Útópía MC Myasnoi
Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir
Í kvöld, 22. október, er gigg í íbúð á Freyjugötunni. Þegar ég mæti er hópur tónlistarmanna að slaka á og blanda geði, annað hvort að horfa á vini spila eða bíða eftir að stíga á svið. Ég geng í gegnum eldhúsið og inn í stofu sem hefur verið breytt í bráðabirgðasvið sem er hulið hjóðfærum, mögnurum, pedölum, snúru og öðrum tæknigræjum. Hátalararnir ramma inn sviðið á báðum hliðum og hljóðneminn skapar mörkin milli listamannsins og áhorfenda. Staðurinn einkennir sjarma neðanjarðarsenunnar í Reykjavík.
MC Myasnoi, raftónlistarsveit frá Rússlandi og Íslandi, er á dagskránni í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé þau spila. Þetta reynist vera eftirminnileg sýning þar sem flytjendur og áhorfendur njóta hlýju og nálægðar hvors annars. Hópurinn er greinilega allur í takt en fólkið tekur að dansa af merkilegri samhæfingu. Seinna hugsa ég til orkunnar sem einkenndi flutninginn og staðinn, innilega ánægð með árangur þessarar músíksenu.
Fáeinum vikum seinna stekk ég út úr leigubíl í Skipholtinu. Í dag er ég að hitta Yulíu Vasilieva og Ronju Jóhannsdóttur, listrænu hugsuðina á bak við MC Myasnoi verkefnið, í spjall í íbúðinni hennar Ronju sem gegnir einnig hlutverki stúdíós. (Þriðji meðlimur MC Myasnoi, Ekaterina Lukianova, dvelur í útlöndum og verður því ekki með.) Ég er forvitin að vita hvað þær, sem þátttakendur í þessari heillandi senu, geta sagt mér um tónlistarflutning, lífið og listina.
Hver er MC?
Það tekur ekki langan tíma, eftir að hafa sest í sófann með Yuliu og Ronju, að átta mig á að MC Myasnoi er meira en hljómsveit. Á meðan við spjöllum verður mér ljóst að MC Myasnoi sé í raun hugsjón. „MC Myasnoi er ekki mennskt,“ útskýrir Ronja þegar samtalið tekur á sig mynd. Yulia bætir áköf við „Þetta er tilvistarlegt fyrirbæri“ MC Myasnoi persónugerir ómennskan eiginleika sem finnst samt í okkur öllum, segja tónlistarkonurnar. „Þetta er eitthvað sem fólk verður að vera opið fyrir. Það getur verið ógnvekjandi en allir myndu græða á því að samþykkja það,“ segir Yulia kankvíslega og þær flissa báðar. Hvers kyns tilvistarlegt fyribæri er MC Myasnoi? Ég geri tilraun til að vefja utan af þessari ráðgátu eftir því sem samtalinu miðar áfram.
“Kapitalism Makes No Sense”
Ég bið Yuliu og Ronju að skýra fyrir mér hugsunina á bak við lagatitil þeirra „Kapitalism Makes No Sense“ sem birtist á smáskífunni „Factorial. А почему бы и нет“ (Jú, seinni hluti titilsins er vissulega á rússnesku.) En hvað gæti verið rökréttara en kapítalismi? Við leggjum höfuð okkar saman í bleyti í leit að svörum. Oft er sagt að það sé einfaldara að ímynda sér heimsendi heldur en lok kapítalismans. Ég velti upp skorti á útópískum frásögnum, í okkar menningu, sem virðist hæfari í því að framleiða dystópíur.
„Við getum ekki séð fyrir okkur endalok kapítalismans, það er auðveldara að ímynda sér heimsendi, en MC Myasnoi sér þetta.“ segir Ronja og Yulia bætir hratt við „Nákvæmlega, nákvæmlega. MC brýtur hjóðnema, MC brýtur hjörtu og MC ætlar að brjóta kapítalismann. Þarna er hugsjónin um hvernig fólki geti verið bjargað. Ég held að allur peningurinn ætti að fara til MC Myasnoi og hann myndi þá deila honum skynsamlega milli fólks.“ Ég bendi á að þá hljómi MC Myasnoi sem einhverskonar líkamslaus endurúthlutunarvél, framtíðarafsprengi viðvarandi tæknibyltingar. Mig fer að dreyma um kommúníska og tæknivædda framtíð þar sem gervigreind stjórnar úthlutun auðlinda í samfélaginu. (Afsakið, kæru hægrisinnuðu lesendur.)
