Ítölsk Tónlist Handan Eurovision: 5 hlustunarverðir listamenn
Ítalska tónlistarsenan hefur undanfarið hlotið sérstaka athygli í heiminum. Sigurvegarar Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva 2021, Måneskin, tók fljótt yfir Evrópu og restina af heiminum með magnaðri frammistöðu og skeytingalausu viðhorfi, eins og alvöru fólk af kynslóð Z. Hljómsveitinni tókst að grafa undan, allavega að einhverju leyti, staðalímyndum um hvernig ítölsk lög ættu að hljóma. Sannleikurinn er sá að tónlistarveruleikinn á Ítalíu er um margt ólíkur O’Sole Mio og mun alþjóðlegri en margan grunar. Textarnir eru oft djúpstæðir, pólitískir, örvæntingafullir, bitrir og óþægilegir. Stefnurnar ná allt frá andrúmstónlist (e. ambient) til pönks, frá gruggi (e. grunge) til framsækni (e. experimental) og svo framvegis.
Hér hef ég safnað saman nokkrum ítölskum listamönnum sem, að mínu leyti, eru hlustunarverðir til að fá smá hugmynd um hvernig ítölsk tónlist hljómar handan varnargarðs söngvakeppninnar.
Caparezza
Eitt af stærstu nöfnum rapptónlistar á Ítalíu síðastliðin tuttugu ár. Hvorki gulltennur né framhjáaksturs-skothríðir, bara þykkir lokkar af krulluðu hári, sem er auðkenni listamannsins. „Caparezza“ þýðir bókstaflega „krulluhaus“ á mállýskunni sem töluð er í heimabæ hans, Molfetta, sem er í suðurhluta Apulia. Þemu laga hans eru oft pólitísk, en stundum felst í þeim sjálfsskoðun. Textarnir eru umdeildir og einblína á þung umræðuefni með kaldhæðni og léttleika. Síðustu tvær plötur hans Prisoner 709 og Exuvia tákna ferð tónlistarmannsins í gegnum eigin huga eftir að hann byrjaði að þjást af eyrnasuði, sem er röskun sem býr til stöðugan tón í eyrunum.
Uppáhalds lögin mín eru: La mia parte intollerante, Sono il tuo sogno eretico og Mica Van Gogh.
I Ministri
Í orði, jaðarrokkhljómsveit, hvað sem það nú þýðir. Á borði, ein af lágstemmdu þráhyggjum mínum síðastliðin tíu ár. Að öllu gamni slepptu held ég að ég hafi séð þá á tónleikum allavega tuttugu sinnum.Hverjir tónleikar eru ný upplifun samansett af of sterkum tilfinningum til að hægt sé að lýsa þeim án þess að stama. Penninn er kraftmikill hlutur, annars vegar er hann stundum notaður til að skrifa undir lög og til að breyta þeim, hins vegar er hann stundum notaður til að semja lög. I Ministri, sem má alls ekki rugla við Ministry með “y”, búa ekki bara til tónlist, þeir taka í hönd þína og leiða þig þangað. Þeir búa til aðferðafræðilega óreiðu, öskrandi á kerfið án þess að vera endilega á móti því. Textar þeirra eru oft innblásnir af bókmenntum, en í öðrum tilfellum takast þeir á við þversagnir í samfélaginu, sérstaklega ítölsku samfélagi. Þeir þora að segja frá og upplýsa og eru sjaldan tilgerðarlegir.
Uppáhalds lögin mín eru: Le mie notti sono migliori dei vostri giorni, Tempi bui og Gli alberi.
Iosonouncane
Indí? Rokk? Framsækið? Raftónlist? Popp? Svarið við þessu öllu er já. Mér finnst hann einn af fjölbreyttustu og áhugaverðustu nútíma-tónlistarverkefnunum. Hann kemur fólki sífellt á óvart. Áhrifa lagasmíða hans má greina í sumum lögum. Sum önnur falla fullkomlega á milli kvikmynda frá Nicolas Winding Refn og kvikmynda frá Truffaut. Það ótrúlega er að þessar tvær öfgar virka saman. Fyrir nokkrum mánuðum síðan fór ég á eina af tónleikum hans á almennri hátíð á suður Ítalíu. Frá byrjun til enda voru áhorfendur agndofa, þeir ferðuðust á ótroðnum slóðum, en algjörlega heillaðir af rafmögnuðum hljómum og textaleysi, sem gerði pláss fyrir enn meiri tilfinningar.
Mín uppáhalds lög eru: Tanca, Hiver og Vedrai, vedrai.
Antunzmask
Þjóðlög, grugg, stundum pönk, en alltaf samkvæmur sjálfum sér. Fyrir Antunzmask er vegur tónlistar fyrst og fremst vegur lífsins. Í lögum hans segir hann frá persónulegri reynslu og því sambandi sem hann á við tónlist. Á þennan hátt hafa lögin tvær hæðir þar sem samtímis byrjar hann samtal við tónlistina og tónlistin byrjar samtal við áheyrendur. Tæknin er hrá og “eins og hún er”, sem er kannski svolítið erfitt að skilja tafarlaust án nokkurs samhengis. Stíll sem er innblásinn af daglegu lífi og smávægilegum pirringi; timburmönnum, reyk, eymd.
Mín uppáhalds lög eru: Campari e Gin og Struppiato.
Paolo Angeli
Þessi eins-manns-hljómsveit gerir tilraunir með hljóð og með hljóðfæri. Þjóðsögur og nútíminn sameinast blíðlega í gegnum tónlist Paolo Angeli, gítarleikara og tónskálds frá Sardiníu. Gaurinn bókstaflega fann upp nýtt hljóðfæri, 18 strengja Sardiníugítarinn. Listamaðurinn er líka þjóðtónlistarfræðingur og sameinar frjálsan djass og þjóðlög með framúrstefnulegum ramma. Hann gerir tónlistarstefnu, sem annars virðist órjúfanleg, aðgengilega og gerir það á mjög einfaldan og beinan hátt.
Mín uppáhalds lög eru: Andira, Fuga dal mouse og Sùlu.
Þetta eru aðeins örfáir af þeim fjölmörgu tónlistarmönnum sem semja tónlist frá hjarta ítalskrar tónlistarsenu. Sumir þeirra syngja um ástand samfélagsins og óréttlæti, aðrir um augnablik úr daglegu lífi, enn aðrir nota hvorki orð né texta. Þrátt fyrir það vekur hver þeirra upp tilfinningaleg viðbrögð á ólíkan hátt og af margvíslegum ástæðum. Það má vera að þessar tónlistarráðleggingar séu ekki þinn tebolli, en það er gott að vera meðvitað um tilvist margvíslegs tónlistarlegs úrvals lands sem hefur aldrei hætt að tjá sig á alla mögulega vegu, handan Söngvakeppninnar.