Hjarta í miðju háskólasamfélagsins: Viðtal við Óttarr Proppé um Bóksölu stúdenta
Saga Bóksölu Stúdenta hófst í lítilli kompu í kjallara Aðalbyggingarinnar og hún hefur nú verið starfrækt í yfir 50 ár. Lengst af var Bóksalan til húsa í Stapa en flutti síðan yfir á Háskólatorg þegar það var opnað í lok ársins 2007. Stúdentablaðið ræddi við Óttarr Proppé verslunarstjóra um sögu Bóksölunnar og sérstöðu hennar. „Þegar háskólatorg opnaði varð það einhvern vegin að hjarta í miðju háskólasvæðisins og um leið háskólakúltúrsins,“ segir Óttarr aðspurður um núverandi staðsetningu Bóksölunnar. Með háskólatorgi hafi orðið til ákveðin miðja sem tengir allar byggingar háskólans og fræðasviðin saman. „Bóksalan tekur það mjög alvarlega að vera hluti af þessu hjarta en ekki bara búð með nauðsynjavörur, þó að þær eigum við auðvitað líka til.“ Óttarr segir að það hafi verið mikill missir þegar covid-faraldurinn byrjaði og háskólasvæðinu var lokað. „Þá störðum við bara út í tómið.“
Stærsti smásali landsins þegar kemur að eyrnatöppum
Í Bóksölunni er ekki einungis að finna bækur og ritföng heldur kennir þar ýmissa grasa og má meðal annars finna tíðavörur, tannbursta, ritföng, eyrnatappa og öngla til að hengja upp myndir á Stúdentagörðunum. Háskólasamfélagið nær, eins og Óttarr bendir á, nefnilega utan um miklu meira en bara námið. Háskólinn teygi þar að auki anga sína víða og þjónusta Bóksölunnar nær oft langt út fyrir svæði hans. „Það kemur mér alltaf á óvart hvað maður hittir marga úr ólíkum kimum samfélagsins sem leggja leið sína á Háskólatorg.“ Starf Bóksölunnar getur því verið ansi fjölbreytt og oft kemur á óvart hvaða vörur seljast mest hjá þeim. „Ég veit ekki hvort það er satt eða ekki, en ég heyrði því einhvers staðar fleygt að Bóksalan væri einn stærsti smásali landsins þegar kemur að eyrnatöppum,“ segir Óttarr.
Frá heilbrigðisráðherra til bóksala
Óttarr Proppé hóf störf sem bóksali hjá Almenna bókafélaginu áður en hann varð tvítugur og starfaði sem bóksali í tuttugu ár, lengst af hjá Máli og menningu, áður en hann sneri sér að stjórnmálum og gegndi meðal annars starfi heilbrigðisráðherra. Hann kom óvænt aftur inn í bókabransann þegar hann byrjaði að vinna í Bóksölunni árið 2018 og fannst heillandi tilhugsun að taka þátt í háskólasamfélaginu með þessum hætti.
Ég spyr Óttarr hvað sé það besta við starfið sem bóksali. „Bækur eru svo lifandi hlutir. Það eru alltaf að koma nýjar bækur og ný „trend“ og engir tveir dagar eru eins. Svo verður bara að segja eins og er að bækur draga að sér skemmtilegt og athyglisvert fólk.“ Ég spyr Óttarr nánar út í þetta. „Já, það var einn bóksali sem ég heyrði eitt sinn orða það svoleiðis að bókabransinn væri yfirleitt þannig að maður hitti bara skemmtilegt fólk. Lítið um skíthæla.“
Stundum koma upp óvæntar uppákomur í Bóksölunni eins og þegar henni var lokað vegna covid eða þegar flóðið varð síðasta vetur. „Þegar við héldum að covid væri loksins að verða búið þá kom flóðið. Það var hringt í okkur um miðja nótt og við áttum von á því að allar bækurnar hér væru blautar og skemmdar en það slapp nú betur en á horfðist hjá okkur.“ Engar alvarlegar skemmdir urðu á Bóksölunni í flóðinu, þau fengu þó vatn inn á lagerinn hjá sér en það olli ekki miklum skaða. „Við höfðum þó svolitlar áhyggjur því þetta er tvennt sem fer afar illa saman, vatn og bækur.“ Stundum fá þau líka óvæntar fyrirspurnir sem þau þurfa að bregðast við. „Maður veit aldrei hvaða óvæntu fyrirspurn maður fær upp í hendurnar. En við gerum alltaf okkar besta til að leysa úr þeim, og okkur finnst líka gaman þegar fyrirspurnir eru dálítið flóknar og erfiðar.“
Alltaf með loftnetin úti
Ég spyr Óttarr hvernig þær bækur sem ekki er námsefni eða fræðiefni er valið inn í Bóksöluna. „Það kæmi mér ekki á óvart ef upp undir helmingurinn af titlafjöldanum í búðinni væru bækur sem ekki eru tengdar ákveðnum námskeiðum. Við erum með mjög reynsumikla innkaupamenn, sum hafa verið hérna áratugum saman, og erum líka í nánu sambandi við útgefendur. Svo erum við alltaf með loftnetin uppi og reynum að fylgjast með því hvað er í umræðunni og hverju fólk gæti haft áhuga á. En þetta er alltaf svolítil tilraunamennska.“ Þau reyni eftir megni að þjónusta háskólaumhverfið, bæði nemendur og kennara og aðra starfsmenn háskólans. Að sumu leyti séu þau líka hverfisbókabúð háskólasvæðisins og Vesturbæjarins. „Það eru auðvitað einhverjar þúsundir sem búa hér og háskólasvæðið sjálft er eins og meðalstórt þorp.“ Bóksalan sé þar að auki hálfgerð forlagsbúð fyrir Háskólaútgáfuna. „Við reynum að eiga alltaf bækur sem gefnar eru út hjá Háskólaútgáfunni til hjá okkur, jafnvel þó að það séu eldri bækur.“ Sölutölurnar komi stundum á óvart. „Bækur sem eru metsölubækur hjá okkur þykja kannski stundum dálítið sérviskulegar en seljast þó oft miklu betur heldur en metsölubækur í öðrum bókabúðum.“
Hvað gerir góða bókabúð?
