Þýðingamikil alþjóðareynsla

Mynd: Sara Þöll Finnbogadóttir

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einsett sér það markmið að koma á laggirnar evrópsku „háskólasvæði“ þvert á háskóla og landamæri, þar sem a.m.k. 50% nemenda, á öllum stigum náms, búa að alþjóðareynslu við útskrift. Þá skiptir ekki máli hvort sú reynsla fari fram í staðnámi, fjarnámi eða samblöndu þessa tveggja. Þetta kemur fram í Erasmus+ verkefnaleiðbeiningum sem voru gefnar út 2020 og á að raungera fyrir 2025.

Samstarf á heimsvísu

Þetta er aðeins eitt af metnaðarfullum markmiðum leiðbeininganna sem hafa það að markmiði að umturna umhverfi æðri menntunar í Evrópu með sameiginlegum og sveigjanlegum námsleiðum, byggðum á þverfaglegu námi. Námið feli í sér samstarf á heimsvísu þar sem námsefnið er sniðið að nemandanum. Sömuleiðis ætlar Erasmus+ sér að leggja aukna áherslu á verk- og starfsnám sem hjálpar nemendum að þróa með sér hugarfar frumkvöðuls og styrkir borgaralega þátttöku þeirra. Framkvæmdastjórnin leggur víða áherslu á skapandi og nýstárlega starfsemi í leiðbeiningunum og kallar í raun eftir gagngerri endurskoðun á menntun á háskólastigi, sem sumir myndu halda fram að sé löngu orðin tímabær.

Opinn og alþjóðlegur háskóli

Á hverju ári berast Erasmus+ þúsundir styrkjaumsókna frá hinum ýmsu verkefnum, hvaðanæva úr Evrópu og eitt þeirra verkefna sem hlotið hafa fjármagn frá þeim er Aurora samstarfið sem Háskóli Íslands er einmitt þátttakandi í. Markmiðin sem lögð eru fram í verkefnaleiðbeiningum Erasmus+ snerta því háskólann beint og hafa haft mótandi áhrif á stefnu hans (HÍ26) en opinn og alþjóðlegur háskóli er ein af fjórum megináherslum stefnunnar. Það er meðal annars þess vegna sem háskólinn bauð sjö nemendum að taka þátt í svokölluðu „Design Thinking Jam-i” í Tarragona á Spáni í síðasta mánuði.

Mikilvægi alþjóðareynslu

Í stuttu máli má segja að „Design Thinking“ sé hugmyndafræði sem leggur áherslu á að sjá áskoranir í nýju ljósi, endurskilgreina vandamál og komast að skapandi lausnum á skömmum tíma. Ferlið gerir kröfu um að þátttakendur stígi út fyrir þægindarammann og skapi áþreifanlegar niðurstöður í formi frumgerða af hugsanlegum lausnum. Og það var einmitt það sem við gerðum í Tarragona.

Yfirskrift vinnustofunnar á Spáni var Hvernig geta háskólar tryggt að þýðingamikil alþjóðareynsla sé hluti af námi allra Aurora nemenda? Þetta er, eins og sjá má, afar háleitt markmið. Til samanburðar má nefna að aðeins um 2-3% nemenda við Háskóla Íslands nýta sér þá möguleika til skiptináms sem í boði eru á hverju ári. Spurningin er því hvernig við getum farið að því að brúa þetta bil. Hvernig getum við mætt markmiði Erasmus+ og veitt að minnsta kosti 50% nemenda tækifæri til skiptináms fyrir árið 2025? Þetta var vandamálið sem hópur um 25 nemenda, sem stunda nám í skólum víðs vegar um Evrópu, reyndu að tækla á þremur dögum á Spáni. Það virðist ef til vill ómögulegt að finna langvarandi lausnir við þessum viðamikla vanda á aðeins örfáum dögum en það kæmi ykkur á óvart hvað hópur nemenda með fjölbreytta reynslu að baki sér og viljann til að breyta námsumhverfinu til hins betra getur áorkað í réttu umhverfi, með réttri aðstoð.

Út fyrir þægindarammann

Við unnum hratt og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur alla ævi tekist á við fullkomnunaráráttu, var erfitt að slíta sig frá hefðbundnum verkferlum, s.s. að forgangsraða sköpun á áþreifanlegum lausnum á skömmum tíma fram yfir lausnir sem hugsaðar voru í þaula. Það er þó þannig að þú kemst ekki að því hvers þú ert í raun megnugt nema með því að fara út fyrir þægindarammann. Á aðeins þremur dögum tókst hópnum að afmarka fimm áhyggjuatriði sem gætu, að hluta til, útskýrt hvers vegna tiltölulega fáir nemendur nýta sér þau tækifæri til skiptináms sem boðið er upp á innan þeirra háskóla. Enn fremur tókst okkur að skapa frumgerðir af lausnum sem voru síðan kynntar á „biannual-i“ Aurora, 24 tímum eftir að vinnustofunni lauk. Þar voru fulltrúar 11 háskóla innan Evrópu viðstaddir og vonin er að þau muni aðstoða við frekari þróun lausnanna sem og innleiðingu þeirra inn í skólana.

Hópurinn tók meðal annars fyrir hvernig útfæra mætti skiptinám svo það henti þörfum foreldra í námi, hvaða stuðning mætti veita nemendum erlendis sem takast á við rasisma, kvíða, þunglyndi eða tungumálaörðugleika, hvernig megi móta tækifæri svo að þau nái sérstaklega til minnihlutahópa sem líta ef til vill ekki á skiptinám sem raunhæfan möguleika fyrir sig og hvernig megi auglýsa tækifærin sem Aurora býður nemendum upp á svo þau nái til sem allra flestra.

Mótandi áhrif alþjóðareynslu

Þetta snýst ekki eingöngu um að mæta markmiði Erasmus+ heldur snýst þetta einnig um að bjóða nemendum okkar upp á heildræna menntun sem metin er að verðleikum. Menntun sem veitir ekki aðeins prófskírteni heldur hjálpar stúdentum að þróa með sér hæfileika og getu sem ekki er endilega lögð áhersla á í hefðbundinni skólastofu. Við hljótum að vilja útskrifa nemendur sem búa að samskiptahæfni og sjálfstrausti. Við viljum útskriftarefni sem eru skapandi, opin og sjálfsörugg og það er það sem alþjóðareynsla kennir. Hún kennir hlustun á sjónarmið önnur en þín eigin og að koma eigin sjónarmiðum til skila. Hún kennir þér að standa á eigin fótum og veitir þér tengslanet sem nær út fyrir landsteinana. Þýðingamikil alþjóðareynsla mótar þig sem manneskju, reynir á þig og veitir þér tækifæri til að vaxa. Þú kemst ekki að því hvað þú ert í raun megnugt um nema með því að fara út fyrir þægindarammann.