Heimildarmyndir til að horfa á í jólafríinu

Nú líður að annarlokum og langþráðu jólafríi. Hvað er betra til að hvílast eftir langa lotu af heimanámi og verkefnaskilum en að gleyma sér yfir áhugaverðri heimildamynd? Hér hef ég valið fjórar ólíkar myndir, svo að öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Stories We Tell  - Sarah Polley (2012)

Mynd: IMBD

,,Ég hef áhuga á því hvernig við segjum sögur um líf okkar. Hvernig sannleikurinn um fortíðina er gjarnan hverfull og erfitt að slá föstum.“ 

Heimildamyndinni Stories We Tell er leikstýrt af kanadísku kvikmyndagerðarkonunni Söruh Polley. Þar kannar hún sögu fjölskyldu sinnar og tekur persónuleg viðtöl við systkini sín, föður og önnur skyldmenni til að reyna að átta sig betur á fortíð móður sinnar sem sem lést úr krabbameini. Viðtölin færa Polley á óvæntar slóðir og fá hana til að velta fyrir sér grundvallarspurningum um eigin uppruna og sjálfsmynd. Heilt á litið má þó segja að kvikmyndin fjalli í raun um það hvernig við segjum sögur, bæði um okkur sjálf og fólkið í kringum okkur. Ólíkir aðilar eiga sér ólíkar útgáfur af fortíðinni, en sannleikurinn er á reiki og ef til vill ekki til. Á ferðalagi Polley eru óvæntar kreppur og beygjur sem halda áhorfendum á tánum. Kvikmyndin Stories We Tell segir hjartnæma og hlýja sögu sem nálgast viðfangsefni sitt á frumlegan og eftirminnilegan hátt. 

Stories We Tell er meðal annars aðgengileg á Amazon Prime og síðunni ​​documentarymania.com.


Finding Vivian Maier - John Maloof og Charlie Siskel (2014)

Mynd: IMDB

Finding Vivian Maier segir frá óvæntri uppgötvun John Maloof, ungs manns sem kaupir kassa af negatífum filmurúllum á uppboði. Fyrir hreina tilviljun uppgötvar hann þar heillandi ljósmyndir, teknar af Vivian Maier, óþekktri konu sem stuttu síðar átti eftir að verða einn frægasti götuljósmyndari heims. Heimildarmyndin, sem segir frá leit Maloof að sögu þessa dularfulla ljósmyndara, fékk tilnefningu til Óskarsverðlaunanna árið 2015. Vivian var nefnilega hvorki ljósmyndari né blaðamaður, heldur barnfóstra. Fá vissu af ljósmyndaáhuga hennar þó hún hafi tekið fleiri en 150.000 myndir sem flestar fanga mannlífið á götum Chicago, New York og Los Angeles. Margar þeirra sá hún ekki einu sinni sjálf, því eftir hana lágu kassar fullir af óframkölluðum ljósmyndum. Hver var Vivian Maier? Af hverju steig hún aldrei fram? Og hvað varð um hana? Takturinn í þessari heimildarmynd er heillandi og kemur manni stöðugt á óvart.

Finding Vivian Maier er meðal annars aðgengileg á Amazon Prime og Apple TV


Cave of Forgotten Dreams - Werner Herzog (2010)

Mynd: IMDB

Í heimildarmyndinni Cave of Forgotten Dreams fær margverðlaunaði þýski leikstjórinn Werner Herzog einstakan aðgang að Chauvet-helli í Suður-Frakklandi. Hellirinn geymir nokkur af elstu hellamálverkum mannkynssögunnar, en Herzog fékk sérstakt leyfi frá menningarmálaráðherra Frakklands til þess að mega taka upp inni í hellinum sem er lokaður almenningi. Þar birtist áhorfendum heillandi heimur sem vekur ótal spurningar um raunveruleika fólksins sem bjó verkin til. Tugþúsunda ára gömul lófaför á hellisveggjunum eru súrrealísk sjón, í senn kunnugleg og framandi. Herzog nálgast viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum, talar bæði við vísindamenn og sagnfræðinga, en nálgast málverkin líka á tilfinningalegum grundvelli. Stórkostleg mynd um sjálfan kjarna mennskunnar og sköpunarþörf mannsins.

Cave of Forgotten dreams er aðgengileg á síðunni watchdocumentaries.com.


The Moon Inside You - Diana Fabiánová (2009) 

Mynd: IMDB

The Moon Inside You er slóvakísk heimildarmynd frá árinu 2009 sem fjallar um blæðingar kvenna. 

Leikstjóri myndarinnar, Diana Fabianova, upplifði sjálf líkamlegan sársauka og erfiðleika í kringum blæðingar sínar, en fann engar myndir um þetta efni. Hún ákvað því að búa eina slíka til sjálf. Af hverju forðumst við að tala opinskátt um blæðingar? Hvernig birtast þær í samfélaginu og hvernig upplifa konur þær? Hvað segja sérfræðingar? Heimildarmyndin blandar kenningum ólíkra aðila, jafnt mannfræðinga, sálfræðinga, blaðamanna, kvensjúkdómalækna sem magadanskennarra, en auk þess birtast gömul fræðslumyndbönd og skýringar í formi teiknimynda. Eru konur viðskotaillar og kvartgjarnar þegar þær eru á blæðingum, eða gefa hormónabreytingar þeim kjark til að segja það sem þeim raunverulega finnst? Áhugaverð og hugrökk umfjöllun sem snertir á fjölmörgum málefnum, allt frá kynjapólitíkinni að baki getnaðarvörnum til persónulegrar reynslu.

The Moon Inside You er meðal annars aðgengileg á síðunni dafilms.com, gegn vægu gjaldi, fyrir rúmar 400 krónur.