Anna og Snædís kynna leikárið 2021-2022

Í leikhúsinu má alltaf finna sér eitthvað við hæfi, hvort sem það er á dimmum vetrarkvöldum eða björtum vordögum. Í ár geta leikhúsgestir séð sínar uppáhalds bækur lifna við á sviði, hlegið og grátið með þekktum sögupersónum og velt fyrir sér stóru spurningunum. Fjallað verður um heimsendi, menningaráresktra, kynlífshjálparbækur, heitar ástir, fjölskyldubönd og svo miklu meira!

Við kynnum því hér með þær sýningar sem við erum spenntastar fyrir að sjá á komandi leikári, með krossaða fingur!  

Borgarleikhúsið

Ein komst undan - frumsýnd í janúar 

Mynd: borgarleikhusid.is

Á ljúfu síðdegi sitja fjórar nágrannakonur saman í bakgarði einnar þeirra og sötra te. Hvað gæti farið úrskeiðis? Allt, ef marka má leikrit Caryl Churchill (f. 1938), Ein komst undan, sem sett verður á fjalirnar í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur næstkomandi janúar. Hversdagslegt teboð rennur saman við hörmungar og náttúruhamfarir og skyndilega er heimsendir yfirvofandi. Og þó - er eitthvað sem fær stöðvað fjórar eldri vinkonur? Í þessu magnaða verki sameina fjórar af ástsælustu leikkonum þjóðarinnar krafta sína, þær Edda Björgvinsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Margrét Ákadóttir og Margrét Guðmundsdóttir.

Tu jest za drago eða Úff hvað allt er dýrt hérna - frumsýnd í febrúar

Leikhópurinn PóliS setur hér á svið leikandi létta sýningu um ungt par sem kemur til Íslands til þess að vinna og safna peningum fyrir brúðkaup sitt heima í Póllandi. Á ferðalaginu lendir það í ýmsum ævintýrum og hittir fyrir alls konar furðufugla. Úr verður stórfyndið leikrit um samskipti þessara tveggja vinaþjóða og menningarárekstrana og fyndnu augnablikin sem oft fylgja þeim. Sýningin fer öll fram á pólsku en fyrir íslensku- og enskumælandi áhorfendur verður textun í boði. 

Umbúðalaust - frumsýningar frá desember til maí

Ýmsir sviðslistahópar stíga á svið í Borgarleikhúsinu og fjalla umbúðalaust um sjóðandi heit málefni á borð við pýramídasvindl, markaðsvæðingu femínisma, kynlífshjálparbækur, mjúka karlmennsku og kósíheit auk þess að velta því fyrir sér hvað leynist í geymslum landsins.

Á vísum stað - frumsýning í desember 

How to make love to a man - frumsýning í mars 2022

Femcom - frumsýning í maí 2022

Þjóðleikhúsið

Mynd: thjodleikhusid.is

Framúrskarandi vinkona - frumsýnd í desember 

Gestir Þjóðleikhússins geta átt von á alvöru ítalskri leikhúsveislu þar sem öllu verður tjaldað til við sviðsetningu á hinum skarpgreindu vinkonum, Lilu og Elenu, sem hafa farið sigurför um heiminn. Lila og Elena alast upp í fátækrahverfi í Napólí á sjötta áratugnum og þurfa að beita öllum brögðum til þess að komast af, brjótast til mennta og berjast fyrir betra lífi í harkalegu umhverfi. Þetta er saga um flókna vináttu, heitar ástir, afbrýðisemi, sárar fórnir, æðruleysi og örvæntingu í heimi þar sem ofbeldi ræður ríkjum og réttur kvenna er lítilsvirtur. Stórkölluð stórsýning með mörgum af fremstu leikkonum landsins.


Sem á himni - frumsýnd í apríl 

Hér á ferð er heillandi söngleikur sem leikur á allan tilfinningaskalann með ægifagurri tónlist og litríkum persónum. Verkið gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, jafnt gleði þeirra og sorgir. Heimsfrægur hljómsveitarstjóri á hátindi ferils síns sest óvænt að í þorpinu og bæjarbúar ákveða að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Maðurinn á sér sársaukaþrungin leyndarmál og vill reyna að draga úr skarkala heimsins, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Sagan er hrífandi og fjallar um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina. 

Mynd: thjodleikhusid.is

Jólaboðið - komin í sýningar  

Áhorfendum er boðið að gægjast inn í stofu hjá íslenskri fjölskyldu á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili. Sagan hefst árið 1914 þegar Íslendingar eru byrjaðir að stunda togaraútgerð og fyrri heimsstyrjöldin geisar, rafmagn er nýtt á nálinni og spænska veikin er handan við hornið. Umrót heillar aldar afhjúpast þegar fjölskyldan kemur saman á jólunum; seinni heimsstyrjöldin, hippatímabilið, tæknivæðing þjóðfélagsins og um leið vandræði fjölskyldunnar við að aðlaga sig breyttum háttum og innbyrðis venjum. Hér er á ferð leikandi sviðsetning íhaldssamrar fjölskyldu sem reynir að berjast gegn framrás tímans. 

Þjóðleikhúskjallarinn

Það er ýmislegt spennandi á boðstólum í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur. Margrét Erla Maack býður upp á Jólasukk í desember og Hádegisleikhúsið heldur áfram að gleðja áhorfendur með ýmsum kræsingum. 

Jólasukkið með Margréti Makk - frumsýnd í desember

Hádegisleikhús - komin í sýningar

Tjarnarbíó

Fíflið - frumsýnd vor 2022 

Að hafa völd yfir öðru fólki er vandasamt og þess vegna þurfa allir konungar á hirðfífli að halda, einhverjum sem dregur þá í sundur með háði og gerir völd þeirra hlægileg. Fíflinu leyfist að segja nánast hvað sem er í návist konungsins – svo framarlega sem það er fyndið. Hér segir frá hirðfíflum allra tíma og heimshluta þar sem rýnt er í þetta samband fíflsins og valdsins. Getur fíflið haft raunveruleg áhrif á sögunnar rás og eru fíflið og kóngurinn ef til vill ein og sama persónan þegar allt kemur til alls?

Mynd: VHS

VHS krefst virðingar - komin í sýningar

Uppistandshópurinn VHS hefur notið mikilla vinsælda undanfarin misseri og skemmtir nú áhorfendum með nýju uppistandi í Tjarnarbíó. En hver eru eiginlega þessi VHS? Og af hverju krefjast þau virðingar? Hópurinn lofar geggjaðri kvöldstund og mögulega ótrúlegasta uppistandi Íslandssögunar … hver veit?