Árið 2019 var Bóksala stúdenta útnefnd besta bókabúð Reykjavíkur hjá Reykjavík Grapevine. Ég spyr Óttarr hvað geri góða bókabúð að hans mati. „Ég er þeirrar skoðunar að bókabúð sé ekki bara verslun með vörur, þó hún þurfi auðvitað að vera með réttu bækurnar og nóg af þeim og geta afgreitt þær, heldur eigi hún líka að vera staður þar sem að fólki líður vel.“ Bókakaffið sem staðsett er í Bóksölunni gegni meðal annars þessum tilgangi og margir fastakúnnar komi þangað á hverjum degi til að fá sér kaffibolla. Það sem geri bókabúð skemmtilega sé að það komi stöðugt nýjar bækur inn í búðina og nýir og spennandi titlar. „Fyrir mér er góð bókabúð hreinlega bókabúð sem maður getur komið í á hverjum degi eða í hverri viku og upplifað eitthvað nýtt í hvert skipti.“
Verslunarmaður, sálfræðingur og stjörnuspekingur í senn
Nú berst talið að jólunum sem nálgast óðum og jólabókaflóðinu sem þegar er hafið. „Við reynum að fá inn flestar þær bækur sem gefnar eru út fyrir jólin og af því að við erum námsbókabúð erum við með lægri álagningu en gengur og gerist þannig að við bjóðum upp á afar samkeppnishæf verð. Svo bjóðum við líka upp á innpökkun og erum alltaf á svæðinu til að aðstoða fólk við að velja jólagjafir.“ Metsölulistinn þeirra fyrir jólin sé oft frekar mikið á skjön við almenna metsölulista. „Það er dálítið gaman að því. Bækur sem eru tengdar háskólasvæðinu og fræðunum seljast vel hjá okkur og eru því ofarlega á metsölulistanum. Síðustu árin hafi orðið algjör sprenging í sölu á ljóðabókum og smásögum. „Það segir örugglega mikið um ákveðin „trend“ hjá yngri lesendum og háskólanemendum. Við reynum auðvitað að svara þessu eins og hægt er og eiga alltaf til nýjar ljóðabækur. Við höfum líka alltaf voða gaman af því að taka þátt í sérviskunni með okkar kúnnum.“
Jólabókaflóðið segir Óttarr vera einstakt. „Það eru mjög fá samfélög þar sem að bækur og bókmenntir verða svona almannaáhugaefni í öllu samfélaginu í tvo mánuði eins og hér. Og það er náttúrulega algjör draumur fyrir bóksala að vera í því umhverfi.“ Það geti þó reynst snúið að finna réttu jólabókina fyrir kúnna. „Það sem mér finnst alltaf mjög gaman við að vinna í bóksölu er að hver bók er svo persónuleg. Hún er aldrei bara vara eða síður með fullt af upplýsingum því lesandinn bætir alltaf ímyndunarafli sínu og reynsluheimi við hana. Þannig verður hún partur af honum. Svo er bókin alltaf öðruvísi þegar maður les hana aftur. Hún breytist með hverjum lesanda.“ Það skiptir því máli að væntanlegur lesandi sé með bók í höndunum sem hentar honum. „Oft þarf bóksalinn að vera hálfgerð samblanda af verslunarmanni, sálfræðingi og stjörnuspekingi, maður reynir að taka kúnnan út og ímynda sér hvað það er sem viðkomandi myndi vilja lesa.“