Bestu útiklefarnir á höfuðborgarsvæðinu

Desember er genginn í garð og með honum myrkustu dagar ársins. Þessi árstími getur verið strembinn og það getur verið erfitt takast á við stressið sem honum fylgir. Ég býð ykkur hér, kæru lesendur, áhrifamikla leið til að slaka á yfir jólin. Sundferð ein og sér getur gert gríðarlega mikið fyrir geðið en sundferð með viðkomu í útiklefanum er eitthvað allt, allt annað. Þú stendur í köldu lofti og leyfir því að leika um þig. Andar út og horfir á gufuna leysast upp í myrkrinu. Klæðir þig úr, finnur kuldann læðast upp hrygginn og vefur handklæðinu fast um þig. Stígur inn í sturtuklefann, undir berum himni, leyfir vatninu að ylja þér. Tiplar síðan á tánum yfir í heita pottinn, lætur þig sökkva ofan í heitt vatnið. Spennan í vöðvunum og umframhugsanir í hausnum líða úr þér, leka ofan í vatnið og hverfa. Í stutta stund ert þú einungis til í þessu samhengi. Myrkrið, gufan, kalt loftið og þú. Útiklefar eru alltaf góð hugmynd, sama hvert þú ferð í sund, en hér mæli ég sérstaklega með þremur klefum. Þeir hafa allir sína styrkleika og sína galla en eiga það sameiginlegt að vera í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Árbæjarlaug

Mynd: Mandana Emad

Mynd: Manda Emad

Árbæjarlaug ætti að vera flokkuð sem þjóðargersemi. Hún er falin djúpt í Árbænum (þó ekki mjög vel, strætóleið 5 stoppar stutt hjá) og byggingin sjálf er næg ástæða til að gera sér ferð þangað. Þegar gengið er inn mætti halda að stigið væri inn í hliðstæða veröld gerða úr gleri, vatni og plöntum. Sömu sögu er að segja um útiklefanum, sem er hringlaga og opið er upp í himininn. Í miðju rýminu hefur trjám og runnum verið komið fyrir bak við tvo litla bekki sem hægt er að tylla sér á og leyfa hreinu loftinu að leika um sig. Langur bekkur liggur meðfram endilöngum veggnum á annarri hlið klefans og andspænis honum er glerveggur sem vísar í inniklefann. Því miður eru engar útisturtur í Árbæjarlaug og því er er nauðsynlegt að ganga í gegnum inniklefann í átt til laugar. Andrúmsloftið í útiklefanum bætir þó margfalt upp fyrir þann galla og ég get því fundið það í mér að fyrirgefa það. Þetta fyrirkomulag býður einnig upp á gott tækifæri fyrir byrjendur eða kuldaskræfur að prófa útiklefa þar sem hlýr inniklefinn er ekki langt undan ef kuldinn reynist ykkur um megn.

Sundhöll Reykjavíkur

Mynd: Mandana Emad

Mynd: Mandana Emad

Sundhöll Reykjavíkur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér því hún er svo aðgengileg frá Háskólasvæðinu, það tekur einungis tuttugu mínútur að rölta þangað. Ég hvet fólk eindregið til að grípa sundfötin með sér næst þegar það á leið upp í skóla og prófa að taka stutta sundferð í hádeginu eða í lok dags. Aðkoman að útiklefunum í Sundhöllinni er dásamleg. Úr afgreiðslunni er gengið til hægri meðfram gluggunum sem vísa út að sundlauginni. Þar opnast hurð sem gengið er út um og síðan niður stiga, en efst í þessum stiga má staldra við og njóta útsýnisins yfir Austurbæinn. Útiklefarnir sjálfir liggja meðfram endilangri sundlauginni og eru byggðir úr steypu og dökkum við. Fremst í klefunum er svæði til að skipta um föt en þar eru líka læstir skápar sem er vandfundið í flestum útiklefum landsins og fá því stóran plús í mínum bókum. Lengra inni í klefanum má finna upphitað baðherbergi, þurrkasvæði og síðast en ekki síst, útisturturnar sem standa úti undir berum himni eins og ég vil helst hafa þær. Ég ykkur að þið munuð ekki sjá eftir því að kíkja í Sundhöllina næst þegar ykkur vantar góða afsökun til að fresta lærdómnum um klukkutíma eða svo.

Guðlaug á Akranesi

Mynd: Mandana Emad

Mynd: Mandana Emad

Akranes er vissulega ekki partur af höfuðborgarsvæðinu en hins vegar tekur það aðeins um þrjú korter að koma sér þangað frá miðbænum. Ég tel það vera nægilega nálægt til að leyfa mér að setja Guðlaugu á þennan lista. Hvað útiklefana varðar, þá myndu klefarnir sjálfir aldrei rata á þennan lista ef þeir væru við einhverja aðra laug. Þeir eru ósköp litlir og dimmir auk þess sem þeir eru um fimmtíu metra frá lauginni sjálfri. Síðan eru sturturnar ekki í klefunum heldur úti við laug, en þær eru þá aðallega ætlaðar til að skola saltið úr sjónum af sér. Það er Guðlaug sjálf, sem tryggir hið rólega og slaka andrúmsloft sem ég er búin að predika um í þessari grein. Laugin er ósköp látlaus þegar gengið er að henni þar sem hún hreiðrar um sig í varnargarðinum við sjóinn. Fallega mótuð úr steypu teygir hún sig niður í fjöruna og vísar út að hafinu. Á góðviðrisdegi er þaðan útsýni alla leið til Reykjavíkur og þegar það er vont veður er hægt að liggja í skjóli ofan í lauginni og fylgjast með öldurótinu. Útiklefinn er því nokkurs konar aukaatriði hér en upplifunin er sú sama. Heitt vatnið, gufan, sjávarloftið; þetta gerist varla betra.

Góð ráð

-        Ég mæli með að grípa með inniskó í útiklefann. Oft er gólfið afar kalt og það getur skipt sköpum að sleppa við að standa á því berfóta. Þetta ráð á sérstaklega við þegar kíkt er í Guðlaugu, en frá klefunum og að lauginni er dálítill spölur.

-        Fyrir þau sem eru með sítt hár ráðlegg ég að hafa með í för teygju eða hárklemmu. Það getur verið mjög gott að koma blautu hárinu burt meðan verið er að þurrka sig eftir sundið. Því fyrr sem þið þurrkið ykkur, þeim mun fyrr getið þið byrjað að klæða ykkur í hlý fötin.

-        Mætið í þægilegum fötum. Það er ekkert leiðinlegra eftir sund en að troða sér í gallabuxur eða þrönga skyrtu. Þið getið jafnvel tekið þetta skrefinu lengra og mætt með með náttföt og farið í þeim heim - það er fátt huggulegra.

-        Skiljið símann eftir heima. Grípið tækifærið og njótið þess að vera alveg aftengd umheiminum í þann tíma sem það tekur ykkur að kíkja í sund.