og að mega reyna þá lítt öfundsverðu hendingu að opna sig aldrei fyrir því sem liggur handan mans nánasta umhverfis.

Það að tilheyra er hins vegar annars konar þrautseigja. Trú á einhvers konar heild. Von. Það að tilheyra er að eiga sér samastað í eilífðinni. Að verða hluti og deild fortíðar, nútíðar og framtíðar. Listin að vera utanaðkomandi hlýtur þá að vera það að að eiga sér ekki slíkan stað í eilífðinni. Að tilheyra ekki. Að gera sér engar væntingar aðrar en að þurfa að fara burt, eða þá grillu að vera ekki öðruvísi en þau hin.


ViewpointRohit Goswami