Duolingo-ráð: Svona getur þú bætt tungumálakunnáttu þína
Við þekkjum flest þennan litla, sæta fugl. Grænu ugluna sem sendir okkur skilaboð á hverjum degi: „Hæ, þetta er Duo,“ byrja þau og síðan fylgja hvetjandi skilaboð. Margir lesenda hafa eflaust strengt það áramótaheit við upphaf nýs árs að læra nýtt tungumál en gefist síðan upp, hvort sem er viku seinna, í prófatörn eða af einskærri leti. Sjálfur hef ég sett mér þetta markmið tvisvar (spænsku 2018 og þýsku 2021) og haldið það í bæði skiptin. Duo hefur verið minn besti vinur síðan ég hlóð appinu fyrst niður og við höfum hist nánast daglega síðustu fjögur árin. Inn á milli hef ég dundað mér í öðrum kúrsum og ætla að nýta þá reynslu til að ráðleggja þér, kæri lesandi, um hvernig best er að haga málunum þegar Duolingo er notað í tungumálanámi.
1. Ekki ana bara áfram.
Allt tungumálanám byggist á því að treysta þann grunn sem lagður hefur verið og bæta svo ofan á hann. Þú ert ekki að fara að læra þáskildagatíð eða óraunveruleg skilyrðissambönd ef þú kannt ekki grunnmálfræðina. Það er fátt mikilvægara en að fara aftur yfir borð sem þú hefur áður lokið við og rifja upp, sama hversu leiðinlega það hljómar. Ég féll í þessa holu í dönskukúrsinum og endaði með að byrja aftur frá byrjun þar sem ég var ekki með á nótunum. Vertu betra en ég!
2. Kauptu málfræðibækur
Duolingo er um margt gott en mál- og beygingafræðikennsla er ekki sterkasta hlið þess. Þegar komið er út í óreglulegar sagnir er ekkert hjálplegra en gott uppflettirit. Flestar betri bókaverslanir hafa ágætt úrval kennslubóka eins og Correcto fyrir spænsku, Sådan siger man fyrir dönsku og Latnesk málfræði auk fjölda annarra.
3. Nýttu sögurnar
Duolingo býður upp á fjölda smásagna á spænsku, portúgölsku, frönsku, þýsku, ítölsku og japönsku. Sögurnar eru lesnar upp á meðan þú fylgir eftir textanum. Þannig eru lesskilningur og hlustun æfð samtímis. Erfiðleikastig smásagnanna eykst eftir því sem þú lærir meira og eru góður mælikvarði á hversu vel þú hefur tekið eftir. Ef þú átt í erfiðleikum með sögur sem þú varst að fá aðgang að þarftu líklega að skoða fyrri borð aftur.
4. Notaðu heyrnartól
Fátt er jafn mikilvægt í tungumálanámi og það að æfa hlustun. Orð festast frekar í minninu ef þú heyrir þau og því ættir þú að nota heyrnartól sem oftast.
5. Hlaðvörpin
Frönsku- og spænskunemum stendur til boða fjöldi hlaðvarpa á markmálinu (e. target language). Það hljómar líklega torsótt að fara strax að hlusta á löng hlaðvörp á öðru tungumáli en einungis um helmingur hvers þáttar er á markmálinu. Restin er á ensku og hjálpar þér að fylgjast með. Þegar þú ert kominn lengra eru hlaðvörpin kjörin til að hlusta á í bílferðum eða strætó þar sem sögurnar eru alltaf um áhugaverð, sannsöguleg efni.
6. Útbúðu minnisspjöld
Útbúðu minnisspjöld fyrir allar beygingar og þyldu þær upp þar til þú manst þær. Ef þér finnst þú síðan ekki ná að leggja orðaforða á minnið er snilld að henda honum inn í Quizlet eða sambærilegt forrit (ef þú leitar gætir þú jafnvel fundið orðapakka sem einhver annar nemandi útbjó þegar hann var í þínum sporum).
7. Hafðu samband við sérfræðinga um framhaldið
Ef þú vilt læra meira en að panta þér bjór á ströndinni er Duolingo eitt og sér ekki nóg. Þú munt á endanum átta þig á því að til þess að bæta tungumálakunnáttu þína þarftu fleiri tæki og tól. Besta manneskjan til að snúa þér til í þeim aðstæðum er manneskja sem hefur verið í þeim áður, prófessor í háskólanum, gamall kennari úr menntó eða jafnvel vinur.
9. Ekki ofgera þér
Það er betra að taka sér frí en að brenna út. Duolingo býður upp á að frysta „streak-ið“ þitt í allt að tvo daga í senn. Ef þú hefur ekki tíma eða orku til að setjast niður yfir lærdóminn skaltu geyma það og snúa þér að einhverju sem vekur áhuga þinn þá stundina.
9. Fjárfestu í Duolingo Plus
Nú er líklegt að þú, lesandi góður, sért einn af þúsundum fátækra námsmanna sem skrimta fram að næstu mánaðamótum. Ef þú hins vegar ætlar þér að ná tökum á markmáli þínu er fátt gagnlegra en Duolingo Plus. Það er vissulega næs að losna við auglýsingarnar en það sem meira er: Duolingo fylgist með framgangi Duolingo Plus-áskrifenda og þú getur þannig séð hvernig tungumálakunnátta þín eykst.