Það er vert að nefna að þótt þær séu fallegar á pappír getur jafnvel bjartasta hugmyndafræði verið viðkvæm fyrir spillingu á þann hátt að fólkið sem framkvæmir og viðheldur þeim gæti verið spillt. Það hefur sannast aftur og aftur að vald veldur tilhneigingu til spillingar. „Þannig er MC Myasnoi svolítið eins og velviljaður einvaldur. Þá er öllum birgðum safnað saman og svo dreift til allra,“ útskýrir Ronja. „Ég held það hjálpi að MC Myasnoi sé ekki mennskt, þetta er tilvistarlegt fyrirbæri,“ minnir Ronja mig á. „Einstaka manneskjur eru breyskar en sameiginlegt ímyndunarafl okkar þarf ekki að vera það.“
Einræðisherra eða spámaður?
Nú þegar hlutverk MC Myasnoi, sem velviljaður einvaldur, er skýrt erum við nálægt því að komast að sömu niðurstöðu og David Bowie á Thin White Duke tímabilinu sínu, sem er það að rokk stjörnur séu nefnilega einræðisherrar. „Sviðið er í raun hlutur stigveldis. Það myndar valdamun þar sem flytjandinn stendur ofar áhorfendum og ég hata þessa tvískiptingu,“ segir Ronja. „Mig langar helst að fella sviðið úr gildi.“ „En við verður samt að gera fólki ljóst að við séum aðeins æðri þeim,“ tekur Yulia fram glettnislega. Ronja útskýrir svo „Ekki við, heldur MC Myasnoi, ómennska fyrirbærið. Við persónulega erum ekki MC Myasnoi, við veitum bara skilaboðum fyrirbærisins í gegnum okkur.“ Í þessu ljósi minnir MC Myasnoi helst á töfralækni eða spámann sem setinn er öndum og leiðir mannmergð í gegnum sameiginlega, hreinsandi upplifun. En hvora hlið MC sjá áhorfendur á sýningu?
Afnemum sviðið!
Það kemur í ljós að móttökur áhorfenda hafa mikið með staðinn og flutningssvæðið að gera. Í ljósi fyrri sýninga MC fannst okkur uppákoman á Freyjugötunni sérlega vel heppnuð. Teppalagt brágðabirðasviðið, hlýlega og persónulega stemmningin á staðnum gerði MC kleift að koma verki sínu á framfæri. Á seinni sýningu í Iðnó, sem ég var svo heppin að sjá, urðum við vitni þeirra áhrifa sem plássið hefur á áhorfendahópinn. Klassíska útlit Iðnó innanhúss, sem vísar til sögu og hefða, háa sviðið þar og samhverft plássið leiddi til þess að fólk var ólíklegt til að færast nær sviðinu. Sviðið í Iðnó, bendir Yulia á, „var eins og kassi, eða gamalt sjónvarp.“ Vísun Yuliu í sjónvarp á vel við miðað við þá aftengdu stöðu sem áhorfandinn var settur í á þessari sýningu
Hið gyllta búr Marks Zuckerberg
Talandi um rými! Samfélagsmiðlar, stafrænt rými sem leggst sífellt meira á efnislegan heim okkar, er endurtekið þema í textum MC Myasnoi. Ég rifja upp línu af smáskífunni þeirra: „Ég er í hinu gyllta búri Marks Zuckerberg.“ Stelpurnar flissa dálítið en Yulia útskýrir svo „Samfélagsmiðlar eru huggulegt rými. En þú ert samt læst inni.“ Ronja heldur svo áfram, „Þetta er þægilegur dofi, heildstæð ábreiða yfir samfélaginu. Heilalaus þægindi.“ „Þótt við séum föst þá er það pínu fyndið að við séum föst,“ veltir Yulia upp. „Það er smá kaldhæðni og húmor í því.“
Á heildina litið ýkir MC Myasnoi ímyndarsmíðina eins og hún finnst í stafrænu umhverfi okkar og hæðist þannig að framsetningu sjálfsmyndar í samfélaginu í dag. Tónninn er háðskur og það ætti að liggja í augum uppi að þær séu að skemmta sér að þessu. „Góður eiginleiki listarinnar er að hún fær fólk til að hugsa. Ég held það sé líka markmiðið okkar. Það er gott að tileinka sér að vera meðvitað um lífið og það sem er að gerast í kringum þig,“ dregur Yulia saman.
Með því lauk spjalli mínu við Yuliu og Ronju, boðbera MC Myasnoi, velviljaðs einræðisherra okkar, og leiðir okkar skilja á léttum nótum. Með MC Myasnoi er myrkur framtíðarinnar nokkrum tónum bjartara. Skál fyrir útópíunni!